Facebook icon Twitter icon Forward icon

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um stjórnsýslu fornleifaverndar á Íslandi

Mánudaginn 14. maí kom út skýrsla Ríkisendurskoðunar um stjórnsýslu fornleifaverndar á Íslandi. Skýrslan hefur verið í vinnslu í tæpt ár. Minjastofnun Íslands fagnar skýrslunni og tekur heilshugar undir þær ábendingar sem þar koma fram. Sérstaklega vill stofnunin benda á þriðja kafla skýrslunnar þar sem fjallað er um mikilvægi fornleifaskráningar fyrir íslenskt samfélag og sem grundvöll allrar ákvarðanatöku varðandi nýtingu, rannsóknir og varðveislu minja á Íslandi. Skýrslu Ríkisendurskoðunar má nálgast hér.

Erlent samstarf

Ársfundur Félags forstöðumanna minjastofnana í Evrópu (EHHF) var haldinn í Lúxemborg dagana 16. til 18. maí og sótti starfsfólk Minjastofnunar Íslands fundinn. Forstöðumaður stofnunarinnar, Kristín Huld Sigurðardóttir, lauk þriggja ára setu sinni í stjórn samtakanna á þessum fundi. Meginefni fundarins var umfjöllun um endurnýtingu iðnminja og nýtt hlutverk fyrir þær. Haldnir voru fyrirlestrar um efnið, dæmi rakin og skoðaðar áhugaverðar endurnýttar minjar. Meðal þeirra var Esch-Beval þar sem málmverksmiðja hefur fengið nýtt hlutverk sem íbúðarhverfi og háskóli. Var áhugavert að sjá hvernig verksmiðjan var varðveitt í megindráttum og nýjar byggingar teiknaðar af snilld og smekkvísi inn í laus svæði. Íslendingar geta lært margt af Lúxemborgurum um hvernig fella má saman gamalt og nýtt á smekklegan hátt þannig að bæði minjar og ný hönnun njóta sín.

Garðar - lifandi minjar

Fimmtudaginn 26. apríl sl. stóðu Minjastofnun og FÍLA (Félag íslenskra landslagsarkitekta) fyrir málstofu um gamla garða á Íslandi undir nafninu Garðar – Lifandi minjar. Með hugtakinu garðar – lifandi minjar var í þessu samhengi átt við svæði sem mynda afmarkaðar heildir byggðar upp af mannvirkjum og gróðri. Innlendir og erlendir sérfræðingar héldu erindi á málstofunni og mæltist hún vel fyrir.

Minjaþing í Skaftárhreppi

Þann 27. apríl sl. var haldið Minjaþing á Kirkjubæjarklaustri. Fyrir hönd Minjastofnunar fluttu minjaverðir Norðurlands vestra, Guðmundur S. Sigurðarson, og minjavörður Suðurlands, Uggi Ævarsson, erindi. Guðmundur kynnti Evrópuverkefni, ANHP, sem tekur ma. til Skaftártungu og Uggi talaði almennt um menningarlandslag í Skaftárhreppi. Í lok þings var skálað fyrir hinni nýútkomnu bók Fornar leiðir í Skaftárhreppi eftir Veru Roth. Rúmlega 40 manns sóttu þingið sem var geysilega vel lukkað. Dagskrá þingsins má finna hér.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir