Facebook icon Twitter icon Forward icon

Stofnun ársins 2016

Niðurstöður könnunarinnar „Stofnun ársins“ sem SFR framkvæmir árlega voru kynntar fyrr í mánuðinum. Í fyrra var Minjastofnun einn þriggja hástökkvara ársins en þá fór stofnunin úr 104. sæti árið 2014 upp í 44. sæti árið 2015. Stofnunin gerði sér lítið fyrir og hækkaði enn meira í ár, eða upp í 9. sæti á heildarlista stofnana og upp í 4. sæti á lista lítilla stofnana, þ.e. stofnana með 5-19 starfsmenn (var í 11. sæti árið 2015). Heildarfjöldi stofnana í könnuninni var 142 og heildarfjöldi lítilla stofnana var 16 árið 2016.
Meðal þess sem könnunin leiðir í ljós er að Minjastofnun er í 5. sæti yfir allar stofnanir þegar litið er til starfsanda, 8. sæti þegar kemur að ánægju og stolti annars vegar og jafnrétti hins vegar, 13. sæti sé litið á vinnuskilyrði og 15. sæti þegar kemur að stjórnun.
Nánari upplýsingar um könnunina má finna hér.

Undirritun verndaráætlunar

Þann 2. maí síðastliðinn var undirrituð verndaráætlun fyrir aðalminjasvæðið í Skálholti, þ.e. bæjartorfuna og næsta nágrenni þar sem m.a. er að finna tíu friðlýstar fornleifar auk tveggja friðlýstra bygginga. Áætlunina undirrituðu Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, og Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti, fyrir hönd umsjónarmanna minjasvæðisins. Áætlunin var undirrituð í lok málþings um fornleifar í Skálholti sem haldið var að frumkvæði Skálholtsfélagsins. Fjölluðu Kristín Huld Sigurðardóttir, Ásta Hermannsdóttir og Uggi Ævarsson um ýmsar hliðar minja og minjaverndar í Skálholti, fornleifaskráningu, rannsóknir og verndaráætlun fyrir aðalminjasvæðið í Skálholti. Að auki tóku til máls Mjöll Snæsdóttir, fornleifafræðingur, og Bjarni Harðarson, rithöfundur og sagnaþulur.
Verndaráætlunina má nálgast hér.

Starfsmannamál

Guðmundur Stefán Sigurðarson, fornleifafræðingur, hefur störf hjá Minjastofnun miðvikudaginn 1. júní. Guðmundur er ráðinn sem verkefnastjóri með sérstaka áherslu á strandminjar og fornleifaskráningu. Guðmundur verður staðsettur í Villa Nova á Sauðárkróki, líkt og Þór Hjaltalín, minjavörður Norðurlands vestra, og Magnús Freyr Gíslason, verkefnastjóri og arkitekt.


Rúnar Leifsson, minjavörður Norðurlands eystra, er fluttur til Akureyrar og hefur fengið skrifstofu í Borgum við Norðurslóð á Akureyri, í sama húsi og Sigurður Bergsteinsson hafði áður skrifstofu.


Þuríður Elísa Harðardóttir, minjavörður Austurlands, er flutt til Djúpavogs og er skrifstofa hennar í Geysi , Bakka 1, á Djúpavogi.

Staða ferðamannastaðaverkefna

Verkefni sem Minjastofnun fékk fjármagn úr sérstakri úthlutun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða vorið 2015 til að vinna lágu mörg hver í dvala í vetur og fram á vor. Meiri hluti verkefnanna eru framkvæmdaverkefni, minni og stærri, og stöðvuðust flest þeirra í október/nóvember vegna veðurs og flest komust ekki aftur á skrið fyrr en í apríl/maí. Mörg verkefnanna eru nú að klárast og standa vonir til þess að öllum framkvæmdaverkefnum ljúki í júní. Nokkur skipulagsverkefni eru í formlegu ferli, sem tekur sinn tíma, en þau munu klárast fyrir júlílok.

Erlent samstarf

Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður, og Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri, sóttu XI. fund European Heritage Heads Forum sem haldinn var í Bern dagana 18. til 20. maí. Rætt var almennt um varðveislu menningarminja í Evrópu og á alþjóðavettvangi. Lögð var áhersla á þrjú meginefni: stefnumótun í minjavernd í Evrópu á 21. öld, Menningarminjaár Evrópu sem haldið verður 2018 og minjar og stríðsátök.
Kristín Huld tók við sem formaður samtakanna næsta árið, en í júní 2017 verður XII. fundur samtakanna haldinn í Reykjavík.

Sumarfrí

Nú er starfsfólk Minjastofnunar, líkt og víða annars staðar, farið að tínast í sumarfrí. Aðalsumarfrístíminn er frá seinni hluta maí og fram í byrjun ágúst. Líkt og fyrri ár mun starfsfólk leysa hvert annað af og sjá þannig til þess að öll mál fái eðlilega meðferð. Hægt er að hafa samband við aðalskrifstofu Minjastofnunar í Reykjavík í síma 570-1300 eða á tölvupóstfang postur@minjastofnun.is ef ekki næst beint í þann starfsmann stofnunarinnar sem aðilar eiga erindi við.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir