Facebook icon Twitter icon Forward icon

Nýjar reglur um veitingu leyfa til fornleifarannsókna og skráningu jarðfastra menningarminja

Minjastofnun Íslands hefur sett reglur um skráningu fornleifa og friðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja og skil á gögnum þar að lútandi, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, sbr. 15. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012. Reglurnar má finna hér
Einnig hafa reglur um veitingu leyfa til fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér verið endurskoðaðar. Nýju reglurnar hafa þegar öðlast gildi og koma í stað reglna frá 2013. Nýju reglurnar má finna hér.

Menningarminjadagar Evrópu 2019

Menningarminjadagar Evrópu 2019 voru haldnir á Íslandi helgina 30. ágúst – 1. september. Þá helgi fóru fram fjórir viðburðir: Járngerðarhátíð á Eiríksstöðum í Dölum, opið hús á Tyrfingsstöðum í Skagafirði, fyrirlestrar um söðla og reiðtygi á Blönduósi og fræðsluganga um Kollsvík í Vesturbyggð. Fyrr á árinu höfðu farið fram þrír viðburðir sem hluti af menningarminjadögunum: fræðsluganga um Skaftafell, Skeiðarárhlaupið og Menningarminjakeppni Evrópu.
Samanlagður fjöldi gesta á viðburðunum hleypur á hundruðum og vill Minjastofnun Íslands þakka öllum þeim sem komu að viðburðunum: skipuleggjendum og þátttakendum, kærlega fyrir sitt framlag. Án ykkar væri ekki hægt að halda úti hátíð eins og menningarminjadögunum.
Menningarminjadögunum er ekki lokið í öllum löndum og víða er enn mikil dagskrá framundan. Hægt er að kynna sér dagskrá allra landa hér.
Menningarminjadagarnir eru hátíð sem haldin er ár hvert í þeim 50 löndum sem hlut eiga að Menningarsáttmála Evrópu. Allt frá Aserbæsjan í austri, til Portúgals í vestri og norður til Noregs. Markmið þessara daga er að vekja athygli og áhuga á ríkri og fjölbreyttri menningu þeirra samfélaga sem byggja álfuna. Á hverju ári er ákveðið þema sem flest lönd fylgja og verður þema næsta árs „Heritage and Education: Sharing skills with future generations“.

Erlent samstarf

Fundur forstöðumanna minjastofnana á Norðurlöndum (NHHF) var haldinn í Þórshöfn í Færeyjum dagana 21. – 22. ágúst. Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar, og Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri, sóttu fundinn fyrir Íslands hönd. Aðalumræðuefni fundarins að þessu sinni var vernd og varðveisla menningarlandslags. Eftir fundinn var fundargestum boðið í eyjuna Koltur sem Tjódsavnið tók nýlega við umsjón með.

Námskeið í gerð húsakannana

Dagana 14. og 15. nóvember verður haldið í Endurmenntun Háskóla Íslands námskeið um gerð húsakannana – skráningu og mat á varðveislugildi húsa og mannvirkja. Kennarar á námskeiðinu eru starfsmenn Minjastofnunar Íslands og er námskeiðið ætlað fyrir þá sem vilja öðlast þekking og færni til þess að taka að sér skráningu húsa og mannvirkja og gerð húsakannana. Samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012 skal skrá hús og mannvirki vegna skipulagsgerðar og samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 skal gera húsakönnun þegar unnið er deiliskipulag í hverfum sem þegar eru byggð. Skráning húsa og mannvirkja og gerð húsakannana er mikilvægur þáttur þess að tryggja verndun og varðveislu byggingararfsins. Húsaskrá er gagnagrunnur sem í eru skráðar upplýsingar um hús og mannvirki. Húsaskráin verður grunnur að húsakönnun þar sem lagt er mat á varðveislugildi einstakra bygginga og svipmóts byggðar. Húsakönnun er byggingarlistaleg og menningarsöguleg könnun sem felst í skráningu húsa og mannvirkja og er studd sagnfræðilegum heimildum, vettvangskönnun og mati á varðveislugildi einstakra húsa, húsasamstæða og byggðaheilda. Meira má lesa um námskeiðið hér.
 

Ferð starfsmanna Minjastofnunar til Hornstranda

Þann 15. júní síðastliðinn fóru fjórir starfsmenn Minjastofnunar Íslands, ásamt Guðbergi Davíðssyni kvikmyndagerðarmanni, í rannsóknarferð á Hornstrandir. Gera átti úttekt á friðlýstum minjum á Látrum og á Atlastöðum í Fljótavík ásamt því að sinna eftirliti með fleiri minjastöðum. Stofnunin hafði verið í sambandi við Landhelgisgæsluna, sem þurfti að sinna verkefnum með þyrlu á svæðinu á þessum tíma og ætlaði að ferja starfsmenn Minjastofnunar á nokkra minjastaði. Því miður bilaði þyrlan kvöldið áður, þannig að áætlun Minjastofnunar um könnun á svæðinu riðlaðist mikið. Þannig var ekki hægt að kanna Hælavík, herminjar á Rit og minjar á Stað og á Sæbóli eins og til stóð.
Starfsmenn óku til Ísafjarðar, þar sem hópurinn skipti liði og flugu tveir starfsmenn í Fljótavík og tveir að Látrum. Dagana 15. og 16. júní voru minjar á Látrum og í Atlavík mældar upp og skráðar. Drónar voru notaðir til að mynda og kanna svæðin. Þann 17. júní sameinaðist hópurinn og var gengið upp á Straumnesfjall og herminjar þar kannaðar. 18. júní var siglt til Ísafjarðar og síðan ekið til Reykjavíkur.
Á Hornströndum hefur að öllum líkindum verið búið allt frá því að land byggðist, en föst búseta lagðist þar alfarið af á sjötta tug síðustu aldar. Búið var í hverri vík þar sem sæmilega lendingu fyrir báta og grasnytjar var að finna. Fram til þessa hafa minjar á svæðinu ekki verið kannaðar eða skráðar á markvissan hátt. Þá hafa engar fornleifarannsóknir með uppgreftri farið fram á svæðinu.
Ljóst er að mikil þörf er á að skrá minjar á svæðinu, enda margar þeirra í mikilli hættu vegna sjávarrofs. Á Hornströndum fóru jarðýtur aldrei um til að slétta eða ræsa fram tún og eru því minjarnar ósnertar að mestu leyti. Sú aukna þekking sem af skráningu hlýst myndi nýtast vel við varðveislu menningararfsins á svo sérstöku svæði, sem og við skipulag svæðisins og ferðaþjónustu.

Starfsmannamál

Ásta Hermannsdóttir, verkefnastjóri, hefur flutt aðsetur sitt á starfsstöðina á Sauðárkróki til eins árs.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir

9. september 2019