|
Hátíðarkveðjur
|
|
|
|
|
Ársfundur Minjastofnunar Íslands
|
|
| |
Ársfundur Minjastofnunar Íslands var haldinn fimmtudaginn 28. nóvember sl. Yfirskrift fundarins var að þessu sinni menningarminjar í hættu. Sex erindi voru haldin á fundinum og fjölluðu þau um hinar ýmsu framkvæmdir og öfl sem ógna menningarminjum í landinu í dag. Í inngangserindi sínu fjallaði Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar, stuttlega um þessar ógnir en einnig um þá miklu áherslu sem lögð er á friðlýsingar náttúrustaða í landinu um þessar mundir, en sú vinna hefur margvísleg áhrif á starfsemi Minjastofnunar, svo eitthvað sé nefnt.
Góð mæting var á fundinn og vill Minjastofnun þakka öllum þeim sem sóttu fundinn kærlega fyrir komuna. Einnig fá gestafyrirlesarar, Halldór Björnsson og Þóra Ellen Þórhallsdóttir, og fundarstjóri, Ragnhildur Vigfúsdóttir, miklar þakkir fyrir sitt framlag til fundarins. Góðar og gagnlegar spurningar bárust úr sal í lok fundarins og má hlýða á þær, eins og öll erindin, á Youtube síðu Minjastofnunar.
Dagskrá fundarins og upplýsingar um erindin sem þar voru haldin má finna hér.
|
|
Minjaverndarviðurkenning 2019
|
|
| |
Á ársfundi Minjastofnunar 2019 var minjaverndarviðurkenning stofnunarinnar veitt í fjórða sinn. Minjaverndarviðurkenningin er veitt aðila, hvort heldur sem er einstaklingi, fyrirtæki, stofnun, sveitarfélagi eða öðrum aðila, sem skarað hefur fram úr á einhvern hátt á sviði minjaverndar á Íslandi.
Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, hlaut viðurkenninguna að þessu sinni fyrir ötult starf í þágu minjaverndar um áratuga skeið. Hann er vel að viðurkenningunni kominn og fyrir hönd minjavörslunnar á Íslandi þökkum við honum innilega fyrir sitt framlag til minjaverndar í landinu. Frekari upplýsingar um aðkomu Hjörleifs að vernd menningarminja og önnur tengd störf má finna hér.
Hjörleifur hélt stutta tölu eftir að hafa tekið við minjaverndarviðurkenningunni og hafði m.a. orð á því að sér fyndist að löggjafinn hafi ekki sinnt kalli að öllu leyti. Enn vanti tilfinnanlega upp á í mörgum atriðum t.a.m. þegar kemur að fornleifaskráningu í landinu, en hún sé undirstaða þess að hægt sé að átta sig á stöðunni og móta skilvirka stefnu.
„Það er fátt eins mikilvægt fyrir okkur eins og að þessi málaflokkur, menningin og undirstaða hennar, og að líf liðinna kynslóða sé dregið fram þegar menn eru að fara inn í þá óvissu sem einkennir nútímann“ (Hjörleifur Guttormsson, 28. nóvember 2019)
|
|
Starfsemi Minjastofnunar yfir jól og áramót
Lágmarksstarfsemi verður á skrifstofum Minjastofnunar Íslands yfir jól á áramót, 23. desember – 2. janúar. Hægt er að senda öllum starfsmönnum tölvupóst en sé erindið brýnt er aðalsími stofnunarinnar opinn á skrifstofutíma, kl. 9-12 og 13-16, dagana 23., 27. og 30. desember.
|
|
Sjóðir
Frestur til að sækja um styrk í húsafriðunarsjóð fyrir árið 2020 rann út 1. desember sl. Frestur til að sækja um styrk í fornminjasjóð fyrir árið 2020 rennur út 10. janúar 2020. Umsóknareyðublað má finna hér.
|
|
Leiðbeiningarit og skráningarform við gerð húsakannana
Minjastofnun Íslands hefur gefið út leiðbeiningarit um skráningu húsa og mannvirkja og gerð húsakannana. Í ritinu er gerð grein fyrir þeim kröfum sem Minjastofnun Íslands gerir um skráningu fyrir hvert skipulagsstig. Ritið er ætlað skipulagsyfirvöldum, skipulagshöfundum og þeim sem vinna að skráningu húsa og mannvirkja og gerð húsakannana.
Leiðbeiningaritið má nálgast hér.
Jafnframt er komin út ný útgáfa af skráningarforminu sem Minjastofnun gerir kröfu um að sé notað við gerð húsakannana, sem nú hefur fengið nafnið Huginn. Aðgang að Hugin er hægt að fá með því að senda ósk þess efnis á netfangið husaskraning@minjastofnun.is .
|
|
Erlent samstarf
Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri rannsókna- og miðlunarsviðs, hefur tekið sæti í sérfræðinganefnd Norrænu ráðherranefndarinnar um líffræðilegan fjölbreytileika (Nordisk arbejdsgruppe om biologisk mangfoldighet – NBM) en undir hana falla einnig loftslagsmál og menningararfur/menningarlandslag. Vetrarfundur nefndarinnar var haldinn í Osló 12. og 13. desember sl. og sótti Agnes þann fund.
|
|
Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir
Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir
19. desember 2019
|
|
|
|
|