Facebook icon Twitter icon Forward icon

Ársfundi Minjastofnunar frestað

Vegna Covid aðstæðna í samfélaginu hefur ársfundi Minjastofnunar Íslands 2021 verið frestað fram í febrúar 2022. Meginumfjöllunarefni ársfundarins verða friðlýsingar frá ýmsum sjónarhornum.

Opið fyrir umsóknir í sjóði

Opið er fyrir umsóknir í húsafriðunarsjóð og fornminjasjóð fyrir árið 2022. Umsóknarfrestur í húsafriðunarsjóð er til og með 1. desember 2021. Umsóknarfrestur í fornminjasjóð er til og með 10. janúar 2022. Sótt er um í gegnum þjónustugátt hins opinbera, island.is.
Slóðir á umsóknirnar má finna hér.

Jóladagatal

Líkt og í fyrra mun Minjastofnun halda úti jóladagatali þar sem daglega verða birtar upplýsingar um menningarminjar vítt og breitt um landið. Fylgist með á heimasíðu stofnunarinnar og Facebook síðu þann 1. desember!

Minjaráð

Minjaráð eru samráðsvettvangur um varðveislu og nýtingu menningarminja á hverju minjasvæði. Minjaráð beita sér fyrir verkefnum á sviði minjavörslu, til eflingar byggðar og atvinnusköpunar. Hægt er að nálgast allar fundargerðir minjaráðsfunda undir viðeigandi minjasvæði á heimasíðu Minjastofnunar. Þar má einnig sjá lista yfir minjaráðsfulltrúa.

Nú liggja í samráðsgátt stjórnvalda drög að reglugerð um minjasvæði og minjaráð. Umsagnarfrestur er til 6. desember 2021. Drögin má finna hér.

ICOMOS málþing

Íslandsdeild ICOMOS efnir til málþings um loftslagsbreytingar og menningararf í fundarsal Norræna hússins og á Zoom fimmtudaginn 2. desember 2021. Málþingið nefnist „Climate change and cultural heritage“  og stendur frá kl. 9.00 til 17.00. Vegna sóttvarnarreglna er fjöldi í fundarsal takmarkaður við 50 manns og gildir að fyrstur kemur fyrstur fær. Einnig verður hægt að taka þátt á málþinginu sem fjarfundi á Zoom. Vinsamlegast skráið þátttöku með því að senda tölvupóst á netfangið icomosiceland2@gmail.com og takið fram ef óskað er eftir sæti í fundarsal. Tölvupóstur með hlekk á Zoom-fund verður sendur fyrir fundinn. Málþingið fer fram á ensku og eru fyrirlesarar íslenskir og erlendir fræðimenn. Dagskrá málþingsins ásamt frekari upplýsingum má finna hér.

Evrópskar keppnir á sviði menningararfs

Opnað hefur verið fyrir umsóknir vegna viðurkenningar Europa Nostra/European Heritage Awards fyrir árið 2022. Viðurkenningin er veitt fyrir framúrskarandi árangur á sviði verndunar menningararfleifðar. Nánari upplýsingar má nálgast hér. Umsóknarfrestur er til 1. febrúar 2022. Árið 2016 hlaut endurbygging Franska spítalans á Fáskrúðsfirði viðurkenningu Europa Nostra, fyrst íslenskra verkefna.


Opnað hefur verið fyrir þátttöku í European Heritage Days Stories. Þátttökurétt hafa þeir sem: sem staðið hafa fyrir viðburðum í tengslum við menningarminjadaga Evrópu á árunum 2018-2021, eru handhafar European Heritage Label og/eða Europa Nostra viðurkenningar/European Heritage Awards. Nánar má lesa um European Heritage Days Stories hér. Frestur til að senda inn sögur er til 17. janúar 2022.

Húsverndarstofa

Vegna fjölda Covid smita verður ekki tekið á móti gestum í Húsverndarstofu næstu vikurnar. Áfram má hringja í s. 411-6333 og senda tölvupóst í netfangið minjavarsla@reykjavik.is á opnunartíma Húsverndarstofu sem er alla miðvikudaga á milli kl. 15 og 17. Húsverndarstofa verður svo lokuð frá og með 8. desember næstkomandi til 2. febrúar 2022.

23. nóvember 2021

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir