Facebook icon Twitter icon Forward icon

Fréttabréf Minjastofnunar Íslands 2016:1

 

 

Sameining Þjóðminjasafns og Minjastofnunar

Forsætisráðuneytið hefur tilkynnt að það hyggist sameina Þjóðminjasafn Íslands og Minjastofnun Íslands í eina stofnun, Þjóðminjastofnun. Nánar verður fjallað um þetta mál í næsta fréttabréfi.

Upplýsingar um umsóknir í sjóðina

Fornminjasjóður. 75 umsóknir bárust um styrk úr fornminjasjóði fyrir árið 2016. Sótt er um samtals 167,6 milljónir en til úthlutunar eru um 47 milljónir.
Umsóknirnar skiptast þannig:
Miðlun: 11 umsóknir
Rannsókn/skráning: 54 umsóknir
Varðveisla/viðhald: 10 umsóknir

Húsafriðunarsjóður. 262 umsóknir bárust um styrk úr húsafriðunarsjóði fyrir árið 2016. Sótt er um samtals ríflega 940 milljónir en til úthlutunar eru um 131 milljón.
Umsóknirnar skiptast þannig:
Friðlýstar kirkjur: 42 umsóknir
Friðlýst hús og mannvirki: 35 umsóknir
Friðuð hús og mannvirki: 119 umsóknir
Önnur hús og mannvirki: 51 umsókn
Rannsóknaverkefni: 7 umsóknir
Húsakannanir: 5 umsóknir
Verndarsvæði í byggð: 3 umsóknir

Starfsmannamál

Þrjár stöður voru auglýstar lausar til umsóknar hjá Minjastofnun Íslands í janúar. Um er að ræða stöðu fornleifafræðings á Sauðárkróki, stöðu arkitekts á Sauðárkróki og stöðu fornleifafræðings í Reykjavík. Umsóknarfrestur rann út 1. febrúar og bárust 13 umsóknir í heildina: tvær í stöður arkitekts á Sauðárkróki og samtals 11 í stöður fornleifafræðinganna. Lista yfir umsækjendur má finna hér.
Gengið hefur verið frá ráðningum í stöðurnar þrjár og voru eftirfarandi aðilar ráðnir:
Ásta Hermannsdóttir í stöðu fornleifafræðings í Reykjavík
Guðmundur Stefán Sigurðarson í stöðu fornleifafræðings á Sauðárkróki
Magnús Freyr Gíslason í stöðu arkitekts á Sauðárkróki

Vill stofnunin þakka öllum þeim sem sendu inn umsóknir og komu í viðtöl.

Nýr minjavörður Austurlands, Þuríður Elísa Harðardóttir, hefur verið í þjálfun í höfuðstöðvum Minjastofnunar í Reykjavík frá því í byrjun árs. Stefnt er að því að hún flytji austur á Djúpavog eftir páska.

Rúnar Leifsson, áður minjavörður Austurlands, hefur tekið við stöðu minjavarðar Norðurlands eystra. Rúnar verður staðsettur á Akureyri líkt og Sigurður var áður.

Vinna við kortavefsjá Minjastofnunar

Síðasta árið hefur verið unnið að talsverðum breytingum á kortavefsjá Minjastofnunar sem og gagnagrunni að baki henni. Hefur þessi vinna einkum miðað að því að bæta og einfalda skilaferli fornleifaskráningargagna til Minjastofnunar. Verkefninu lauk í byrjun janúar og er vonast til að gögn muni skila sér hraðar inn á vefsjána hér eftir. Verða þessar breytingar kynntar fornleifafræðingum og öðrum sem vinna að fornleifaskráningu á næstu vikum.
Verið er að yfirfara gögn um rúmlega 3000 fornleifar sem eru í fórum Minjastofnunar, þ.m.t. gögn um friðlýstar minjar. Verða þau gerð aðgengileg á kortavefsjánni á vormánuðum.
 

Húsverndarstofa

Húsverndarstofa á Árbæjarsafni hefur verið lokuð síðan í desember en hefur nú opnað á ný. Opið verður alla miðvikudaga frá kl. 15 til kl. 17 líkt og venja er. Á sama tíma er veitt ráðgjöf í síma 411  6333.
Frekari upplýsingar um Húsverndarstofu má finna hér.

Skemmdir af völdum óveðurs á Austfjörðum

Óveðrið sem gekk yfir austanvert landið þann 30. desember sl. fór vart framhjá neinum en menningarminjar á svæðinu urðu m.a. fyrir barðinu á náttúruöflunum. Pétur H. Ármannsson, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs, og Þuríður Elísa Harðardóttir, nýr minjavörður Austurlands, fóru í ferð austur með Viðlagatryggingum þann 6. janúar sl. og skoðuðu m.a. skemmdir á sjóhúsunum á Eskifirði. Verður úttekt Minjastofnunar notuð sem innlegg í skýrslu Viðlagatrygginga um skemmdirnar sem á húsunum urðu. Hús og mannvirki urðu þó ekki eingöngu illa úti í veðrinu heldur fréttist einnig af skemmdum á fornleifum á svæðinu. Fór Þuríður í vettvangsferð í lok janúar og skoðaði m.a. minjar við Útstekk í Reyðarfirði. Þar eru minjar sem líklega tilheyra verslunarstaðnum sem var á Útstekk á einokunartímanum og höfðu áður óséðar minjar komið í ljós í kjölfar rótsins sem óveðrið olli í fjörunni.

Minjastofnun komin með Youtube-rás

Minjastofnun er nú komin með Youtube-rás og er þar að finna erindi og pallborðsumræður frá ársfundi stofnunarinnar 4. desember sl. Ætlunin er að nýta rásina til að miðla erindum á vegum stofnunarinnar en einnig öðrum fróðleik og upplýsingum. Rás Minjastofnunar á Youtube má finna hér.

Útgáfa og erindi

EAC (European Archaeological Counsil) gaf nýlega út annað leiðbeiningarit sitt: EAC Guidelines for the use of Geophysics in Archaeology. Questions to Ask and Points to Consider (EAC Guidelines 2). Þema heftisins eru leiðbeiningar um notkun fjarkönnunarbúnaðar í fornleifafræði og er þar m.a. fjallað um notkun á vettvangi, meðferð gagna, túlkun og skýrsluskrif. Minjastofnun er félagi í EAC og hvetjum við áhugasama til að kynna sér þetta rit. Hægt er að nálgast ritið hér.

Þann 13. janúar hélt Oddgeir Isaksen, verkefnastjóri skráningarmála hjá Minjastofnun, erindi á fræðslufundi Vitafélagsins. Fjallaði Oddgeir í erindi sínu um minjar við stendur Íslands. Á undanförnum árum hafa ýmsir, bæði fræðimenn og áhugamenn um fornleifar, vakið athygli á eyðingu minja meðfram strandlínunni af völdum ágangs sjávar. Kallað hefur verið eftir mótvægisaðgerðum af hálfu yfirvalda til að stemma stigu við þessari geigvænlegu þróun og fjallaði Oddgeir m.a. í erindinu um áætlun um slíkar aðgerðir sem vonast er til að hægt verði að hrinda í framkvæmd á næstu árum.

Í Reykholti var haldinn vinnufundur íslenskra og norskra fornleifafræðinga, og reyndar eins skosks, um nýlegar rannsóknir á víkingaaldargröfum í löndunum. Fundurinn var haldinn dagana 20. - 22. janúar og var yfirskrift hans „Buried Things – Recent Discoveries of Viking Graves in Iceland and Western Norway“. Þar hélt Sigurður Bergsteinsson, verkefnastjóri fornleifarannsókna hjá Minjastofnun, erindi um leifar manneskju frá 10. öld sem fannst í fjöllunum við Vestdalsheiði vestan Seyðisfjarðar árið 2004. Óvenju mikið skart og um 600 perlur af ýmsum gerðum fundust hjá manneskjunni en engin merki voru um að hún hefði verið graflögð á staðnum. Talað hefur verið um „fjallkonuna“ í þessu samhengi, enda þykja gripir benda til þess að um konu sé að ræða þótt beinagreining hafi ekki getað gefið upplýsingar um hvort viðkomandi var kvenkyns eða karlkyns. Hefur fundurinn orðið tilefni margskonar bollalegginga um þjóðfélagsstöðu viðkomandi og ástæður þess að hann bar bein sín á þessum stað. Meiningin er að efni fundarins verði gefið út í greinasafni.

Bókagjöf

Seinni hluta síðasta árs fékk Einar Ísaksson, minjavörður Vestfjarða, veglega bókagjöf frá Safnahúsinu á Ísafirði. Var þar um að ræða Ársrit sögufélags Ísfirðinga frá upphafi vega. Ársrit sögufélags Ísfirðinga kom fyrst út árið 1956 og hefur að geyma fróðleik um þjóðlíf og mannlíf á Vestfjörðum, einkum Ísafjarðarsýslum, frá fornu farið að nýrri tímum. Gjöfin var afhent af Jónu Símoníu Bjarnadóttur, forstöðumanni Safnahússins, og færir Minjastofnun henni kærar þakkir fyrir.

Erlent samstarf

Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri rannsókna- og miðlunarsviðs, sótti stjórnarfund EAC í Nitra í Slóvakíu 15.-16. janúar sl. Á fundinum voru meðal annars kynntar nýútgefnar leiðbeiningar um fjarkannanir í fornleifarannsóknum (EAC Guidelines for the use of Geophysics in Archaeology) sem teknar voru saman af vinnuhópi á vegum samtakanna. Fulltrúi Breta kynnti undirbúning næstu ráðstefnu EAC sem haldin verður í Brighton þann 17. mars nk. Nánari upplýsingar um má ráðstefnuna má finna má finna á heimasíðu EAC.
 

Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður, og Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri rannsókna- og miðlunarsviðs, sóttu stjórnarfund EHHF (European Heritage Heads Forum) í Bern í Sviss í lok janúar. Kristín Huld situr í stjórn samtakanna. Efni fundarins var undirbúningur ársfundar/ráðstefnu sem haldin verður í Bern í maí. Fundurinn árið 2017 verður í Reykjavík og vinna Agnes og Kristín Huld að undirbúningi hans.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðaraðili: Kristín Huld Sigurðardóttir