Facebook icon Twitter icon Forward icon

Fréttabréf Minjastofnunar Íslands 2015:6

Athugasemdir við drög að stefnu í minjavernd

Minjastofnun vill minna á að frestur til að senda inn athugasemdir við drög að stefnu í minjavernd rennur út mánudaginn 22. júní. Hvetur stofnunin hagsmunaaðila og aðra áhugasama til að senda inn athugasemdir. Hægt er að nálgast stefnudrögin á heimasíðu Minajstofnunar www.minjastofnun.is.

Evrópski menningarminjadagurinn

Minjastofnun Íslands tekur þátt í Evrópska menningarminjadeginum í ár. Þema ársins er arfur verk- og tæknimenningar. Menningarminjadagurinn hefur annað snið á Íslandi en annars staðar í Evrópu, þar sem hann er haldinn alls staðar á sama tíma í september, en ákveðið var að hafa marga menningarminjadaga hér á landi og dreifa viðburðum yfir sumarið. Viðburðirnir eru af ýmsum toga og viljum við þakka þeim aðilum sem að viðburðunum standa kærlega fyrir að vilja taka þátt í menningarminjadeginum með okkur. Inni á heimasíðu Minjastofnunar (smellið hér) er nú hægt að sjá upplýsingar um Evrópska menningarminjadaginn og dagskrána hér á landi. Hægt er að sækja þar bækling með öllum helstu upplýsingum og skoða samevrópska síðu menningarminjadagsins þar sem nánari upplýsingar um alla viðburði er að finna.

Lokað eftir hádegi 19. júní

Minjastofnun Íslands lokar kl. 12 föstudaginn 19. júní þar sem starfsfólki hefur verið gefið frí eftir hádegi til að taka þátt í hátíðarhöldum vegna 100 ára kosningarafmælis kvenna.

Visitasía um Austfirði

Rúnar Leifsson, minjavörður Austurlands, og Pétur Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri Umhverfis- og skipulagssviðs, fóru í visitasíuferð um Austfirði dagana 15. og 16. júní. Farið var vítt og breitt um Fjarðabyggð og Seyðisfjörð og ýmis hús og mannvirki skoðuð, þ.á.m. Dalatangaviti, byggður 1895, sem meðfylgjandi mynd er af.

Kirkjur Íslands

Fyrir skemmstu komu út 24. og 25. bindi í ritröðinni Kirkjur Íslands. Fjalla bindin um 13 friðlýstar kirkjur í Múlaprófastsdæmi, sem nú er hluti af nýju Austurlandsprófastsdæmi. Útgáfa ritraðarinnar Kirkjur Íslands er samstarfsverkefni Minjastofnunar Íslands, Þjóðminjasafns Íslands og Biskupsstofu. Hægt er að nálgast bækurnar í öllum helstu bókabúðum.

Sumarfrí

Nú eru starfsmenn Minjastofnunar farnir að tínast í sumarfrí einn af öðrum. Stofnunin verður þó opin í allt sumar og munu þeir starfsmenn sem ekki eru í fríi sinna öllum erindum sem inn koma eftir bestu getu.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir