Facebook icon Twitter icon Forward icon

Fréttabréf Minjastofnunar Íslands 2017:4

Fundur EHHF á Íslandi

Dagana 7.-9. júní var árlegur fundur félags forstjóra minjastofnana í Evrópu, European Heritage Heads Forum (EHHF), haldinn á Íslandi. Fundurinn var settur af mennta- og menningarmálaráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni. Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, hefur gegnt formennsku í EHHF síðastliðið ár í tengslum við fundinn. Fundurinn á Íslandi var 12. ársfundur EHHF, en forstjórarnir skiptast á að veita félaginu formennsku og halda ársfundina. Í félagi forstjóranna eru fulltrúar 29 landa. Hugmyndin með fundum forstjóranna er að ræða það sem er efst á baugi í minjavernd í Evrópu hverju sinni og læra hvert af öðru. Yfirskrift fundarins í ár var: Our common Heritage – Sharing the responsibility. Við val á efni fundarins var bæði horft til íslensks og evrópsks raunveruleika og þeirra áhersluþátta sem valdir hafa verið vegna Evrópska menningarminjaársins 2018. Haldnir voru fyrirlestrar og unnið var í umræðuhópum auk þess sem fundargestir fóru í skoðunarferðir.
Meira má lesa um fundinn á heimasíðu Minjastofnunar.

Fornminjanefnd

Þann 6. júní sl. skipaði mennta- og menningarmálaráðherra nýja fornminjanefnd til fjögurra ára.

Fornminjanefnd er þannig skipuð:
Kristín Þórðardóttir, formaður, skipuð án tilnefningar
Sandra Sif Einarsdóttir, varaformaður, tilnefnd af Félagi fornleifafræðinga
María Karen Sigurðardóttir, tilnefnd af Félagi norrænna forvarða
Andrés Pétursson, tilnefndur af Rannís
Magnús Karel Hannesson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Varamenn eru:
Guðmundur Hálfdánarson, skipaður án tilnefningar
Guðmundur Ólafsson, tilnefndur af Félagi fornleifafræðinga
Sigríður Þorgeirsdóttir, tilnefnd af Félagi norrænna forvarða
Steinunn S. Jakobsdóttir, tilefnd af Rannís
Anna Guðrún Björnsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga

Erlent samstarf

Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður, og Rúnar Leifsson, minjavörður Norðurlands eystra, fóru til Limassol á Kýpur dagana 6. og 7. apríl. Þar sátu þau fund Evrópuráðsins um stefnu Evrópu í minjavernd fyrir 21. öldina (European Cultural Heritage Strategy for the 21st century). Unnið hefur verið í stefnunni í nokkur ár og var endanleg afurð þeirrar vinnu kynnt á fundinum. 

Annar stjórnarfundur EAC – European Archaeological Council á árinu 2017 var haldinn í Esslingen, Baden-Würtenberg, í Þýskalandi, 23. og 24. júní sl. Agnes Stefánsdóttir, sviðstjóri, er í stjórn samtakanna og sat fundinn.

Kuml á Dysnesi

Hér hjálpast starfsmenn þriggja stofnana að við að ná sverði upp úr bátskumli á Dysnesi. Frá vinstri: Hildur Gestsdóttir, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands, Sigríður Þorgeirsdóttir, forvörður hjá Þjóðminjasafni Íslansdm, og Rúnar Leifsson, minjavörður Norðurlands eystra.

Eins og margir hafa líklega tekið eftir fannst nýlega kumlateigur á Dysnesi við Eyjafjörð. Þar hafði Minjastofnun Íslands krafist rannsóknar á fornleifum vegna fyrirhugaðra framkvæmda við stórskipahöfn. Grunur lék á að um kuml væri að ræða og þegar grafið var niður í fornleifarnar kom í ljós að sá grunur reyndist réttur. Var þá opnað allstórt svæði í kringum kumlið og komu þá í ljós fleiri kuml, m.a. bátskuml, og er því um svokallaðan kumlateig að ræða, þ.e. svæði með fleiri en einu kumli. Hafa ýmsir gripir, s.s. sverð og spjótsoddar, fundist í þeim kumlum sem grafin hafa verið upp auk manna-, hross- og hundsbeina. Er rannsóknin á Dysnesi mjög merkileg og verður áhugavert að fylgjast með því sem þar kemur upp. Rannsóknin er unnin af Fornleifastofnun Íslands ses.

Ferð á Siglunes

Föstudaginn 16. júní fóru Rúnar Leifsson, minjavörður Norðurlands eystra, og Guðmundur St. Sigurðarson, minjavörður Norðurlands vestra og verkefnastjóri strandminja, ásamt Birnu Lárusdóttur, fornleifafræðingi hjá Fornleifastofnun Íslands ses, Örlygi Kristfinnssyni, minjaráðsfulltrúa, og aðilum úr björgunarsveitinni Strákum á Siglufirði út á Siglunes við austanverðan Siglufjörð til að kanna ástand minja sem þar eru. Siglunes á sér langa og merkilega sögu en jörðin er sögð landnámsjörð og þar var róið til fiskjar fram á 20. öld. Mikið landbrot er á Siglunesi og fer þar mikið magn minja í sjóinn á ári hverju. Ferðin var einnig nýtt til að mæla upp strandlengju nessins en þannig er hægt að fylgjast með landbrotinu. Mælingar hafa verið gerðar á strandlengjunni áður og þær er hægt að bera saman við nýjar mælingar og fá þannig yfirsýn yfir ástandið og breytingar á milli ára.

Málþing í tengslum við útgáfu Kirkna Íslands

Í tilefni af útgáfu þriggja nýrra binda í ritröðinni Kirkjur Íslands var blásið til málþings og opnunar sýningar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði þann 13. júní sl. Nýju bindin, sem eru nr. 26, 27 og 28 í röðinni, fjalla um friðaðar kirkjur í Vestfjarðaprófastsdæmi. Fyrirlesarar á málþinginu voru Þorsteinn Gunnarsson, arkitekt og ritstjóri Kirkna Íslands, Elísabet Gunnarsdóttir, arkitekt, Guðmundur L. Hafsteinsson arkitekt á Þjóðminjasafni Íslands, Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður, Séra Guðrún Edda Gunnarsdóttir og Guðmundur Rafn Sigurðsson, framkvæmdastjóri kirkjugarðaráðs. Um opnun sýningarinnar sá biskup Íslands, séra Agnes M. Sigurðardóttir.

Vettvangsskráning friðlýstra fornleifa í V-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu

Í vikunni fóru þeir Uggi Ævarsson, minjavörður Suðurlands, og Kristinn Magnússon, verkefnastjóri, í Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu til að freista þess að ljúka við vettvangsskráningu friðlýstra fornleifa á svæðinu. Skráningarferðin er liður í endurskoðun skrár yfir friðlýstar fornleifar í landinu en skráin telur 854 minjastaði sem margir hverjir ná yfir fjölda fornleifa. Stefnt er að því að ljúka skráningu friðlýstra minjastaða á þessu ári.
Við fornleifaskráningu er m.a. lagt mat á minjagildi og ástand minjanna. Slíkar upplýsingar eru nauðsynlegar þegar fjallað er um tilvist fornleifa og ekki síst þegar forgangsraða á stöðum m.t.t. rannsókna og verndaraðgerða.

Nýr möguleiki í minjagátt

Nýr möguleiki er nú aðgengilegur í minjagátt Minjastofnunar en hann felur í sér að hægt er að hlaða niður þeim landupplýsingagögnum um menningarminjar sem komnar eru inn í gáttina. Til að nýta sér möguleikann er farið inn á minjagáttina, tannhjólið valið og þar niðurhalsmerki (sjá mynd). Við það opnast gluggi þar sem hægt er að velja hvaða gögn viðkomandi vill hala niður og á hvaða formi.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir