Facebook icon Twitter icon Forward icon

Fréttabréf Minjastofnunar Íslands 2015:2

Umsóknir í fornminjasjóð og húsafriðunarsjóð

Í síðasta fréttabréfi kom fram að borist hefðu 307 umsóknir um styrki úr húsafriðunarsjóði og 73 úr fornminjasjóði. Komið hefur í ljós að þær tölur voru ekki réttar heldur er fjöldi umsókna um styrki 309 í húsafriðunarsjóð og 74 í fornminjasjóð. Leiðréttist það hér með.

Umsóknir í húsafriðunarsjóð skiptast á eftirfarandi hátt:
Friðlýstar kirkjur: 47
Friðlýst hús og mannvirki: 39
Friðuð hús og mannvirki: 148
Önnur hús og mannvirki: 55
Byggða- og húsakannanir: 8
Önnur verkefni: 12
Sótt var um samtals rúmlega 843 milljónir króna en til úthlutunar eru 135-140 milljónir.

Dreifing umsókna í fornminjasjóð eftir landshlutum er eftirfarandi:
Vestfirðir: 13
Vesturland: 13
Norðausturland: 12
Suðurland: 9
Austurland: 7
Norðvesturland: 6
Reykjanes: 4
Reykjavík: 1
Ekki bundið við landsvæði: 9
Sótt var um samtals rúmlega 162 milljónir króna en til úthlutunar eru um 40 milljónir.

Verið er að vinna úr umsóknunum og stefnt er að því að ljúka úthlutun úr báðum sjóðunum fyrir 18. mars.

Starfsmannamál

Már Einarsson lauk störfum hjá stofnuninni um síðustu mánaðamót. Már var ráðinn tímabundið til að aðstoða við uppsetningu og  innleiðingu á Go Pro.net skjalakerfisins. Vill stofnunin þakka Má kærlega fyrir samstarfið.


Gengið hefur verið frá ráðningu í stöðu minjavarðar á Vestfjörðum.  Sá sem ráðinn var heitir Einar Ísaksson og er 34 ára fornleifafræðingur, menntaður í Svíþjóð og ættaður af Vestfjörðum. Alls bárust 14 umsóknir um starfið og má sjá lista yfir umsækjendur á eftirfarandi vefslóð: http://www.minjastofnun.is/um-stofnunina/frettir/nr/1276

Flutningur skrifstofu minjavarðar Austurlands

Skrifstofa minjavarðar Austurlands var flutt frá Egilsstöðum til Djúpavogs um síðustu mánaðamót. Nýtt heimilisfang skrifstofunnar er Bakki 1, 765 Djúpivogur. Meginástæða flutningsins er að minjasvæði Austurlands er mjög víðfeðmt og því nauðsynlegt að staðsetja skrifstofu minjavarðar með tilliti til þess. Djúpivogur er á miðju minjasvæðinu og því er ljóst að hagkvæmast er að sinna svæðinu þaðan. Auk þess er stefna Djúpavogshrepps mjög minjaverndarsinnuð og menningarminjum er gert hátt undir höfði þannig að skrifstofa minjavarðar á vel heima þar.

Nýtt mála- og skjalavistunarkerfi

Í upphafi árs tók Minjastofnun í notkun  nýtt mála- og skjalavistunarkerfi, GoPro.net. Starfsfólk fór á námskeið í notkun GoPro.net hjá Hugviti dagana 20. og 21. janúar og hefur síðan þá komið saman innanhúss í tvígang til að fara yfir kerfið og bestu verkferla við notkun þess. Með innleiðingu nýja kerfisins er stórt skref stigið innan stofnunarinnar þar sem allir starfsmenn hennar skrá nú í fyrsta skipti öll mál og erindi er varða starfsemi stofnunarinnar í sama kerfið.

Starfsfólk Minjastofnunar á námskeiði

Hluti starfsfólks Minjastofnunar fór í byrjun febrúar á námskeið sem kallast Viðhald og viðgerðir gamalla húsa. Námskeiðið er samstarfsverkefni Minjastofnunar, Árbæjarsafns og Iðunnar fræðsluseturs og er þar farið yfir helstu atriði vegna viðgerða á gömlum húsum og veitt innsýn í ferli slíkra viðgerða. Einnig er lagt upp með að á námskeiðinu skapist grundvöllur fyrir umræður er snerta viðgerðir og viðhald á gömlum húsum og mótast umræðurnar af þeim hópi sem situr námskeiðið hverju sinni, en hann getur verið nokkuð ólíkur.
Eftirfarandi starfsmenn Minjastofnunar sóttu námskeiðið í þetta skiptið: Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður, Guðlaug Vilbogadóttir, sérfræðingur, Rúnar Leifsson, minjavörður Austurlands, Sigurður Bergsteinsson, minjavörður Norðurlands eystra, Þór Hjaltalín, minjavörður Norðurlands vestra og Magnús A. Sigurðsson, minjavörður Vesturlands.

Erlent samstarf

Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri, sótti stjórnarfund EAC (European Archaeological Council) í Búdapest í Ungverjalandi dagana 16. - 17. janúar. Um hefðbundinn stjórnarfund var að ræða en helsta viðfangsefni hans var að undirbúa aðalfund EAC og ráðstefnu sem haldin verður í Lissabon í Portúgal í mars.


Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri, og Oddgeir Isaksen, sérfræðingur í skráningarmálum, sóttu 11. febrúar fund í París í Frakklandi um LoCloud verkefnið. Megintilgangur fundarins var að fara yfir stöðu verkefnisins sem nú er á þriðja og síðasta ári sínu.


Rúnar Leifsson, minjavörður Austurlands, sótti dagana 22. – 24. febrúar fund EHD (European Heritage Days) í Strasbourg í Frakklandi. Hélt hann þar fyrirlestur ásamt spænskum kollega, Ana Schoebel, um aukna aðkomu grasrótarstarfs að minjavernd í Evrópu. Minjastofnun er aðili að stýrihópi menningarminjadags Evrópu, en 20 milljónir manna taka þátt í deginum á ári hverju.

Stefnumótunarvinna

Vinna við stefnumótun Minjastofnunar í minjavernd er enn í fullum gangi en stefnt er að því að ljúka henni á næstu vikum. Ráðgefandi nefndir Minjastofnunar, fornminjanefnd og húsafriðunarnefnd, hafa fengið drög að stefnunni og veitt Minjastofnun umsagnir. Næstu skref eru að drögin verða send forsætisráðuneytinu til umsagnar og að því loknu sett á heimasíðu Minjastofnunar til almennrar umsagnar. Í kjölfar þess verður unnið úr athugasemdum, stefnan síðan lögð fyrir ráðgjafanefndirnar aftur og að lokum fyrir forsætisráðuneytið til staðfestingar. Staðfest stefna verður svo  gefin út í handhægum bæklingi og kynnt á opnum fundi.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir