Facebook icon Twitter icon Forward icon

Minjastofnun lokuð dagana 3.-5. apríl vegna kynnisferðar

Dagana 3. - 7. apríl mun starfsfólk Minjastofnunar halda í kynnisferð til Berlínar og verður stofnunin því lokuð miðvikudaginn 3. apríl, fimmtudaginn 4. apríl og föstudaginn 5. apríl. Nokkrir starfsmenn stofnunarinnar verða á bakvakt þessa daga og svara áríðandi erindum í síma 5701300.


Kynnisferðir sem þessi eru ætlaðar til að kynnast minjavörslu í öðrum löndum og verða í þessari ferð heimsóttar systurstofnanir í Brandenburg og Berlín.
Í Brandenburg tekur Prof. Dr. Franz Schopper, Direktor, Landesarchäologe og Museumsdirektor, við hópnum og fræðir um starfsemi sinnar stofnunar "Brandenburgisches Landesamt fur Denkmalpflege und Archëologisches Landesmuseum", auk þess sem Archëologisches Landesmuseum Brandenburg verður skoðað.
Í Berlín tekur Dr. Christoph Rauhut, Landeskonservator, við hópnum og kynnir starfsemi sinnar stofnunar "Landesdenkmalamt Berlin".
Einnig mun hópurinn heimsækja sendiráð Íslands í Berlín og fræðast um menningarstarfsemi þess.

Útlutanir úr sjóðunum

Úthlutað var úr húsafriðunarsjóði þann 15. mars. Fjöldi umsókna í húsafriðunarsjóð 2019 var 267, en veittir voru 202 styrkir. Úthlutað var 301.499.000 kr., en sótt var um tæplega einn milljarð króna. Hér má sjá nánari upplýsingar um veitta styrki.

Úthlutað var úr fornminjasjóði þann 22. mars. Fjöldi umsókna í fornminjasjóð 2019 var 69, en veittir voru 23 styrkir. Úthlutað var 41.980.000 kr., en sótt var um 159.949.563 kr. Hér má sjá nánari upplýsingar um veitta styrki.
 

Menningarminjakeppni Evrópu

Minjastofnun hefur nú ýtt úr vör, annað árið í röð, Menningarminjakeppni Evrópu sem tengd er European Heritage Makers Week sem Evrópuráðið stendur fyrir. Menningarminjakeppnin gengur út á að fá börn og unglinga til að skoða menningarminjar í sínu nærumhverfi og skapa verkefni þeim tengd. Í fyrra var íslenskt verkefni valið eitt af tíu bestu verkefnunum í European Heritage Makers Week og fékk höfundur þess að launum ferð til Strassborgar. Allir á aldrinum 12-18 ára geta tekið þátt í Menningarminjakeppninni. Nánari upplýsingar má finna hér og hér má finna síðu European Heritage Makers Week og síðu Íslands inni á henni.

Ný minjaráð

Um þessar mundir er verið að skipa ný minjaráð til fjögurra ára. Breytingar hafa verið gerðar á skipun fulltrúa, þ.e. aðalmönnum hefur verið fækkað úr sjö í fimm og eru nú einnig tilnefndir varafulltrúar fyrir alla nema minjavörð svæðisins, en hann er formaður ráðsins og fimmti maður þess. Einnig var gerð sú breyting að Þjóðminjasafn Íslands tilnefnir ekki fulltrúa heldur Safnaráð. Endanleg skipun minjaráða á öllum minjasvæðum mun liggja fyrir um miðjan apríl.
Í tilefni af skipun nýrra minjaráða munu Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður, Þór Hjaltalín, sviðsstjóri, og Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri, ferðast um landið og funda með nýjum minjaráðum.
Minjastofnun þakkar öllum þeim sem sátu í minjaráðum 2015-2018 kærlega fyrir þátttökuna. Í flestum minjaráðum er mikil endurnýjun við skipun nýrra ráða og hlakkar Minjastofnun til samstarfsins.

Erlend samskipti

Aðalfundur og ráðstefna EAC (European Archaeological Council) voru haldin 28. febrúar til 2. mars 2019 í Dublin á Írlandi. Að þessu sinni var umfjöllunarefni ráðstefnunnar fornleifar í vörslu ríkisins undir yfirskriftinni “Archaeological sites and monuments in the care  of the state – sharing our experiences”. Þrír starfsmenn Minjastofnunar Íslands sóttu fundinn og ráðstefnuna. Þór Hjaltalín, sviðsstjóri minjavarðarsviðs, hefur tekið sæti í stjórn samtakanna og sat aðalfund fyrir hönd stofnunarinnar. Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður flutti erindið “Challenges facing the heritage management in Iceland: Preservation of sites in state-care” á ráðstefnunni. Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri rannsókna- og miðlunarsviðs, ritstýrði ráðstefnuriti síðasta árs og fylgdi því úr hlaði á fundinum. Ritið var gefið út annars vegar með völdum greinum á netinu undir merkjum Internet Archaeology og hins vegar með styttri greinum (extended summaries) í prenti. Agnesi var á fundinum þakkað fyrir vel unnin störf í stjórn samtakanna síðastliðin 6 ár og ritstjórn þessa nýjasta heftis EAC.

CINE verkefnið - vinnustofa

Þann 1. mars síðastliðinn stóðu Gunnarsstofnun og Minjastofnun Íslands fyrir vinnustofu og málþingi undir heitinu "Lesið í landið". Vinnustofan var unnin í tengslum við Evrópuverkefni CINE en Minjastofnun Íslands er þar aukaaðili.
Vinnustofan var haldin í Kambstúni í Suðursveit en þar voru verbúðir vestan við Hestgerðiskamb. Um ellefu manns sóttu vinnustofuna. Meðal þess sem gert var á vettvangi var að skoða verbúðaminjarnar, nýtt smáforrit Minjastofnunar var kynnt en það er í prófun þessa dagana og kennt var hvernig taka skal 360° myndir.
Að vinnustofunni lokinni var haldið lítið málþing í Þórbergssetri en þar tóku til máls Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar, sem sagði frá CINE-verkefninu og Hjörleifur Guttormsson sem fjallaði um fornar ferðaleiðir milli Héraðs og Suðursveitar.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir

2. apríl 2019