|
Starfsmannamál
Í janúar voru auglýst tvö störf hjá Minjastofnun Íslands, annars vegar starf minjavarðar Norðurlands eystra og hins vegar starf við fjarvinnslu á Djúpavogi. Átta umsóknir bárust um starf minjavarðar Norðurlands eystra og hefur Sædís Gunnarsdóttir, fornleifafræðingur, verið ráðin til starfa. Sædís verður staðsett á Akureyri. Þrjár umsóknir bárust um starf við fjarvinnslu á Djúpavogi. Verið er að fara yfir þær umsóknir.
|
|
Sjóðirnir
Alls bárust 266 umsóknir um styrki úr húsafriðunarsjóði sem veittir verða á þessu ári. Þær skiptast þannig: friðlýstar kirkjur: 44, friðlýst hús og mannvirki: 38, friðuð hús og mannvirki: 129, önnur hús og mannvirki: 43, húsakannanir: 1, rannsóknir: 7, undirbúningur tillagna um verndarsvæði í byggð: 4.
Sótt var samtals um næstum 1 milljarð króna.
Gert er ráð fyrir að úthlutun verði ákveðin fyrir 15. mars n.k.
Í fornminjasjóð bárust 69 umsóknir og var samtals sótt um tæplega 170 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að úthlutun liggi fyrir í mars.
|
|
Kirkjur Íslands
Í lok árs 2018 lauk verkefninu Kirkjur Íslands sem Minjastofnun Íslands (áður Húsafriðunarnefnd), Biskupsstofa og Þjóðminjasafn Íslands hafa staðið fyrir í samstarfi við Hið íslenska bókmenntafélag frá árinu 1996. Afrakstur verkefnisins voru 31 bindi þar sem fjallað var um samtals 216 friðlýstar kirkjur. Í upphafi árs 2019 lauk Þorsteinn Gunnarsson, ritstjóri Kirkna Íslands, við frágang gagna og skjala vegna verkefnisins og þar með störfum sínum fyrir Kirkjur Ísland. Minjastofnun þakkar Þorsteini innilega fyrir gott samstarf og ánægjuleg viðkynni í gegnum árin og óskar honum alls hins besta.
|
|
Víkurgarður
Þann 18. febrúar tilkynnti Minjastofnun að stofnunin hefði dregið til baka tillögu til mennta- og menningarmálaráðherra um að austasti hluti Víkurgarðs verði friðlýstur. Samhliða féll skyndifriðun svæðisins, sem Minjastofnun setti á hinn 8. janúar 2019, úr gildi.
Framkvæmdaaðilar á svæðinu hafa lýst yfir vilja til að gera breytingar á áformum sínum sem koma til móts við áherslur Minjastofnunar um að Víkurgarður fái þann sess sem honum ber sem opið og frjálst almenningsrými þar sem saga garðsins og svæðisins í kring fái að njóta sín. Stofnunin telur því ekki lengur þörf á austasti hluti garðsins verði friðlýstur. Það er mat Minjastofnunar að þetta sé farsæl niðurstaða í málinu.
Minjastofnun leggur áherslu á að skipulag garðsins verði ekki háð starfsemi á nærliggjandi lóðum, en að sama skapi að það verði í sátt við mannlíf og starfsemi á svæðinu. Minjastofnun hefur lagt til að fram fari hugmyndasamkeppni um að gera sögulegt hlutverk Víkurgarðs sýnilegra og bindur vonir við að nú geti hlutaðeigandi aðilar sameinast um það verkefni að gera þessa sögu aðgengilega almenningi og það verði til þess að styrkja mannlíf og starfsemi í miðbæ Reykjavíkur.
Niðurstaða málsins er því sú að Víkurgarður eins og hann er skilgreindur skv. lóðarmörkum er friðlýstur og skrifaði mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, undir þá friðlýsingu þann 8. janúar 2019. Inngangur í nýtt hótel Lindarvatns ehf. við Austurvöll mun ekki snúa inn í Víkurgarð heldur að Aðalstræti og gerir sú breyting það að verkum að starfsemi hótelsins mun ekki hafa bein áhrif á garðinn.
|
|
Erlend samskipti
|
|
|
Dagana 4.-7. febrúar sótti Guðmundur Stefán Sigurðarson, minjavörður Norðurlands vestra, fund í verkefninu Adapt Northern Heritage (ANH) sem er samstarfsverkefni Minjastofnunar og systurstofnana í Skotlandi, Noregi og Svíþjóð. Þetta var fjórði fundurinn í verkefninu og var hann haldinn í bænum Jokkmokk í norður Svíþjóð.
Íbúar svæðisins eru að stórum hluta Samar sem hafa margir viðurværi sitt af hreindýrabúskap. Einn af prufustöðunum í verkefninu er staður þar sem Samar hafa hingað til smalað saman hreindýrum á sumrin til að marka kálfa. Breytingar í veðurfari hafa bein áhrif á ferðir hreindýranna og staður eins og þessi sem hefur í aldir þjónað sínu hlutverki, á á hættu að verða yfirgefinn ásamt húsum og mannvirkjum sem bera vitni um margra alda samfellu í verkmenningu og þjóðháttum. Þeir standa því frammi fyrir því að þurfa ákveða hvað eigi að gera við staðinn og hvort og þá hvernig eigi að reyna að vernda þessar minjar sem eru að falla úr notkun vegna loftlagsbreytinga. Markmið verkefnisins er að hjálpa hagsmunaaðilum að meta hvaða hættur kunna að steðja að minjum eða minjastöðum samhliða loftlagsbreytingum og hvernig megi hugsanlega bregðast við.
Fræðast má nánar um verkefnið og framgang þess á heimasíðunni, sem og á Facebook og Twitter.
|
|
Fjarvinnsluverkefni á byggðaáætlun
Starfsfólk Minjastofnunar gerði sér ferð norður á Sauðárkrók þriðjudaginn 5. febrúar til að undirrita samning um fjarvinnsluverkefni á Djúpavogi sem stofnunin fær fjármagn til á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024. Verkefnið sem Minjastofnun fékk styrk til að vinna felur í sér smíði gagnagrunns fyrir minningarmörk og skráningu minningarmarka í þann grunn. Vinna við gagnagrunninn er langt komin.
|
|
Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir
Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir
25. febrúar 2019
|
|
|
|
|