Facebook icon Twitter icon Forward icon

Jólakveðja

Ársfundur Minjastofnunar og minjaverndarviðurkenning

Ársfundur Minjastofnunar Íslands var haldinn miðvikudaginn 28. nóvember sl. á Hótel Sögu í Reykjavík. Aðalefni fundarins var „Vernd jarðfastra menningarminja – Hvað getum við gert betur til að tryggja vernd jarðfastra menningarminja (fornleifa, húsa og mannvirkja)?“. Stofnunin fékk ýmsa tengda aðila til að halda fyrirlestra á fundinum þar sem þeir fjölluðu allir um tengsl síns starfs, sinnar stofnunar, laga og reglna við starf Minjastofnunar og lög um menningarminjar. Mæltist fundurinn vel fyrir og var greinilegt í lok fundar að mjög þarft var að fjalla um málefnið á svo breiðum grundvelli.
Við sama tækifæri veitti Minjastofnun minjaverndarviðurkenningu stofnunarinnar í þriðja sinn. Að þessu sinni veitti stofnunin landeigendum á Láganúpi og í Kollsvík, bræðrunum Valdimari, Guðbjarti, Hilmari, Agli og Kára Össurarsonum, viðurkenninguna fyrir metnaðarfullt grasrótarstarf við varðveislu og miðlun menningararfs í Kollsvík. Nánar má lesa um rökstuðning viðurkenningarinnar og sögu Kollsvíkur hér.

Fornminjasjóður

Opnað var fyrir umsóknir um styrki úr fornminjasjóði fyrir árið 2019 þann 22. nóvember. Er umsóknarfrestur til og með 10. janúar. Ekki verður tekin afstaða til umsókna sem berast eftir það.
Hér má nálgast umsóknareyðublaðið. 
Hér má finna reglur um úthlutun úr fornminjasjóði.

Verkefnastyrkur vegna fjarvinnslu

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra veitti nýverið verkefnastyrki vegna fjarvinnslustöðva, á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024. Markmiðið með framlögum vegna fjarvinnslustöðva er annars vegar að koma opinberum gögnum á stafrænt form og hins vegar að fjölga atvinnutækifærum á landsbyggðinni. Alls bárust 16 umsóknir um styrki að fjárhæð rúmar 180 m.kr.
Minjastofnun Íslands fékk styrk upp á 21 milljón króna til eins af þeim fjórum verkefnum sem styrkt voru að þessu sinni. Snýst verkefnið um fjarvinnslu við skráningu minningarmarka í gagnagrunn. Fyrsta skref verkefnisins er að klára smíði gagnagrunns fyrir minningarmörk. Er undirbúningur þeirrar vinnu hafinn og mun henni vonandi ljúka snemma á næsta ári. Fljótlega verður auglýst eftir starfsfólki á Djúpavogi vegna skráningar minningarmarka inn í gagnagrunninn.
Samstarfsaðilar Minjastofnunar í verkefninu eru Djúpavogshreppur og Austurbrú. Minjastofnun Íslands er þakklát fyrir styrkinn og samstarfið og glöð yfir því að loksins verði hægt að koma þessu mikilvæga verkefni vel á veg.

Erlent samstarf

Dagana 6. og 7. desember sóttu þrír starfsmenn Minjastofnunar, Kristín Huld Sigurðardóttir, Esther Anna Jóhannsdóttir og Ásta Hermannsdóttir, menningarráðstefnu OECD í Feneyjum. Var yfirskrift ráðstefnunnar „Unleashing the Transformative Power of Culture and Creativity for Local Development“. Á sama tíma var gefin út ný áætlun OECD og ICOM sem kallast „Culture and Local Development: Maximising the Impact. Guide for Local Governments, Communities and Museums“. Áætlunina og fleiri tengd gögn má finna hér
Ráðstefnan var byggð upp á fyrirlestrum annars vegar og vinnustofum hins vegar og fjölluðu aðilar alls staðar að úr heiminum þar um tengsl menningar og þróunar/uppbyggingar í nærsamfélögum. Fjallað var um allt frá einstökum söfnum og tilurð þeirra eða áhrifum á nærsamfélagið yfir í fjármögnunarleiðir og fjárfesta. Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar, sat í pallborði í einni vinnustofunni, en sú bar heitið „Innovation in public investment and financing for arts and culture“.

Leiðbeiningar um skýrslugerð vegna fornleifarannsókna

Minjastofnun hefur sett saman drög að leiðbeiningum um skýrslugerð vegna leyfisskyldra fornleifarannsókna. Drögin hafa verið send félagsmönnum í Félagi fornleifafræðinga til umsagnar. Aðrir áhugasamir geta nálgast drögin hér

Athugasemdir berist á tölvupóstfangið postur@minjastofnun.is 

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður:Kristín Huld Sigurðardóttir

Útgáfudagur: 20. desember 2018