Facebook icon Twitter icon Forward icon

Gleðilega páska

Starfsfólk Minjastofnunar Íslands óskar landsmönnum öllu gleðilega páska og vonar að þjóðin njóti þess að ferðast innanhúss um páskana!

Úthlutun úr húsafriðunarsjóði

Úthlutað hefur verið úr húsafriðunarsjóði árið 2020. Veittir eru 228 styrkir að þessu sinni að upphæð 304.000.000 kr. Alls bárust 272 umsóknir, þar sem sótt var um rétt rúmlega einn milljarð króna.
Lista yfir þau verkefni sem fengu styrk má finna hér.

 

Menningarlandslag við Álfsnesvík

Minjastofnun Íslands hefur verulegar áhyggjur af framtíð minjasvæðisins við Álfsnesvík/Þerneyjarsund í Reykjavík, en Reykjavíkurborg hefur samþykkt að heimila flutning athafnasvæðis Björgunar á svæði þar sem merkar menningarminjar er að finna. Minjastofnun hefur frá upphafi lagst gegn staðsetningunni og frá því að fornleifaskráning fyrir svæðið lá fyrir í júní 2018 hefur stofnunin, í öllum sínum umsögnum, ítrekað þá afstöðu sína að minjarnar á svæðinu myndi verðmætt menningarlandslag sem stofnunin leggst gegn röskun á. Nánar má lesa um málið hér.

Samfélagsmiðlar

Á síðustu misserum hefur Minjastofnun tekið upp á því að deila ýmsu skemmtilegu og áhugaverðu efni á samfélagsmiðlasíðum stofnunarinnar; Facebook og Instagram. Er þetta gert bæði til skemmtunar en einnig til að vekja athygli á menningarminjum og kynna starfsfólk stofnunarinnar. Dæmi um þessar færslur er myndasyrpan „fyrir og eftir“ sem sýnir myndir af friðuðum eða friðlýstum mannvirkjum fyrir og eftir endurbætur og vinnumyndir af starfsfólki stofnunarinnar – bæði gamlar og nýjar. Einnig minnum við á fréttaþráðinn okkar á heimasíðunni þar sem birtar eru nýjustu fréttir um ýmis mál í tengslum við menningarminjar eða starfsemi stofnunarinnar.

 

Á myndinni hér til hliðar má sjá Kristinn Magnússon, fornleifafræðing, vinna við uppgröft á túninu við Nesstofu á Seltjarnarnesi árið 1993. Kristinn er nú verkefnastjóri á minjavarðasviði hjá Minjastofnun Íslands. 

Viðbragðsáætlun og aðgerðir vegna kórónuveiru

Skrifstofur Minjastofnunar Íslands um allt land verða lokaðar öðrum en starfsfólki stofnunarinnar til 4. maí til að draga úr smithættu vegna Covid-19. Samskipti milli starfsfólks eru einnig takmörkuð svo stofnunin geti á næstu vikum veitt þá þjónustu sem henni ber samkvæmt lögum. Viðskiptavinir eru því hvattir til rafrænna samskipta í stað heimsókna til að draga úr smithættu. Starfsmenn munu heldur ekki eiga fundi á vettvangi, en munu að sjálfsögðu sinna nauðsynlegum vettvangskönnunum og hafa rafræn samskipti í kjölfarið.
Viðbragðsáætlun Minjastofnunar Íslands vegna COVID-19 má finna hér.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir

8. apríl 2020