|
Fréttabréf Minjastofnunar Íslands 2015:8
|
|
Lokað 2. október
Föstudaginn 2. október verður Minjastofnun Íslands lokuð vegna fræðsluferðar starfsmanna um Reykjanes. Fimmtudaginn 1. október verður fundadagur á stofnuninni þar sem allir stafsmenn verða samankomnir í höfuðstöðvunum í Reykjavík, stofnunin veitir lágmarksþjónustu þann dag.
|
|
Starfsmannamál
Sigurður Bergsteinsson sem gegnt hefur stöðu minjavarðar Norðurlands eystra frá árinu 2001 hefur flust búferlum til Reykjavíkur og fengið af því tilefni tilfærslu í starfi. Hann mun frá 1. október sjá um þau mál á borði Minjastofnunar er snúa að fornleifarannsóknum sérstaklega.
Rúnar Leifsson, minjavörður Austurlands, mun taka við starfi Sigurðar á Akureyri og hefur starf minjavarðar Austurlands verið auglýst laust til umsóknar: http://www.minjastofnun.is/um-stofnunina/laus-storf/nr/1346. Frestur til að senda inn umsókn er til 20. október n.k.
|
|
Kynningarfundir vegna nýrra laga um verndarsvæði í byggð
Á síðustu tveimur vikum hafa verið haldnir sjö fundir á þéttbýlisstöðum um land allt þar sem lög um verndarsvæði í byggð hafa verið kynnt fyrir sveitastjórnarfólki og minjaráðsfulltrúum. Enn er einn fundur eftir og verður hann haldinn fyrir miðjan október. Á fundunum hafa Sigurður Örn Guðleifsson, lögfræðingur hjá Forsætisráðuneytinu og einn aðalhöfunda laganna, Gunnþóra Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Minjastofnun, og Pétur Ármannsson, sviðsstjóri hjá Minjastofnun, frætt fundargesti um lögin og möguleikana sem þau bjóða upp á auk þess að svara spurningum þátttakenda.
Minjaráðsfulltrúar eru tenglar Minjastofnunar við íbúa hvers minjasvæðis og er hægt að nálgast nöfn minjaráðsfulltrúa eftir landsvæðum hér: http://www.minjastofnun.is/um-stofnunina/starfsstodvar/
Lög um verndarsvæði í byggð má nálgast hér: http://www.althingi.is/altext/144/s/1605.html
|
|
Evrópski menningarminjadagurinn
Nú í september lauk Evrópsku menningarminjadögunum hérlendis, en þeir eru haldnir ár hvert í þeim 50 löndum sem eiga aðild að Menningarsáttmála Evrópu. Venjulega fer hátíðin fram yfir eina helgi í september en að þessu sinni var viðburðum menningarminjadaganna á Íslandi dreift yfir sumarið frá júní til september og sem víðast um landið. Alls var boðið upp á 17 viðburði af ýmsu tagi hringinn í kringum landið. Voru þeir í umsjá sérfróðra á hverju svæði. Allir viðburðirnir tengdust þemanu „Arfur verk- og tæknimenningar“ og hljóp fjöldi gesta á hundruðum. Starfsfólk Minjastofnunar hlakkar til menningarminjadaga næsta árs og þakkar þeim sem tóku þátt í ár!
|
|
Málþing í tengslum við útgáfu Kirkna Íslands
Í tilefni af útgáfu tveggja nýjustu bindanna, 24. og 25., í ritröðinni Kirkjur Íslands var efnt til málþings og opnuð sýning á Egilsstöðum í byrjun septembermánaðar. Nýju bindin tvö fjalla um friðaðar og friðlýstar kirkjur í Múlaprófastsdæmi. Rúnar Leifsson, minjavörður Austurlands, stýrði málþinginu sem fram fór laugardaginn 5. september og fluttu fimm af höfundum bókanna fróðleg og skemmtileg erindi. Til máls tóku Þorsteinn Gunnarsson arkitekt og ritstjóri bókaflokksins, Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur og fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, Pétur H. Ármannsson arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun Íslands, Lilja Árnadóttir safnvörður munasafns Þjóðminjasafns Íslands og Guðlaug Vilbogadóttir
sérfræðingur hjá Minjastofnun Íslands. Málþingið var öllum opið og var mæting með ágætum. Sýningin um Kirkjur Íslands er enn opin í safnaðarheimili Egilsstaðakirkju.
|
|
Erlent samstarf
Agnes Stefánsdóttir og Oddgeir Isaksen fóru á fund starfsmanna minjastofnana á Norðurlöndum í Stokkhólmi 26.-27. ágúst. Fundurinn snerist um fjögur megin þemu: fornleifarannsóknir vegna framkvæmda, notkun málmleitartækja, vernd og miðlun fornminjaarfsins og gagnagrunna.
|
|
Nýtt svæði á heimasíðu
Í næstu viku fer í loftið nýtt svæði á heimasíðu Minjastofnunar er nefnist Spurt og svarað. Þar mun stofnunin setja svör við algengum spurningum sem stofnuninni berast eða spurningum sem stofnunin telur mikilvægt að almenningur eigi auðvelt með að nálgast svör við.
Hægt er að senda póst á postur (@) minjastofnun.is með tillögum að spurningum.
|
|
Staða verkefna
Þau verkefni sem Minjastofnun Íslands fékk í byrjun sumars úthlutað fjármagni til að vinna í sambandi við brýna uppbyggingu og verndaraðgerðir á ferðamannastöðum ganga vel og er vinna við sum þeirra langt komin. Önnur ganga hægar en vonast er til að hægt verði að klára öll verkefnin fyrir árslok. Helsti farartálminn á þeirri leið er veðurfar en rúmlega helmingur verkefnanna snýst að miklu eða öllu leyti um verklegar framkvæmdir og er því mikilvægt að veður haldist gott sem lengst inn í veturinn.
|
|
Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir
Ábyrgðaraðili: Kristín Huld Sigurðardóttir
|
|
|
|
|