Facebook icon Twitter icon Forward icon

Dymbilvika og páskar

Starfsemi Minjastofnunar verður í lágmarki í dymbilviku. Aðalsímanúmer stofnunarinnar verður opið kl. 9-15 dagana 29.-31. mars en einfaldast er að hafa samband við starfsfólk í gegnum tölvupóst. Hér má nálgast tölvupóstföng allra starfsmanna.


Lokað er yfir páskahátíðina, dagana 1. apríl - 5. apríl.


Aðgangur að öllum skrifstofum Minjastofnunar takmarkast nú við starfsfólk stofnunarinnar og gildir sú ráðstöfun til og með 15. apríl, eða svo lengi sem samkomutakmarkanir vegna Covid eru í gildi. Flest starfsfólk stofnunarinnar mun starfa að heiman á meðan samkomutakmarkanir eru í gildi.

Úthlutanir úr sjóðum

Úthlutað hefur verið úr húsafriðunarsjóði og fornminjasjóði fyrir árið 2021.


Fjöldi umsókna um styrki úr húsafriðunarsjóði var 361, en aldrei hafa borist fleiri umsóknir. Veittir voru 240 styrkir að þessu sinni, samtals 305.000.000 kr., en sótt var um rétt ríflega 1,5 milljarð króna. Lista yfir þau verkefni sem fengu styrk úr húsafriðunarsjóði má finna hér.

Fjöldi umsókna um styrki úr fornminjasjóði var 61, ein umsókn var flutt í húsafriðunarsjóð og komu því 60 umsóknir til álita. Veittur var 21 styrkur að þessu sinni, samtals 41.450.000 kr., en sótt var um tæpar 156 milljónir króna. Lista yfir þau verkefni sem fengu styrk úr fornminjasjóði má finna hér.

Náttúruvá á Reykjanesi

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að þann 19. mars hófst eldgos á Reykjanesi. Starfsmenn Minjastofnunar hafa síðustu vikur unnið að því að taka saman gögn um þekktar minjar á svæðinu og hófst sú vinna eftir að ljóst varð að minjum gæti stafað hætta af yfirvofandi náttúruvá. Farnar hafa verið nokkrar ferðir á áhrifasvæði jarðskjálftanna til að mæla upp minjar sem höfðu verið skráðar en ekki mældar upp á vettvangi. Eftir að eldgosið hófst fór fornleifafræðingur hjá Minjastofnun inn á gossvæðið til að kanna hvort mögulega væru minjar í Geldingadölum. Nánar má lesa um viðbrögð Minjastofnunar við yfirvofandi náttúruvá á Reykjanesi hér

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir

29. mars 2021