Facebook icon Twitter icon Forward icon

Fundur forstöðumanna minjastofnana Norðurlanda (NHHF) á Íslandi

Árlegur fundur forstöðumanna minjastofnana Norðurlanda (NHHF) var að þessu sinni haldinn í Mývatnssveit dagana 22.-24. ágúst sl. Til fundarins komu, auk forstöðumanns og starfsmanna Minjastofnunar Íslands, forstöðumenn og starfsmenn minjastofnana Danmerkur, Finnlands, Færeyja, Noregs, Svíþjóðar og Álandseyja. Einungis vantaði fulltrúa Grænlands á fundinn.

Þrjú meginumræðuefni voru á fundinum: aðgengi að og nýting menningarminja, kirkjur og kirkjugarðar og verndun og varðveisla menningarlandslags. Í tengslum við kirkjur og kirkjugarða var t.a.m. rætt um þær áskoranir sem minjaverndaryfirvöld standa frammi fyrir m.a. vegna fólksfækkunar í sóknum og kostnaðar við viðhald kirkna í því samhengi sem og umgengni um og meðferð kirkjugarða. Til viðbótar við meginumræðuefnin voru m.a. umræður um alþjóðlegt samstarf sem stofnanirnar koma að, s.s. EAC (European Archaeological Council) og EHHF (European Heritage Heads Forum), og það sem efst er á baugi í hverju landi fyrir sig. Auk þess að funda fór hópurinn í skoðunarferðir um nágrennið og heimsótti m.a. Skútustaðakirkju, Námaskarð og Hofstaði.

Menningarminjakeppni grunnskólanna og European Heritage Makers Week

Þann 5. júlí var tilkynnt um úrslit í Menningarminjakeppni grunnskólanna sem Minjastofnun stóð fyrir í tilefni af Menningararfsári Evrópu 2018. Sjö verkefni bárust í keppnina frá tveimur skólum.
Vinningshafinn í Menningarminjakeppni grunnskólanna er Magndís Hugrún Valgeirsdóttir, nemandi í 6. bekk í Grunnskólanum á Drangsnesi. Vinningsverkefnið er þriggja mynda vatnslitasería sem sýnir ólíka þætti tilverunnar á hvalveiðistöðinni á Strákatanga við Steingrímsfjörð á meðan hún var starfrækt á sautjándu öld.
Hér má nálgast meiri upplýsingar um  keppnina sem og sjá öll verkefnin sem bárust.

Öll verkefnin sem bárust í Menningarminjakeppnina voru lögð inn í samevrópskt verkefni, European Heritage Makers Week, sem Evrópuráðið stendur fyrir í tilefni Menningararfsárs Evrópu 2018. Í European Heritage Makers Week bárust 82 verkefni. Um miðjan júlí bárust þær gleðilegu fregnir að verkefni Magndísar Hugrúnar hefði verið valið sem eitt af tíu bestu verkefnum European Heritage Makers Week. Magndís hlýtur að launum ferð til Strassborgar í nóvember þar sem unga fólkið á bak við verkefnin tíu munu hittast, fara saman í skoðunarferðir og vonandi skapa saman nýjar sögur.

Óskum við Magndísi Hugrúnu innilega til hamingju með þennan frábæra árangur!
 

Síða European Heritage Makers Week
 

Heildarstefnumótun í varðveislu menningarminja

Samkvæmt 7. grein laga um menningarminjar nr. 80/2012 gerir Minjastofnun Íslands tillögu til ráðherra um heildarstefnu og langtímaáætlun um verndun og varðveislu menningarminja í samráði við höfuðsöfn og önnur helstu söfn og stofnanir sem vinna að varðveislu menningarminja. Skipað hefur verið í vinnuhóp vegna gerðar heildarstefnu og mun vinna við hana hefjast nú í september. Stefnt er að því að ljúka vinnunni fyrir áramót.

Ferð húsafriðunarnefndar og starfsmanna Minjastofnunar á Vestfirði

Húsafriðunarnefnd ásamt forstöðumanni og starfsmönnum umhverfis- og skipulagssviðs Minjastofnunar fór í vettvangsferð um norðanverða Vestfirði dagana 3. til 5. september í þeim tilgangi að skoða ýmis hús og mannvirki þar sem unnið er að endurbótum með stuðningi húsafriðunarsjóðs.
Ekið var vestur til Ísafjarðar og komið við á Bifröst í Borgarfirði og Ögri í Ísafjarðardjúpi. Einnig var litið við í  Litlabæ í Skötufirði, sem er í húsasafni Þjóðminjasafnsins. Á Ísafirði var fundað með bæjarstjóra, bæjarfulltrúum, sviðsstjóra umhverfissviðs og byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar. Gengið var um fyrirhuguð verndarsvæði bæjarins og farið til Suðureyrar, Flateyrar og Bolungarvíkur. Einnig voru hús skoðuð í Dýrafirði auk Skrúðs, elsta skrúðgarðs landsins. Að lokum var rennt inn á Þingeyri áður en flogið var aftur til Reykjavíkur. Nánari upplýsingar um ferðina má finna hér

Erlent samstarf

Fréttir af verkefninu Aðlögun menningararfs á norðurslóðum (Adapt Northern Heritage).
Um er að ræða 3 ára verkefni styrkt af Evrópusambandinu og þátttakendum í verkefninu: Historic Envirionment Scotland, Riksantikvaren í Noregi og Minjastofnun Íslands. Verkefnið gengur út á að þróa aðferðir við mat á minjastöðum með tilliti til loftlagsbreytinga og tengdrar náttúruvár og í framhaldinu gerð verndar- og viðbragðsáætlana. Verkefnið hefur staðið yfir í eitt ár og í sumar og haust fara fram prófanir á aðferðafræði á 11 stöðum í níu löndum. Guðmundur St. Sigurðarson, minjavörður Norðurlands vestra, er tengiliður Minjastofnunar í verkefninu.
Dagana 13.-17. ágúst fór fram vettvangsvinna í tengslum við verkefnið í Hiortshamn á Svalbarða. Að því komu fulltrúar sýslumannsembættisins á Svalbarða, Riksantikvaren í Noregi, NIKU og Minjastofnunar Íslands.
Dagana 23.-25. ágúst fór fram vettvangsvinna í Ballinskelligs á Írlandi. Að því komu fulltrúar Historic Environment Scotland, Minjastofnunar Íslands, Office of Public Works (OPW) á Írlandi, Kerry County Council og verkefnisins CHERISH.
Samskonar vinna er fyrirhuguð á Öndverðarnesi á Snæfellsnesi og á Ytri-Ásum í Skaftártungu á næstu vikum.

Mánudaginn 1. Október verður haldinn viðburður í Hannesarholti í tengslum við ANH og fund allra aðila verkefnisins hér á landi. Viðburðurinn ber yfirskriftina Loftlagsbreytingar, forvörsluaðferðir og minjavarsla í Alaska, á Íslandi og í Noregi og má finna meiri upplýsingar um hann hér.


Nánar má lesa um verkefnið og prufustaðina á heimasíðu verkefnisins: http://adaptnorthernheritage.interreg-npa.eu
Einnig er bent á  Facebook síðu verkefnisins og Twitter reikning @AdaptNHeritage.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir

Dagsetning: 25. september 2018