ANHP og CINE
Minjastofnun tekur þátt í nýju NPA (Northern Periphery and Arctic Programme) verkefni, ANHP (Aðlögun norræns menningararfs, Adopt Northern Heritage Project), og er Guðmundur St. Sigurðarson, minjavörður Norðurlands vestra og verkefnastjóri strandminja, tengiliður stofnunarinnar í verkefninu. Guðmundur fór á fyrsta formlega fund verkefnisins dagana 5.-7. september í Aurland í Noregi. Verkefnið gengur út á að þróa aðferðafræði við hættumat og gerð aðgerðaráætlana til verndar minjum sem kunna að vera í aukinni hættu vegna loftlagsbreytinga.
Minjastofnun tekur einnig þátt í öðru nýju NPA verkefni, CINE (Connected Culture and Natural Heritage in the Northern Environment), sem aukaaðili (associate partner). Íslensku meginaðilarnir eru Stofnun Gunnars Gunnarssonar á Skriðuklaustri og hugbúnaðarfyrirtækið Locatify. Fyrsti fundur verkefnisins var haldinn á Lofoten í Noregi dagana 26.-28. september og fór Ásta Hermannsdóttir, verkefnastjóri, á hann fyrir hönd Minjastofnunar. Verkefnið gengur út á að þróa nýja open-source tækni til að miðla menningarminjum og náttúru, bæði innan- og utandyra, auk þess sem horft verður til breytinga á landslagi vegna loftslagsbreytinga.
Fundur þjóðminjavarða Norðurlanda 2017
Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður, og Þór Hjaltalín, sviðsstjóri minjavarðasviðs, sóttu að venju fund þjóðminjavarða Norðurlandanna sem að þessu sinni var haldinn á Álandseyjum. Fundurinn fór fram dagana 23. – 25. ágúst í Silverskär í Saltvík. Fulltrúar frá átta ríkjum taka þátt í þessum fundum, þ.e. auk fulltrúa Íslands, Noregs, Danmerkur, Svíðþjóðar og Finnlands, eru fulltrúar sjálfsstjórnarríkjanna Færeyja, Grænlands og Álandseyja. Fundirnir hefjast á því að hvert land fyrir sig gerir stuttlega grein fyrir því helsta sem gerst hefur á sviði minjavörslu á árinu í viðkomandi ríki og byggir á stöðuskýrslum sem dreift hefur verið fyrirfram til fundarmanna. Gefst þar gott tækifæri til að bera saman bækur og spyrja út í þróun mála í minjavernd í grannríkjunum. Sömuleiðis eru tekin fyrir ákveðin þemu á sviði minjavörslu sem rædd eru sérstaklega. Að þessu sinni var m.a. fjallað um
stafræna miðlun menningarminja og friðun „yngri“ minja, eins og t.d. herminja frá síðari heimstyrjöld. Á næsta ári er röðin komin að Íslandi að halda fundinn.
Heimsókn starfsmanna norska menningarminjasjóðsins
Þann 15. júní sl. fékk Minjastofnun heimsókn góðra gesta frá Noregi. Um var að ræða starfsmenn norska menningarminjasjóðsins (Kulturminnefondet) sem voru hér í náms- og skemmtiferð. Um morguninn hélt þessi 18 manna hópur í höfuðstöðvar Minjastofnunar við Suðurgötu þar sem Kristín Huld, forstöðumaður, kynnti starfsemi stofnunarinnar. Því næst var haldið í göngutúr um miðbæ Reykjavíkur undir leiðsögn Þórs Hjaltalín, sviðsstjóra, og Guðnýjar Gerðar Gunnarsdóttur, minjavarðar Reykjavíkur. Var m.a. komið við á Landnámssýningunni í Aðalstræti þar sem menn kynntu sér upphaf byggðar í Reykjavík. Eftir hádegi var haldið með rútu til Þingvalla með viðkomu í húsi skáldsins í Gljúfrasteini. Á Þingvöllum fræddu Þór og Guðný Gerður gestina um sögu staðarins og þær minjar sem þar er að finna og eru nú á heimsminjaskrá Unesco.