Facebook icon Twitter icon Forward icon

Fréttabréf Minjastofnunar Íslands 2017:5

Vinnuferð Minjastofnunar á Vestfirði

Dagana 4. og 5. október fara flestir starfsmenn Minjastofnunar í vinnuferð á Strandir. Starfsemi stofnunarinnar verður því skert þessa daga.

Evrópsku menningarminjadagarnir 2017

Menningarminjadagarnir eru haldnir ár hvert í þeim 50 löndum sem hlut eiga að Menningarsáttmála Evrópu. Allt frá Aserbæsjan í austri, til Portúgals í vestri og norður til Noregs. Markmið þessara daga er að vekja athygli og áhuga á ríkri og fjölbreyttri menningu þeirra samfélaga sem byggja álfuna. Þema ársins 2017 er „Minjar og náttúra“. Boðið er upp á fjölbreytta viðburði hringinn um landið sem tengjast á einn eða annan hátt mannlífi, náttúru og sögu fyrri tíma hérlendis.


Viðburðirnir eru:
Höfuðborgarsvæðið – Gönguferð um Laugarneshverfið – mæting á bílastæðið við Íslandsbanka á Kirkjusandi laugardaginn 7. október kl. 11.


Vesturland - Framdalurinn – Fitjasókn í Skorradal, verndarsvæði í byggð – mæting að Fitjum í Skorradal laugardaginn 14. október kl. 14.


Vestfirðir – Þjóðtrú, náttúra og fornleifafræði. Gönguferð frá gamla bænum á Broddadalsá út á Stiga að leiði Brodda – mæting að gamla bænum á Broddadalsá sunnudaginn 8. október kl. 13.


Norðurland vestra – Fornleifar í Fljótum. Þrjú stutt erindi sem endurspegla áhrif náttúru á staðsetningu minja og mótun menningarlandslags og varðveislu þess – dagskráin hefst kl. 13 laugardaginn 14. október á Gimbur gistiheimili í Fljótum.


Norðurland eystra - Leiðsögn um rústir Evangerverksmiðju – mæting á bílastæðið við verksmiðjuna laugardaginn 14. október kl. 13.


Austurland – Gönguferð um Skálanes í Seyðisfirði – mæting á bílaplanið við Austdalsá laugardaginn 14. október kl. 13.


Suðurland – Leiðsögn um Laugarvatnshella í Bláskógabyggð – mæting í hellana laugardaginn 14. október kl. 12.


Suðurnes – Pattersonflugvöllur – flutt verða stutt erindi um herminjar og í lok þeirra farið í vettvangsferð með leiðsögn á Pattersonflugvöll – mæting í Duushús laugardaginn 14. október kl. 14:00.

 

Nánari upplýsingar um viðburðina má finna á heimasíðu Minjastofnunar. 

Nýr kynningarbæklingur Minjastofnunar

Á vordögum var Bryndís Sverrisdóttir ráðin til að ritstýra gerð nýs kynningarbæklings fyrir Minjastofnun. Bæklingurinn kom út í lok maí og er hann bæði á íslensku og ensku. Auk þess að vera aðgengilegur á heimasíðu Minjastofnunar er einnig hægt að nálgast útprentuð eintök á skrifstofum Minjastofnunar um allt land.

Erlent samstarf

ANHP og CINE

Minjastofnun tekur þátt í nýju NPA (Northern Periphery and Arctic Programme) verkefni, ANHP (Aðlögun norræns menningararfs, Adopt Northern Heritage Project), og er Guðmundur St. Sigurðarson, minjavörður Norðurlands vestra og verkefnastjóri strandminja, tengiliður stofnunarinnar í verkefninu. Guðmundur fór á fyrsta formlega fund verkefnisins dagana 5.-7. september í Aurland í Noregi. Verkefnið gengur út á að þróa aðferðafræði við hættumat og gerð aðgerðaráætlana til verndar minjum sem kunna að vera í aukinni hættu vegna loftlagsbreytinga.


Minjastofnun tekur einnig þátt í öðru nýju NPA verkefni, CINE (Connected Culture and Natural Heritage in the Northern Environment), sem aukaaðili (associate partner). Íslensku meginaðilarnir eru Stofnun Gunnars Gunnarssonar á Skriðuklaustri og hugbúnaðarfyrirtækið Locatify. Fyrsti fundur verkefnisins var haldinn á Lofoten í Noregi dagana 26.-28. september og fór Ásta Hermannsdóttir, verkefnastjóri, á hann fyrir hönd Minjastofnunar. Verkefnið gengur út á að þróa nýja open-source tækni til að miðla menningarminjum og náttúru, bæði innan- og utandyra, auk þess sem horft verður til breytinga á landslagi vegna loftslagsbreytinga.

Fundur þjóðminjavarða Norðurlanda 2017
Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður, og Þór Hjaltalín, sviðsstjóri minjavarðasviðs, sóttu að venju fund þjóðminjavarða Norðurlandanna sem að þessu sinni var haldinn á Álandseyjum. Fundurinn fór fram dagana 23. – 25. ágúst í Silverskär í Saltvík. Fulltrúar frá átta ríkjum taka þátt í þessum fundum, þ.e. auk fulltrúa Íslands, Noregs, Danmerkur, Svíðþjóðar og Finnlands, eru fulltrúar sjálfsstjórnarríkjanna Færeyja, Grænlands og Álandseyja. Fundirnir hefjast á því að hvert land fyrir sig gerir stuttlega grein fyrir því helsta sem gerst hefur á sviði minjavörslu á árinu í viðkomandi ríki og byggir á stöðuskýrslum sem dreift hefur verið fyrirfram til fundarmanna. Gefst þar gott tækifæri til að bera saman bækur og spyrja út í þróun mála í minjavernd í grannríkjunum. Sömuleiðis eru tekin fyrir ákveðin þemu á sviði minjavörslu sem rædd eru sérstaklega. Að þessu sinni var m.a. fjallað um stafræna miðlun menningarminja og friðun „yngri“ minja, eins og t.d. herminja frá síðari heimstyrjöld. Á næsta ári er röðin komin að Íslandi að halda fundinn.

Heimsókn starfsmanna norska menningarminjasjóðsins
Þann 15. júní sl. fékk Minjastofnun heimsókn góðra gesta frá Noregi. Um var að ræða starfsmenn norska menningarminjasjóðsins (Kulturminnefondet) sem voru hér í náms- og skemmtiferð. Um morguninn hélt þessi 18 manna hópur í höfuðstöðvar Minjastofnunar við Suðurgötu þar sem Kristín Huld, forstöðumaður, kynnti starfsemi stofnunarinnar. Því næst var haldið í göngutúr um miðbæ Reykjavíkur undir leiðsögn Þórs Hjaltalín, sviðsstjóra, og Guðnýjar Gerðar Gunnarsdóttur, minjavarðar Reykjavíkur. Var m.a. komið við á Landnámssýningunni í Aðalstræti þar sem menn kynntu sér upphaf byggðar í Reykjavík. Eftir hádegi var haldið með rútu til Þingvalla með viðkomu í húsi skáldsins í Gljúfrasteini. Á Þingvöllum fræddu Þór og Guðný Gerður gestina um sögu staðarins og þær minjar sem þar er að finna og eru nú á heimsminjaskrá Unesco.

Yfirlit yfir rannsóknir 2014

Nýlega gaf Minjastofnun út yfirlit yfir þær fornleifarannsóknir sem höfðu jarðrask í för með sér árið 2014, þ.e. þær rannsóknir sem eru leyfisskyldar. Árið 2014 voru þessar rannsóknir 35. Af þeim var ein á Austurlandi og engin á Vestfjörðum. Yfirlitið má finna hér.
Yfirlit yfir rannsóknir 2015 verður gefið út í október að óbreyttu.

Erindi og fyrirlestrar

Flatey – Horft um öxl
Málþing um sögu og menningu í Flatey á Breiðafirði var haldin í Frystihúsinu í eynni helgina 21.-22. júlí. Það sóttu þrír starfsmenn Minjastofnunar, þau Einar Ísaksson, minjavörður Vestfjarða, Magnús A. Sigurðsson, minjavörður Vesturlands og Guðný Gerður Gunnarsdóttir, minjavörður Reykjavíkur og nágrennis.
Magnús sagði frá fyrsta neðansjávaruppgrefti á Íslandi sem fór fram í Flatey árið 1993 og hann tók þátt í. Guðný flutti erindi um húsin og byggðina í þorpinu í Flatey. Hún átti einnig fund með fulltrúum Reykhólahrepps sem vinna að gerð tillögu um verndarsvæði í byggð fyrir Flatey.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðaraðili: Kristín Huld Sigurðardóttir