Facebook icon Twitter icon Forward icon

Fréttabréf Minjastofnunar Íslands 2016:2

Úthlutanir úr sjóðum

Úthlutað hefur verið úr húsafriðunarsjóði og fornminjasjóði fyrir árið 2016.
Alls fengu 158 verkefni styrk úr húsafriðunarsjóði og 26 verkefni styrk úr fornminjasjóði.
Frekari upplýsingar um styrkúthlutanirnar má sjá hér fyrir húsafriðunarsjóð og hér fyrir fornminjasjóð.

Starfsmannamál

Gunnþóra Guðmundsdóttir, arkitekt, lét af störfum hjá stofnuninni þann 16. mars sl. Gunnþóra hóf störf hjá Minjastofnun á vordögum árið 2013 og hefur því unnið hjá stofnuninni í nær þrjú ár. Vill stofnunin þakka Gunnþóru fyrir gott starf og ánægjuleg samskipti á þessum þremur árum.


Pétur Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri, fór í eins mánaðar langt leyfi frá störfum í apríl, en hann sinnti á þeim tíma ritstörfum erlendis. Pétur er kominn aftur til starfa.


Guðný Gerður Gunnarsdóttir, fyrrverandi borgarminjavörður, hefur hafið störf hjá stofnuninni og leysti hún Pétur af á meðan hann var í leyfi.

Styrkir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða úthlutaði styrkjum fyrir árið 2016 þann 23. mars sl. 66 verkefni hlutu styrk og eru þrjú þeirra á vegum Minjastofnunar Íslands: Borgarvirki (fullnaðarhönnun vegna bætts aðgengis að virkinu), Selatangar (endurbætur á aðgengi og bætt upplýsingagjöf) og flakið á Tanga í Mjóafirði (öryggisráðstafanir og bætt upplýsingagjöf). Snúa öll verkefnin að bættu öryggi og aðgengi á stöðunum, en mikil áhersla var lögð á öryggismál í úthlutun sjóðsins nú. Upplýsingar um alla styrki má finna hér.

Fyrirhuguð sameining Minjastofnunar og Þjóðminjasafns

Frumvarp um breytingar á lögum um menningarminjar nr. 80/2012 sem meðal annars fela í sér áform um sameiningu Þjóðminjasafns Íslands og Minjastofnunar Íslands er á lista ríkisstjórnarinnar yfir þau mál sem stjórnin hyggst klára fyrir kosningar í haust. Málið var lagt fyrir Alþingi skömmu fyrir páska en fyrsta umræða kláraðist ekki og var henni frestað. Óvíst er hvenær málið verður tekið fyrir á þingfundi á ný og fyrsta umræða kláruð, en  í kjölfar fyrstu umræðu fer frumvarpið til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd.

Erlent samstarf

Þann 15. mars fóru Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður, og Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri, á fund Alexöndru Warr, senior adviser hjá Historic England (áður English Heritage) í London. Fundurinn var haldinn til undirbúnings fundar EHHF (European Heritage Heads) sem haldinn verður á Íslandi í júní 2017.

Dagana 17. - 18. mars sóttu þau Agnes Stefánsdóttir, Oddgeir Isaksen og Sigurður Bergsteinsson  17. málþing EAC (European Archaeological Council) um stjórnun menningarminjamála (Heritage management) í Brighton á Englandi. Agnes er í stjórn EAC og sat því einnig stjórnarfundi félagsins á sama tíma. Yfirskrift málþingsins var „Digital Archaeological Heritage“ .
Stafræn tækni við fornleifarannsóknir og miðlun þekkingar á því sviði er orðinn almenn og mikilvægt að huga að hvernig stofnanir á sviði minjavörslu taka við, varðveita og miðla slíkum gögnum. Málþingið var kjörið tækifæri fyrir fulltrúa meðlimsstofnana til að bera saman bækur sínar og miðla af reynslu sinni. Á málþinginu fluttu fulltrúar slíkra stofnana erindi þar sem sagt var frá fjölbreytilegum verkefnum á þessu sviði. Í kjölfar erindanna var stutt umræða og síðan lengri umræða í lok málþings. Niðurstöður málþingsins og erindin verða gefin út á næsta ári í vefriti.

Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður, átti að mæta á fund á vegum Evrópuráðsins í Brussel í Belgíu dagana 29.-31. mars. Fundinum var hins vegar aflýst vegna hryðjuverkanna sem framin voru í borginni 29. mars, sama dag og fundurinn átti að hefjast. Var fundurinn þess í stað haldinn í París dagana 12.-14. apríl og sótti Kristín hann. Tilgangur fundarins var að ræða stefnumótun í minjavernd í Evrópu á 21. öldinni.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir