Facebook icon Twitter icon Forward icon

Umsóknir í sjóði

Úrvinnsla þeirra umsókna sem bárust um styrki úr húsafriðunarsjóði og fornminjasjóði fyrir árið 2020 er hafin.
Umsóknarfrestur í fornminjasjóð rann út 10. janúar 2020. Alls bárust 60 umsóknir og er í heildina sótt um tæpar 150 milljónir. Til úthlutunar eru tæpar 40 milljónir.
Umsóknarfrestur í húsafriðunarsjóð rann út 1. desember 2019. Alls bárust 283 umsóknir og nemur heildarupphæð þeirra rúmlega 1 milljarði króna. Umsóknirnar skiptast þannig: friðlýstar kirkjur: 45 umsóknir, friðlýst hús: 41 umsókn um 40 hús, friðuð hús og mannvirki: 136 umsóknir um 135 hús, önnur hús og mannvirki: 50 umsóknir, húsakannanir: 3 umsóknir, rannsóknir: 7 umsóknir og verndarsvæði í byggð: 1 umsókn.

Mannauðsmál

María Gísladóttir, verkefnastjóri, er komin í fæðingarorlof. Til að leysa hana af hefur verið fengin Margrét Þormar, arkitekt. Margrét hefur áratugareynslu af húsvernd og skipulagsvinnu, en hún hefur m.a. setið í húsafriðunarnefnd og starfað á skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

Umsagnir um frumvörp: Þjóðgarðastofnun og Miðhálendisþjóðgarður

Minjastofnun Íslands hefur sent inn umsagnir um drög að frumvörpum til laga um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða annars vegar og Hálendisþjóðgarð hins vegar. Minjastofnun gerir alvarlegar athugasemdir við þessi frumvarpsdrög og bendir á að stofnunin hefur ekki haft aðkomu að gerð þeirra. Ekki hefur verið tekið nægilegt tillit til laga um menningarminjar nr. 80/2012 og starfssviðs Minjastofnunar Íslands. Í frumvarpsdrögum skortir heildarsýn um hvernig framkvæmd minjavörslu er háttað í landinu, í þjóðgörðunum og á friðlýstum náttúruverndarsvæðum og hvernig hún samræmist framkvæmd minjavörslu á landsvísu.
Minjastofnun Íslands lítur svo á að aukið hlutverk þjóðgarða við vernd og eftirlit með menningarminjum geti orðið til heilla fyrir framkvæmd minjavörslu í landinu en mikilvægt sé að hin nýju lög verði ekki til þess að flækja umhverfi minjavörslunnar og skapa óvissu um valdsvið og hlutverk stofnana eins og yrði ef ekki verður unnið betur með frumvarpið.

Nánar má lesa um málið hér.

Ársskýrsla 2018

Út er komin ársskýrsla Minjastofnunar Íslands fyrir árið 2018. Unnið er að útgáfu ársskýrslu stofnunarinnar fyrir árið 2019.

Ársskýrslu Minjastofnunar Íslands 2018 má nálgast hér.

Yfirlit fornleifarannsókna 2018

Út er komið yfirlit yfir þær leyfisskyldu fornleifarannsóknir sem fram fóru á árinu 2018. Yfirlitið er unnið upp úr eyðublaðinu „Lok vettvangsrannsóknar“ sem rannsakendur skila inn að vettvangsvinnu lokinni. Unnið er að útgáfu yfirlits yfir leyfisskyldar fornleifarannsóknir 2019.

Yfirlit fornleifarannsókna 2018 má finna hér.

Framkvæmdir á aðalskrifstofu í Reykjavík

Frá því í byrjun nóvember 2019 hefur skrifstofa Minjastofnunar við Suðurgötu í Reykjavík verið undirlögð af framkvæmdum vegna mikillar myglu sem í ljós kom í kjallara hússins. Ljóst er að framkvæmdir munu halda áfram eitthvað inn á árið 2020, með tilheyrandi ónæði, en búist er við að hægt verði að taka kjallarann í notkun í byrjun mars.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir

3. febrúar 2020