Dagana 12. – 13. desember var haldið í Osló málþing um menningararfsbrot á Norðurlöndum. Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri hjá Minjastofnun, hélt þar fyrirlestur sem bar heitið „Regelverk og rettpraksis. Erfaringer fra Island – aktuelle utfordringer“. Fundinum lauk með því að Norðmenn afhentu sænska sendiherranum í Osló steinaldaröxi sem flutt hafði verið ólöglega til Noregs frá Svíþjóð. Er myndin hér til hliðar tekin við þetta tilefni.
Fyrir milligöngu mennta- og menningarmálaráðuneytis tóku tveir starfsmenn Minjastofnunar Íslands, Þór Hjaltalín sviðsstjóri og Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður, þátt í fundi Evrópuráðsins „The Faro Convention Approach and Urban Regeneration“ í Vilníus í Litháen dagana 15. og 16. nóvember.
Skrifstofa menningarmála hjá Evrópuráðinu stendur fyrir fundum sem þessum í þeim löndum sem eiga eftir að undirrita Faro samþykktina til að gera grein fyrir markmiði samþykktarinnar með því að tengja hana við verkefni í viðkomandi löndum. Litháen er eitt þessara landa og höfðu þeir óskað eftir að haldinn yrði slíkur kynningarfundur í Vilníus. Áhersluatriði fundarins voru minjar í borgum. Þátttakendur voru 26 frá 11 löndum. Einungis fjögur þeirra höfðu undirritað samþykktina (Finnland, Portúgal, Austurríki og Lettland).
Dagana 13. – 14. nóvember var árlegur samráðsfundur starfsmanna minjaverndar á Norðurlöndum haldinn í nýju húsnæði Slots- og kulturstyrelsen í Nykøbing á Falster í Danmörku. Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri, sat fundinn fyrir hönd Minjastofnunar Íslands.