Facebook icon Twitter icon Forward icon

Fréttabréf Minjastofnunar Íslands 2017:7

 

 

Gleðileg jól!

Jólakort Minjastofnunar Íslands 2017

Sjóðirnir

Lokað var fyrir umsóknir í húsafriðunarsjóð 1. desember. Nú er unnið að úrvinnslu umsókna og gert er ráð fyrir að úthlutun liggi fyrir eigi síðar en 15. mars. Umsóknarfrestur í fornminjasjóð er til 10. janúar. Umsóknareyðublað má finna hér

Ársfundur Minjastofnunar Íslands

Þann 23. nóvember var haldinn vel heppnaður ársfundur Minjastofnunar. Vegna vonskuveðurs á landinu voru fundargestir eilítið færri en gert hafði verið ráð fyrir en um 50 manns sátu fundinn. Áhugaverð erindi voru haldin auk þess sem líflegar umræður sköpuðust í pallborði um efnið „skipulag og menningarminjar í þéttbýli“. Veitt var minjaverndarviðurkenning Minjastofnunar Íslands í annað sinn en að þessu sinni var það Djúpavogshreppur sem hlaut viðurkenninguna fyrir mikilvægt brautryðjendastarf í þágu minjaverndar. Vill Minjastofnun þakka öllum þeim sem sóttu ársfundinn, þeim sem tóku þátt með því að halda erindi og sitja í pallborði og síðast en ekki síst óskar Minjastofnun Djúpavogshreppi til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu.
Glærur þeirra erinda sem haldin voru á fundinum má finna hér
Nánari upplýsingar um minjaverndarviðurkenninguna má finna hér.

Evrópska menningararfsárið 2018

Árið 2018 hefur verið útnefnt „Evrópska menningararfsárið“ af Evrópuráðinu og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Á menningararfsárinu fer fram fjöldi viðburða sem einblína á evrópsk tengsl og sameiginlegan menningararf okkar. Árið var sett formlega í Mílanó á Ítalíu 7. og 8. desember sl.
Á Íslandi hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið falið Minjastofnun Íslands að sjá um skipulagningu menningararfsársins. Sér Minjastofnun því um að veita upplýsingar um árið, halda utan um og samhæfa dagskrá. Verður þema ársins á Íslandi „strandmenning“.
Þeir sem hafa áhuga á að setja viðburði á dagskrá menningararfsársins á Íslandi eru hvattir til að kynna sér málið nánar á heimasíðu Minjastofnunar, þar sem einnig er að finna nánari upplýsingar um árið og markmið þess.

Yfirlit yfir rannsóknir 2015

Út er komið yfirlit yfir fornleifarannsóknir sem höfðu jarðrask í för með sér árið 2015. Yfirlitið má finna hér. Yfirlit yfir rannsóknir 2016 er væntanlegt. 

Erlend samskipti

Dagana 12. – 13. desember var haldið í Osló málþing um menningararfsbrot á Norðurlöndum. Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri hjá Minjastofnun, hélt þar fyrirlestur sem bar heitið „Regelverk og rettpraksis. Erfaringer fra Island – aktuelle utfordringer“. Fundinum lauk með því að Norðmenn afhentu sænska sendiherranum í Osló steinaldaröxi sem flutt hafði verið ólöglega til Noregs frá Svíþjóð. Er myndin hér til hliðar tekin við þetta tilefni.

Fyrir milligöngu mennta- og menningarmálaráðuneytis tóku tveir starfsmenn Minjastofnunar Íslands, Þór Hjaltalín sviðsstjóri og Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður, þátt í fundi Evrópuráðsins „The Faro Convention Approach and Urban Regeneration“ í Vilníus í Litháen dagana 15. og 16. nóvember.
Skrifstofa menningarmála hjá Evrópuráðinu stendur fyrir fundum sem þessum í þeim löndum sem eiga eftir að undirrita Faro samþykktina til að gera grein fyrir markmiði samþykktarinnar með því að tengja hana við verkefni í viðkomandi löndum. Litháen er eitt þessara landa og höfðu þeir óskað eftir að haldinn yrði slíkur kynningarfundur í Vilníus. Áhersluatriði fundarins voru minjar í borgum. Þátttakendur voru 26 frá 11 löndum. Einungis fjögur þeirra höfðu undirritað samþykktina (Finnland, Portúgal, Austurríki og Lettland).

Dagana 13. – 14. nóvember var árlegur samráðsfundur starfsmanna minjaverndar á Norðurlöndum haldinn í nýju húsnæði Slots- og kulturstyrelsen í Nykøbing á Falster í Danmörku. Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri, sat fundinn fyrir hönd Minjastofnunar Íslands.

Verkefni á 100 ára fullveldisafmæli Íslands

Minjastofnun var einn þeirra 100 aðila sem fékk styrkvilyrði vegna verkefna á 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Verkefnið er samstarfsverkefni Minjastofnunar, Borgarsögusafns og Faxaflóahafna. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðaraðili: Kristín Huld Sigurðardóttir

Útgáfudagur: 20. desember 2017