Facebook icon Twitter icon Forward icon

Minjastofnun Íslands hástökkvari ársins

Árlega stendur SFR stéttarfélag fyrir könnuninni Stofnun ársins og voru niðurstöður þessa árs kynntar fimmtudaginn 7. maí. Minjastofnun Íslands fékk ásamt tveimur öðrum stofnunum nafnbótina Hástökkvari ársins, en stofnanirnar stukku allar upp um 60 sæti. Minjastofnun var árið 2014 í 104. sæti en er nú í 44. sæti.
Nánari upplýsingar um könnunina og niðurstöður hennar má finna á heimasíðu SFR: http://sfr.is/kannanir-sfr/stofnun-arsins/stofnun-arsins-2015/

Stefna í minjavernd til almennrar umsagnar

Drög að stefnu í minjavernd sem Minjastofnun Íslands hefur unnið að ásamt húsafriðunarnefnd og fornminjanefnd frá því í október eru nú komin á heimasíðu Minjastofnunar, www.minjastofnun.is, til almennrar umsagnar. Hægt er að sækja skjalið með drögunum og senda í kjölfarið athugasemdir við drögin til Ástu Hermannsdóttur, verkefnastjóra, á netfangið: asta@minjastofnun.is. Hægt er að skila inn athugasemdum til 22. júní.

Friðlýstar fornleifar

Dagana 18.-22 maí fóru átta starfsmenn Minjastofnunar í skráningarferð um Vestfirði en ferðin var liður í endurskoðun skrár yfir friðlýstar fornleifar á Íslandi. Endurskoðunin felur m.a. í sér að heimsækja þarf alla minjastaðina og mæla upp þær fornleifar sem þar er að finna. Einnig þarf að meta minjagildi fornleifanna og kanna hvort upplýsingar í friðlýsingarskjali séu réttar. Að þessu sinni var lögð áhersla á skráningu friðlýstra fornleifa í Austur- og Vestur-Barðastrandarsýslu. Farið var á 28 friðlýsta minjastaði og samanlagt skráðar 197 fornleifar.

Meðfylgjandi mynd er tekin úr dróna og er af verstöðinni í Breiðavík. Glöggt má sjá hvernig minjasvæðið er smátt og smátt að verða sjónum að bráð.

Endurmenntunar- og fræðsluferð Minjastofnunar

Minjastofnun Íslands lokaði dagana 7. og 8. maí vegna endurmenntunar- og fræðsluferðar starfsfólks. Um óvissuferð var að ræða og ríkti mikil spenna um hvert ferðinni væri heitið. Farið var um stóran hluta Vesturlands auk þess sem dagskrá ferðarinnar hófst á námskeiði í fundastjórnun. Ítarlegri frásögn af ferðinni má finna á: http://www.minjastofnun.is/um-stofnunina/frettir/nr/1305

Úthlutun til ferðamannastaða

Þriðjudaginn 26. maí var tilkynnt að ríkisstjórnin hefði samþykkt að verja 850 milljónum króna til brýnna upppbyggingar- og verndaraðgerða á ferðamannastöðum sem eru í eigu eða umsjón ríkisins. Rúmlega 100 milljónum verður varið í verkefni sem stuðla að verndun menningarminja. Meðal þeirra verkefna eru bætt aðkoma fyrir gesti að rústunum í Hvannalindum, steypuviðgerðir í Seljavallalaug, lagfæring á Snorralaug í Borgarfirði eftir skemmdarverk á síðasta ári og ýmsir þættir bætts aðgengis á Stöng í Þjórsárdal.
Lista yfir öll verkefnin sem unnin verða fyrir milljónirnar 850 má nálgast á eftirfarandi slóð: http://www.atvinnuvegaraduneyti.is/media/Acrobat/Uppbyggingu-innvida-2015-verkefnalisti-stafrofsrod.pdf

Starf minjaráða

Um miðjan maí fundaði minjaráð Reykjavíkur og nágrennis undir dyggri stjórn Gunnþóru Guðmundsdóttur, arkitekts og starfandi minjavarðar svæðisins. Hafa þá öll minjaráð landsins fundað einu sinni. Í framhaldi af þessum fyrstu fundum fer starf minjaráðanna og hlutverk að mótast. Samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012 eru minjaráðin „...samráðsvettvangur hvers minjasvæðis sem ætlað er að fjalla um menningarminjar, varðveislu þeirra og nýtingu í þágu samfélagsins í samráði við Minjastofnun Íslands og höfuðsöfn sem skilgreind eru samkvæmt safnalögum, svo og önnur helstu söfn og stofnanir sem vinna að varðveislu menningarminja“. Hlutverkið er ansi víðtækt en mikilvægt er að minjaráðin þróist í þá átt að verða traust tenging við grasrótina á hverju svæði fyrir sig. Á heimasíðu Minjastofnunar er hægt að sjá hverjir sitja í minjaráðunum með því að smella á viðkomandi minjasvæði á eftirfarandi vefslóð: http://www.minjastofnun.is/um-stofnunina/starfsstodvar/

Visitasía til Vestmannaeyja

Þann 13. maí síðastliðinn fóru Pétur Ármannsson, sviðsstjóri, og Uggi Ævarsson, minjavörður Suðurlands, í visitasíu til Vestmannaeyja. Ýmislegt áhugavert er að finna í Eyjum þegar litið er til fornleifa og húsa og voru bæjartóftirnar í Herjólfsdal, Landakirkja og vitinn á Stórhöfða skoðuð í þessari ferð. Góður fundur var einnig haldinn með Sigurði Smára Benónýssyni, skipulags- og byggingafulltrúa, um skipulagsmál í Eyjum. Að lokum var gosminjasafnið Eldheimar heimsótt.

Erlent samstarf

Daganna 29. apríl - 1. maí sótti Rúnar Leifsson, minjavörður Austurlands, ásamt Eyþóri Eðvarðssyni, forsvarsmanni fornminjafélags Súgandafjarðar og hugmyndasmiði að ráðstefnunni „Strandminjar í hættu-lífróður“, fund í Kilkenny á Írlandi og annan í Belfast á Norður-Írlandi á vegum Evrópuráðsins. Tilefnið var að kynna Eyþór fyrir öðru áhugafólki í Evrópu sem starfar að verndun menningarminja sem og að skoða möguleika þess að strandminjaverkefni Eyþórs og samstarfsfólks hans nýti sér nýja vefsíðu Evrópuráðsins sem ráðgert er að komist í gagnið á næsta ári. Gestrisni nágranna okkar á Írlandi var mikil og fundirnir að sama skapi fjörugir.

Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar, og Guðný Gerður Gunnarsdóttir, fyrrv. borgarminjavörður, sem vinnur nú að sérverkefni fyrir Reykjavíkurborg varðandi minjavernd, fóru í ferð til Englands 18. – 20. maí til að kynna sér hvernig Englendingar haga málum varðandi verndarsvæði í byggð. Þær áttu fundi með starfsfólki Historic England (áður English Heritage) um málið og skoðuðu verndarsvæði í London, Margate og Ramsgate undir leiðsögn sérfræðinga Historic England.

Kristín Huld Sigurðardóttir sótti ársfund EHHF (European Heritage Heads Forum, sjá http://www.ehhf.eu/) sem haldinn var í Dublin á Írlandi dagana 21. – 22. maí. Meginefni ráðstefnunnar að þessu sinni var endurnýting sögulegra bygginga. Haldnir voru fyrirlestrar um nýlegar endurbyggingar á Írlandi, þeirra á meðal hús tannlæknadeildar Trinity College, en að öðru leyti byggðist fundurinn upp á málstofum forstöðumanna þar sem rætt var um ýmis stjórnsýsluleg málefni stofnananna. Næsti fundur verður haldinn í Sviss árið 2016 en fundur ársins 2017 verður haldinn á Íslandi.

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir