Facebook icon Twitter icon Forward icon

Opnun Minjaslóðar – smáforrits um sögu Reykjavíkurhafnar

Laugardaginn 2. júní var opnað formlega nýtt smáforrit um sögu Reykjavíkurhafnar, sem nefnist Minjaslóð. Opnunin var hluti af Hátíð hafsins, liður í dagskrá 100 ára fullveldisafmælis Íslands og dagskrá Menningararfsárs Evrópu. Við opnunina ávörpuðu Kristín Soffía Jónsdóttir, stjórnarformaður Faxaflóahafna, og Guðbrandur Benediktsson, safnstjóri Borgarsögusafns Reykjavíkur, viðstadda og að lokum opnaði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, forritið formlega.
Forritið var unnið af Minjastofnun Íslands, Faxaflóahöfnum og Borgarsögusafni Reykjavíkur með styrk frá afmælisnefnd 100 ára fullveldis Íslands. Forritið er hannað af hugbúnaðarfyrirtækinu Locatify. Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur, sá að  mestu um textasmíð og Þorsteinn Gunnarsson, leikari og arkitekt, las textann upp.
Nánar má lesa um opnunina og Minjaslóð hér.

Sumarleyfistími

Nú er sumarleyfistímabilið hafið og því eru á hverjum tíma nokkrir starfsmenn stofnunarinnar í fríi. Af þessum sökum getur afgreiðsla erinda óhjákvæmilega dregist en reynt er að sinna öllum erindum eins hratt og kostur gefst.

Erlent samstarf

Rúnar Leifsson, minjavörður Norðurlands eystra, sótti ársfund European Heritage Legal Forum (EHLF) í Schloss Charlottenburg í Berlín. Fundurinn var hluti European Cultural Heritage Summit sem fór fram í borginni daganna 18. – 24. júní síðastliðinn. EHLF var stofnað fyrir 10 árum síðan sem vinnuhópur sem starfar fyrir European Heritage Heads Forum (EHHF). EHLF fylgist með nýjum tilskipunum og reglugerðum í Evrópusambandinu (ESB) með það að markmiði að greina þætti sem hafa neikvæðar áhrif á menningarminjar. Meginmarkmið EHLF er að tryggja að upplýsingar um lagafrumvörp sem eru í undirbúningi hjá ESB, sem og um mögulegar afleiðingar þeirra á menningarminjar, berist til minjaverndaryfirvalda í hverju landi. EHLF gefur einnig ráð varðandi viðeigandi viðbrögð EHHF við lagafrumvörpum ESB.

Fundur NHHF (Nordic Heritage Heads Forum), forstöðumanna stjórnsýslustofnana minjaverndar á Norðurlöndum, verður haldinn á Íslandi í lok ágúst. Að þessu sinni verður fundurinn haldinn í Mývatnssveit og munu þar koma saman forstöðumenn minjastofnana átta landa og sjálfsstjórnarsvæða (Færeyja, Grænlands, Íslands, Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar, Finnlands og Álandseyja). Meginþema fundarins verður aðgengi og nýting menningarminja og -landslags, hvernig hægt sé að gera menningarminjar og -landslag aðgengilegt án þess að ganga á verðmætin sem í þeim felast. Einnig verða tvö smærri umræðuefni á dagskrá: annars vegar málefni kirkja og kirkjugarða (rannsóknir í kirkjugörðum, framtíð kirkjubygginga, fjármögnun viðhalds kirkna o.þ.h.) og hins vegar menningarlandslag (þau verðmæti sem í því felast, viðhald þess og aðferðir við stýringu).
Fundur forstöðumanna stjórnsýslustofnana minjaverndar á Norðurlöndum er árlegur og skapar mikilvægan vettvang fyrir forstöðumennina til að hittast, bera saman bækur sínar og gera grein fyrir þeim málum sem efst eru á baugi hverju sinni. Einnig eru þær rædd ýmis alþjóðleg samstarfsverkefni og grunnur lagður að nýjum samstarfsverkefnum.

Innviðaverkefni

Vinna við undirbúning þeirra verkefna sem Minjastofnun fékk styrk til að vinna í gegnum landsáætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum er í fullum gangi. Í lok maí fóru Ásta Hermannsdóttir, verkefnastjóri, og Esther Anna Jóhannsdóttir, fjármálastjóri, hringinn í hringum landið og heimsóttu stóran hluta verkefnastaðanna. Minjaverðir og aðrir hagsmunaaðilar hittu þær Ástu og Esther á flestum staðanna og var þá hægt að spá og spekúlera um viðeigandi aðgerðir og útfærslur og kostnaði við þær. Verkefnin hefjast flest að einhverju leyti í ár en mun ekki ljúka fyrr en á árunum 2019-2020.

Kínversk sendinefnd í heimsókn

Þann 8. júní tóku starfsmenn Minjastofnunar á móti Wang Yiyang ráðuneytisstjóra og starfsfólki menningarmálaráðuneytis Guangdong héraðs í Kína ásamt fulltrúum fyrirtækja frá svæðinu, alls sjö manns. Hafði sendinefndin óskað eftir fundi með forstöðumanni og sérfræðingum til að kynnast stjórnsýslu minjavörslu á landinu. Fundurinn fór fram með aðstoð túlks og fékk stofnunin að skilnaði forláta handgerðan og -málaðan postulínsdisk að gjöf.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir