|
Fréttabréf Minjastofnunar Íslands 2017:3
|
|
Fundur um verndarsvæði í byggð
Þriðjudaginn 23. maí sl. hélt Minjastofnun fund með fulltrúum þeirra sveitarfélaga sem nú vinna að tillögum til ráðherra um verndarsvæði í byggð. Fundurinn var haldinn í samkomuhúsinu Garðaholti á Álftanesi. Fundinn sóttu um 50 manns, starfsmenn og ráðgjafar sveitarfélaganna, ýmsir sem vinna að fornleifa- og húsaskráningu á hinum fyrirhuguðu verndarsvæðum, fulltrúar úr húsafriðunarnefnd og fleiri aðilar sem láta sig málið varða. Á fundinum fóru fram gagnlegar umræður undir styrkri stjórn Ragnhildar Vigfúsdóttur markþjálfa. Að fundi loknum leiddi Ragnheiður Traustadóttir fræðslugöngu um fyrirhugað verndarsvæði í Garðahverfi á Álftanesi.
|
|
Kirkjur Íslands: málstofa og sýning á Ísafirði
Út eru komin þrjú ný bindi í ritröðinni Kirkjur Íslands og fjalla þau um 28 friðaðar kirkjur í Vestfjarðaprófastsdæmi.
Af því tilefni bjóða Biskupsstofa, Hið íslenska bókmenntafélag, Minjastofnun Íslands og Þjóðminjasafn Íslands til málstofu og opnunar sýningar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði þriðjudaginn 13. júní kl. 14:00.
Að málstofunni lokinni mun séra Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, opna sýningu um kirkjur, gripi og minningarmörk, sem sett er upp í tengslum við útgáfuna. Fundarstjóri er séra Magnús Erlingsson prófastur.
Allir eru hjartanlega velkomnir á málstofuna á Ísafirði þriðjudaginn 13. júní kl. 14:00.
|
|
Alþjóðleg ráðstefna um áhrif loftslagsbreytinga
Dagana 3.-4. maí fór Guðmundur St. Sigurðarson, minjavörður Norðurlands vestra og verkefnastjóri yfir vöktun og skráningu strandminja, á alþjóðlega ráðstefnu um áhrif loftslagsbreytinga á menningararf. Ráðstefnan var haldin í Gautaborg á vegum sænsku minjavörslunnar Riksantikvarieämbetet og var sótt af sérfræðingum af ýmsum sviðum sem vinna með loftlagsmál og/eða varðveislu menningararfs. Þar var m.a. gerð grein fyrir verkefnum sem eru í gangi í Svíþjóð, Noregi, Skotlandi og á Íslandi.
Guðmundur gerði á ráðstefnunni grein fyrir verkefnum og stöðu mála á Íslandi. Óhætt er að segja að löndin búi við misjafnan kost hvað varðar úrræði, sérþekkingu og fjármuni til að bregðast við þeim breytingum sem fylgja loftslagsbreytingum og vitað er að munu valda auknu álagi á menningarminjar. Það er hækkandi sjávarstaða, meiri úrkoma yfir vetrartímann og þurrari og heitari sumur og almennt meiri öfgar í veðri. Vandamálin eru hins vegar sameiginleg þótt staðbundin áhrif séu mismunandi og margt sem þjóðirnar geta lært hver af annarri.
|
|
Styrkir úr húsafriðunarsjóði
Á árinu hafa Minjastofnun Íslands og húsafriðunarnefnd fjallað um 263 umsóknir um styrki úr húsafriðunarsjóði. Umsóknir um viðhald og viðgerðir húsa og mannvirkja voru 241, 6 umsóknir voru til að vinna að húsakönnunum, 12 til ýmissa rannsóknarverkefna og 4 umsóknir voru frá sveitarfélögum til að undirbúa tillögur að verndarsvæðum í byggð.
Sótt var um tæpar 797 milljónir króna en unnt var að veita styrki að upphæð kr. 188.280.000,- til 187 verkefna sem skiptust þannig:
Veittir voru 169 styrkir vegna friðlýstra, friðaðra og annarra húsa og mannvirkja að upphæð kr. 159.650.000,-.
Allar sex umsóknirnar um húsakannanir fengu styrki að upphæð kr. 3,6 milljónir.
Níu rannsóknarverkefni fengu alls 6.400.000,- kr. í styrki.
Veittir voru þrír styrkir til að undirbúa tillögur að verndarsvæðum í byggð, samtals kr. 18.630.000 kr.
Hér má sjá lista yfir þá styrki sem veittir voru ásamt samantekt umsókna og styrkja.
|
|
Aðlögun menningarminja á Norðurslóðum
|
|
| |
Þann 2. maí fór Guðmundur St. Sigurðarson til Gautaborgar fyrir hönd Minjastofnunar á fyrsta fundinn sem haldinn er í alþjóðlegu samstarfsverkefni sem Minjastofnun er aðili að og nefnist „Adopt Northern Heritage“ (ANH) sem mætti þýða sem „Aðlögun menningarminja á Norðurslóðum“. Verkefnið fékk styrk í gegnum sjóð Evrópusambandsins sem m.a. er ætlaður fyrir nágrannaríki Evrópusambandsins á norðurslóðum.
Innan verkefnsins verður leitast við að þróa aðferðafræði til að meta þá hættu sem kann að steðja að menningarminjum vegna loftslagsbreytinga og þróa vöktunar- og aðgerðaráætlanir. Ellefu staðir í sex löndum hafa verið valdir til að prufa og þróa aðferðafræði við mat og gerð áætlana. Svæðin sem urðu fyrir valinu á Íslandi eru Snæfellsjökulsþjóðgarður og Skaftártunga og er Veðurstofa Íslands samstarfsaðili í verkefninu. Lagt er upp með að þróa forrit eða gátt á netinu sem mun auðvelda hagsmunaaðilum, skipulagsyfirvöldum og almannavörnum að meta ástand og hættu sem steðjar að menningarminjum og gera tilhlýðilegar ráðstafanir.
|
|
Ritstjóri: Einar Ísaksson
Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir
|
|
|
|
|