Facebook icon Twitter icon Forward icon

Fréttabréf Minjastofnunar Íslands 2017:6

Ársfundur Minjastofnunar Íslands

Ársfundur Minjastofnunar verður haldinn í Kötlusal Hótel Sögu fimmtudaginn 23. nóvember. Morgunverður hefst kl. 8.30 og dagskrá kl. 9.00. Hér má nálgast dagskrá fundarins og hér fer fram skráning á fundinn, en nauðsynlegt er að skrá sig þar sem um morgunverðarfund er að ræða. Skráningu lýkur á hádegi föstudaginn 17. nóvember.

Umsóknir í húsafriðunarsjóð

Búið er að opna fyrir umsóknir í húsafriðunarsjóð. Umsóknarfrestur er til 1. desember. Umsóknareyðublað og dæmi um útfyllt eyðublað til leiðbeiningar má finna hér.
 

Verndarsvæði í byggð

Þann 15. október sl. undirritaði Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, í fyrsta sinn staðfestingarskjal um verndarsvæði í byggð á Íslandi. Djúpivogur er fyrst sveitarfélaga landsins til að leggja fram tillögu að verndarsvæði í byggð og fá hana staðfesta.

Þann 24. október undirritaði mennta- og menningarmálaráðherra samskonar staðfestingarskjal fyrir verndarsvæði í byggð í Garðahverfi á Álftanesi.

Lög um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015 voru samþykkt á Alþingi þann 2. júlí 2015. Kveða þau á um að öll sveitarfélög skuli meta hvort innan marka sveitarfélagsins sé byggð sem ástæða sé til að gera að verndarsvæði í byggð. Skal þetta gert í tengslum við skipulagsáætlunargerð sveitarfélaga eða að afloknum sveitarstjórnarkosningum á fjögurra ára fresti. Skal þá einnig fara fram endurmat á þeim verndarsvæðum sem þegar hafa verð staðfest.

Vinna að gerð tillögu um verndarsvæði í byggð stendur yfir í 22 sveitarfélögum. Veittir hafa verið sérstakir styrkir úr húsafriðunarsjóði til að koma til móts við kostnað við gerð tillögu að verndarsvæði og þeirra verkþátta sem liggja til grundvallar henni. Má þar nefna fornleifaskráningu og gerð húsakönnunar, en slík gögn eru forsenda mats á varðveislugildi svipmóts byggðarinnar.

Ársskýrslur Minjastofnunar 2015 og 2016

Út eru komnar ársskýrslur Minjastofnunar Íslands fyrir árin 2015 og 2016. Skýrslurnar má nálgast hér

Starfsmannamál

Pétur Ármannsson er kominn í rannsóknarleyfi næstu mánuði, en mun vera til staðar á Minjastofnun á mánudögum fram að áramótum.


María Gísladóttir, arkitekt, mun hefja störf hjá Minjastofnun 2. janúar 2018, en hún var ráðin í kjölfar þess að auglýst var laust til umsóknar starf arkitekts hjá stofnuninni. Sóttu níu um starfið.

Friðlýsingar

Þann 26. september undirritaði mennta- og menningarmálaráðherra friðlýsingu Hljómskálans í Reykjavík. Hljómskálinn er steinsteypt hús, reist árið 1922. Friðlýsingin nær til ytra borðs hússins. Nánar má lesa um húsið hér.

Þann 13. október undirritaði mennta- og menningarmálaráðherra friðlýsingu Fífilbrekku í Ölfusi, sem áður var sumarbústaður Jónasar Jónssonar frá Hriflu. Friðlýst eru ytra borð hússins og nánasta umhverfi þess innan upprunalegrar lóðar. Húsið er timburhús reist árið 1939.

Strandaferð starfsmanna

Dagana 4.-5. október fóru starfsmenn Minjastofnunar í ferð á Strandir. Keyrt var í Bjarnarfjörð á Ströndum og þaðan farið í skoðunarferð undir leiðsögn Magnúsar Rafnssonar, sagnfræðings. Skoðaðir voru ýmsir staðir í ferðinni, t.a.m. Strákatangi og Kaldrananeskirkja. Leiðangrinum lauk í Bjarnarfirði, á Laugarhóli, þar sem gist var. Daginn eftir var keyrt aftur til Reykjavíkur og var þá komið við á Stað í Steingrímsfirði og kirkjan þar skoðuð auk þess sem komið var við í Ólafsdal í Gilsfirði.

Evrópsku menningarminjadagarnir

Menningarminjadagar Evrópu voru haldnir hátíðlegir dagana 7.-14. október. Haldnir voru viðburðir um allt land í tengslum við dagana og voru þeir yfirleitt vel sóttir. Heildarfjöldi gesta árið 2017 var 224 og voru viðburðirnir átta talsins, einn á hverju minjasvæði. Sjá má lista yfir viðburðina hér.

Vill Minjastofnun þakka öllum þeim sem komu að viðburðunum, bæði viðburðahöldurum og gestum, fyrir framlag þeirra til menningarminjadaganna og vonar að allir hafi haft gagn og gaman af.

Erlent samstarf

Rúnar Leifsson, minjavörður Norðurlands eystra, fór fyrir hönd Minjastofnunar á aðalfund Evrópsku menningarminjadaganna (European Heritage Days – EHD) í Strassborg 17.-19. október 2017.
EHD er stærsta einstaka menningarverkefnið hjá Evrópuráðinu og er stutt af Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Menningarminjadagarnir eru haldnir ár hvert í þeim 50 löndum sem hlut eiga að Menningarsáttmála Evrópu og er markmið þessara daga að vekja athygli og áhuga á ríkri og fjölbreyttri menningu þeirra samfélaga sem byggja álfuna. Milljónir sækja þessa viðburði á hverju ári.
Aðalfundarefnið var Evrópska menningararfsárið 2018 (European Year of Cultural Heritage 2018 - EYCH), en EHD verða þar mikilvægur þáttur.
Evrópuráðið og Evrópusambandið leggja ríka áherslu á að nýta EHD við framkvæmd EYCH 2018 vegna þess víðtæka tengslanets sem EHD býr yfir við grasrótina í menningu hvers Evrópuríkis. Á fundinum stilltu fulltrúar hvers Evrópulands saman strengi sína varðandi framkvæmd ársins 2018 í samráði við fulltrúa Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Evrópuráðsins.

Stjórnarfundur EAC (European Heritage Council) var haldinn í Prag 20. október síðastliðinn. Fulltrúi Minjastofnunar Íslands í stjórn félagsins, Agnes Stefánsdóttir, sat fundinn sem að þessu sinni snerist að miklu leyti um undirbúning fyrir næsta aðalfund og ráðstefnu honum tengda sem haldin verða í Sofiu, höfuðborg Búlgaríu, í mars á næsta ári. Yfirskrift ráðstefnunnar verður: „Development-led Archaeology in Europe. Meeting the needs of archaeologists, developers and the public“. Utanumhald ráðstefnunnar er að þessu sinni í höndum íslenska fulltrúans í stjórn EAC með aðstoð búlgörsku gestgjafanna.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir

Útgáfudagur: 13 nóvember 2017