|
Fréttabréf Minjastofnunar Íslands 2015:10
|
|
Gleðileg jól!
|
|
|
Minjastofnun Íslands óskar öllum vinum sínum og velunnurum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs með þökk fyrir allt á árinu sem er að líða.
Starfsemi stofnunarinnar verður í lágmarki á milli jóla og nýárs en brýnum erindum verður sinnt eins og kostur er á.
|
|
Ársfundur Minjastofnunar Íslands
|
|
| |
Ársfundur Minjastofnunar Íslands var haldinn á Hótel Sögu föstudaginn 4. desember sl. Tókst fundurinn með eindæmum vel og sátu fundinn um 50-60 manns. Helstu fyrirlesarar voru Arne Høi skrifstofustjóri hjá Kulturstyrelsen í Danmörku, Birthe Iuel formaður BYFO (Bygnings Frednings Foreningen) í Danmörku og Páll Bjarnason
arkitekt og forystumaður í stofnun samtaka eigenda friðlýstra húsa á Íslandi. Var megininntak erindanna friðuð og friðlýst hús, viðhald þeirra, friðunarákvæði, skyldur og möguleikar eigenda. Auk þess veitti Minjastofnun í fyrsta skipti viðurkenningu fyrir góð störf í þágu minjaverndar. Þessa fyrstu viðurkenningu hlaut Vegagerðin fyrir frumkvæði að varðveislu og endurbyggingu sögulegra brúarmannvirkja á undanförnum árum. Hefur Vegagerðin staðið fyrir viðgerðum eða endurbyggingu á 16 brúarmannvirkjum og hefur þannig mikilvægum dæmum um þróunarsögu íslenskra brúarmannvirkja verið bjargað.
Hildur Jónsdóttir, sérfræðingur hjá Forsætisráðuneytinu, stjórnaði fundinum með stakri prýði. Að lokum sátu frummælendur auk Péturs Ármannssonar, sviðsstjóra hjá Minjastofnun, og Sigurði Erni Guðleifssyni, skrifstofustjóra hjá Forsætisráðuneytinu, í pallborði og ræddu efni fundarins og svöruðu spurningum úr sal. Voru allir fyrirlestrar og pallborðsumræður tekin upp og verða þau birt fljótlega á heimasíðu Minjastofnunar og fésbókarsíðu stofnunarinnar. Þökkum við öllum sem fundinn sóttu og ekki síst fyrirlesurum, fundarstjóra og þeim sem settust á pall með fyrirlesurum kærlega fyrir góðan og gagnlegan fund.
|
|
Starfsmannamál
Í lok nóvember var ráðinn nýr minjavörður Austurlands og mun hann taka við starfinu í janúarbyrjun. Sú sem ráðin var heitir Þuríður Elísa Harðardóttir. Þuríður er þrítug fjölskyldumanneskja með MA próf í fornleifafræði og er hún m.a. ættuð af Austfjörðum. Þuríður hefur ekki eingöngu reynslu af vinnu við fornleifarannsóknir heldur einnig við hús þar sem hún starfaði sem fornleifafræðingur við eyðibýlarannsóknina Eyðibýli á Íslandi sumarið 2012.
Rúnar Leifsson, fráfarandi minjavörður Austurlands og tilvonandi minjavörður Norðurlands eystra, fór í þriggja mánaða barnsburðarleyfi um mánaðarmótin nóvember/desember og verður því í leyfi út febrúar 2016. Að leyfi loknu tekur hann við stöðu minjavarðar Norðurlands eystra með aðsetur á Akureyri.
|
|
Erlent samstarf
Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður, og Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri, fóru á fund í Osló 2.-3. desember á vegum norska menningarmálaráðuneytisins um ólöglega verslun með menningarminjar. Á fundinum voru fulltrúar menningarminjastofnana, tollayfirvalda og lögreglu á Norðurlöndunum og var tilgangurinn að kanna möguleika á aukinni samvinnu þessara aðila til að koma meðal annars í veg fyrir sölu gripa frá Sýrlandi og Írak í kjölfar hernaðarátaka þar.
Dagana 7.-8. desember tók Oddgeir Isaksen, verkefnastjóri fornleifaskráningar hjá Minjastofnun, þátt í vinnufundi í York á Englandi á vegum Europeana/Carare verkefnisins sem Minjastofnun er aðili að. Fór fundurinn fram í King‘s Manor þar sem fornleifadeild háskólans í York er til húsa. Europeana er samevrópskt vefsvæði þar sem menningarstofnunum (minjasöfnum, stofnunum á sviði minjaverndar, listasöfnum o.fl.), sem eru aðilar að verkefninu, gefst kostur á að birta gögn í sínum fórum. Snerist fundurinn um að leiðbeina hlutaðeigandi um hvernig ætti að útbúa gögnin til þess að þau væru tæk inn á vefsvæðið.
|
|
Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir
Ábyrgðaraðili: Kristín Huld Sigurðardóttir
|
|
|
|
|