Facebook icon Twitter icon Forward icon

Fréttabréf Minjastofnunar Íslands 2015:3

Úthlutun úr fornminjasjóði og húsafriðunarsjóði

Styrkjum hefur verið úthlutað úr fornminjasjóði og húsafriðunarsjóði fyrir árið 2015. Af þeim 309 umsóknum sem bárust í húsafriðunarsjóð hlutu 224 styrk og af þeim 74 umsóknum sem bárust í fornminjasjóð hlutu 25 styrk. Alls var úthlutað 139.150.000 kr. úr húsafriðunarsjóði og 40.020.000 kr. úr fornminjasjóði. Frekari upplýsingar um úthlutanirnar má finna á heimasíðu Minjastofnunar: http://www.minjastofnun.is/um-stofnunina/frettir/nr/1284 (húsafriðunarsjóður) og http://www.minjastofnun.is/um-stofnunina/frettir/nr/1286 (fornminjasjóður).

Ráðstefna um minjar í hættu

Áhugafólk um minjar í hættu og Minjastofun Íslands boða til ráðstefnu um málefni minja sem eru í hættu vegna ágangs sjávar. Ráðstefnan ber heitið: Strandminjar í hættu - lífróður og munu innlendir og erlendir fyrirlesarar fjalla um minjar við ströndina, stöðu mála og hvað hægt er að gera til að takast á við þróunina.

Mikill fjöldi minja um allt land er í stórhættu vegna sjávarrofs. Þær minjar sem ekki síst eru í hættu eru minjar um sjávarútveg og sjósókn Íslendinga frá landnámi og allt fram á 20. öld. Um er að ræða gríðarlegt magn ómetnalegra menningarverðmæta sem eru nær órannsökuð og munu að óbreyttu hverfa í sjóinn.


Ráðstefnan verður haldin í salnum Kötlu á Hótel Sögu laugardaginn 18. apríl kl. 13:00-16:30 og er öllum opin.


Frekari upplýsingar og dagskrá má finna á Fésbók: https://www.facebook.com/events/457329027751824/ og heimasíðu Minjastofnunar: http://www.minjastofnun.is/um-stofnunina/frettir/nr/1287

Erlent samstarf

Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri rannsóknar- og miðlunarsviðs, hélt fyrirlestur á ráðstefnunni Revisiting Archiving Collections Management in Every Day Practice í Lissabon í Portúgal 18. mars síðastliðinn. Hún sat einnig stjórnarfund og árlega ráðstefnu EAC á sama stað dagana 19. og 20. mars. Yfirskrift ráðstefnunnar var When Valletta meets Faro. The reality of European archaeology in the 21st century.

Starfsmannamál

Ásta Hermannsdóttir sem starfað hefur hjá stofnuninni sem verkefnisstjóri stefnumótunar frá því í byrjun október 2014 hefur verið ráðin til eins árs frá 1. apríl 2015 sem verkefnisstjóri stefnumótunar og miðlunar.

Nýr minjavörður Vestfjarða, Einar Ísaksson, hefur tekið til starfa. Einar lauk Fil. kand og MA prófi í fornleifafræði í Svíþjóð. Fyrsta mánuðinn dvelur hann í Reykjavík og hlýtur þjálfun á hinum ýmsu sviðum minjavarðarstarfsins en um mánaðarmótin apríl/maí flyst hann til Vestfjarða. Verður skrifstofa Einars í Bolungarvík.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir