Facebook icon Twitter icon Forward icon

Aðgerðir vegna kórónuveirufaraldurs

Þótt slakað hafi verið á samkomubanni og höftum í samfélaginu hefur verið tekin sú ákvörðun að takmarka áfram aðgang að skrifstofum Minjastofnunar Íslands um allt land.  Munu þær takmarkanir gilda a.m.k. fram í byrjun ágúst. Þeir sem erindi eiga við stofnunina eru beðnir um að hafa samband við starfsfólk og mæla sér mót fyrirfram ef þörf er á fundi. Starfsfólk stofnunarinnar skal áfram nýta stafrænar lausnir við fundahöld eins og kostur er. Á næstu dögum verða jafnframt settir upp dyrasímar við innganga að skrifstofu Minjastofnunar í Reykjavík. Að öðru leyti verða breytingar á aðgengi að skrifstofum kynntar á heimasíðu stofnunarinnar og Facebook síðu þegar þar að kemur.


Í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna kórónaveirufaraldursins var m.a. sett fjármagn í aðgerðir tengdar minjavörslu. Húsafriðunarsjóður fékk 100 milljónir í aukaframlag. Af þeim runnu 40 milljónir beint til  húsasafns Þjóðminjasafnsins en 60  milljónum var úthlutað til atvinnuskapandi verkefna um land allt. Þá fékk Minjastofnun Íslands 13 milljónir til að skrá fornleifar í þjóðlendum, á minjastöðum í hættu og í tengslum við friðlýsingar.

Upplýsingar um úthlutun viðbótarframlags úr húsafriðunarsjóði má finna hér.

#menningarminjar

Nú þegar ferðasumarið er hafið langar Minjastofnun að minna á mikilvægt fyrirbæri í umhverfinu – menningarminjar!

Menningarminjar er að finna í öllum stærðum og gerðum um allt land og okkur langar til að hvetja fólkið í landinu til að horfa í kringum sig í sumar og taka eftir þeim menningarminjum sem fylla landslagið okkar af minningum og sögum. Við hvetjum fólk til að taka myndir af menningarminjum og deila þeim á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #menningarminjar.


Nánar má lesa um hvatningarátakið hér.
Hér má nálgast Instagramsíðu Minjastofnunar.

Starfsmannamál

Ráðinn hefur verið starfsmaður í skráningu minningarmarka í gagnagrunn. Starfsmaðurinn er staðsettur á Djúpavogi og heitir Ragnar Sigurður Kristjánsson.

Í tengslum við átak ríkisins um sumarvinnu fyrir námsmenn hafa verið ráðnir til starfa hjá Minjastofnun tveir nemar sem vinna við miðlun upplýsinga og einn lögfræðinemi.

Friðlýsingar

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur undirritað friðlýsingu Laxabakka við Sog í Öndverðarnesi.  Laxabakka reisti Ósvaldur Knudsen árið 1942 sem veiði- og frístundahús. Friðlýsingin tekur til ytra borðs sumarhússins Laxabakka, fastra innréttinga sem varðveist hafa, bátaskýlis við bakka Sogs og nánasta umhverfis hússins. Varðveislugildi Laxabakka felst ekki hvað síst í samspili byggingarlistar við náttúru og umhverfi. Húsið er sem samgróið landinu og fellur einstaklega vel að staðháttum við Sogið. Nánar má lesa um friðlýsinguna hér.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur einnig undirritað friðlýsingu elsta hluta skólabygginga Samvinnuskólans á Bifröst í Borgarfirði. Friðlýsingin tekur til ytra borðs samkomuhúss frá 1950, veggfastra innréttinga í samkomusal og setustofu samkomuhúss, ytra borðs tengigangs milli samkomuhúss og gistiálmu, reist 1955, og veggmyndar á tengigangi eftir Hörð Ágústsson listmálara. Nánar má lesa um friðlýsinguna hér.

Tillaga að friðlýsingu menningarlandslags í Þjórsárdal skv. lögum um menningarminjar nr. 80/2012 hefur verið send mennta- og menningarmálaráðherra til ákvörðunar. Minjastofnun hefur lagt mikla áherslu á samráð við hagsmunaaðila í ferlinu, en í tilfelli Þjórsárdals eru þeir ansi margir, og hefur vinnsla tillögunnar því verið óvenju tímafrek. Við væntum þess að niðurstaða komist í málið fljótlega.

Hafinn er undirbúningur tillögu að friðlýsingu menningar- og búsetulandslags við Þerneyjarsund í Reykjavík. Við Þerneyjarsund er einstakt menningar- og búsetulandslag þar sem finna má minjar um kauphöfn frá miðöldum og búsetu fram á 20. öld; ummerki um búsetu í Þerney, búðarústir í landi Sundakots, fiskbyrgi frá 14. öld og býlin Sundakot/Niðurkot og Glóru. Svæðið segir sögu kauphafnar og búsetu við Þerneyjarsund og hefur að geyma einstakar minjar um hafskipahöfn frá síðmiðöldum sem var forveri kaupstaðarins í Hólminum og þar með Reykjavíkurkaupstaðar. Drög að friðlýsingarskilmálum verða send hagsmunaaðilum á næstunni.

Erlent samstarf

Dagana 5. og 6. maí sl. var haldin netráðstefna á vegum Adapt Northern Heritage verkefnisins, sem Minjastofnun er aðili að. Upphaflega átti umrædd ráðstefna að vera lokaráðstefna verkefnisins, haldin í Edinborg í Skotlandi, en vegna aðstæðna var ákveðið að flytja ráðstefnuna yfir í stafrænt form. Gafst sú ráðstöfun vel og er ljóst að mun fleiri gátu sótt ráðstefnuna en verið hefði ef hún hefði verið haldin í Edinborg. Ráðstefnan var send út á þremur miðlum: Zoom, þar sem hægt var að senda inn spurningar til fyrirlesara, og svo Youtube og Facebook þar sem hægt var að hlusta á alla fyrirlestrana.


Hér má lesa nánar um ráðstefnuna og nálgast Youtube-upptökur af henni.

Facebooksíða Adapt Northern Heritage.

Heimasíða Adapt Northern Heritage.

Endurbætur á aðalskrifstofu

Endurbótum í kjallara Suðurgötu 39, Reykjavík, sem hýsir aðalskrifstofu Minjastofnunar Íslands er lokið og er verið að taka kjallarann aftur í notkun þessa dagana. Um mánaðarmótin október-nóvember 2019 kom í ljós mikil mygla í kjallara hússins og hófust strax umfangsmiklar framkvæmdir. Allir innanstokksmunir voru fluttir í geymslu á meðan á framkvæmdunum stóð og er nú hafinn flutningur á innanstokksmununum aftur á Suðurgötuna. Vonir standa til að kjallarinn verði kominn að fullu í notkun aftur fyrir haustið. Gerðar hafa verið breytingar á vinnustöðvum starfsfólks og það fært til. Bókasafn og skjalageymsla verða endurskipulögð.  Það er því ærið verk sem bíður starfsmanna stofnunarinnar þessa dagana.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir

23. júní 2020