Facebook icon Twitter icon Forward icon

Fréttabréf Minjastofnunar Íslands 2015:4

Ráðstefna um strandminjar í hættu

Mynd: Egill Ibsen

Laugardaginn 18. apríl stóð Minjastofnun ásamt áhugafólki um minjar í hættu fyrir ráðstefnu um strandminjar í hættu. Um 80-90 manns lögðu leið sína á Hótel Sögu þar sem ráðstefnan var haldin. Á ráðstefnunni fjölluðu íslenskir og erlendir fræði- og áhugamenn um strandminjar og verndun þeirra út frá ýmsum sjónarhornum. Að lokum tóku ráðstefnugestir þátt í umræðum um spurninguna: hvað svo? Voru ráðstefnugestir sammála um að brýnasta verkefnið í verndun strandminja væri skráning og að mikilvægt væri að hefja aðgerðir sem fyrst.

Vill Minjastofnun þakka öllum þeim sem sóttu ráðstefnuna, fyrirlesurum og því áhugafólki sem átti frumkvæðið að ráðstefnunni kærlega fyrir!

Ráðstefnan var tekin upp á myndband og má hér sjá afrakstur myndvinnslu Eyþórs Eðvarðssonar og Ingridar Kuhlman. Ráðstefnan er hér öll aðgengileg í sjö hlutum:

1/7: Opnun ráðstefnunnar – Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra
https://vimeo.com/126057171

2/7: Birna Lárusdóttir, fornleifafræðingur – Sjór nemur land: eyðing fornleifa við sjávarsíðuna
https://vimeo.com/126057172

3/7: Þór Hjaltalín, minjavörður Norðurlands vestra – Eyðing strandminja: hver er staðan og hvað er til ráða?
https://vimeo.com/126062290

4/7: Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur – Verstöðvar og verskálaminjar á Austfjörðum
https://vimeo.com/126062291

5/7: Egill Ibsen, Fornminjafélagi Súgandafjarðar – Kaldur veruleikinn í myndum
https://vimeo.com/126064960

6/7: Tom Dawson, fornleifafræðingur og framkvæmdastjóri SCAPE í Skotlandi - The Scotland’s Coastal Heritage at Risk Project
https://www.youtube.com/watch?v=l-0gbrd12NQ

7/7: Umræður þátttakenda undir stjórn Eyþórs Eðvarðssonar – Hvað svo?
https://www.youtube.com/watch?v=-6INSZGdKBc

Vísitasía minjavarðar Vestfjarða og flutningur til Bolungarvíkur

Einar Ísaksson, minjavörður Vestfjarða, fór ásamt Kristínu Huld Sigurðardóttur, forstöðumanni, og Þór Hjaltalín, minjaverði Norðurlands vestra, í vísitasíu um hluta Vestfjarða dagana 21. og 22. apríl. Farið var í heimsókn á bæjarskrifstofur Bolungarvíkur, sveitarstjóri Súðavíkur sóttur heim, farið í kaffi í Safnahúsinu á Ísafirði, Suðureyri skoðuð og komið við á Hólmavík á leiðinni aftur til Reykjavíkur þar sem rætt var við menningarfulltrúa Vestfjarða. Hópurinn heimsótti einnig sparisjóðsstjóra Bolungarvíkur sem leiddi hópinn um bækistöðvar Náttúrustofu Vestfjarða í Bolungarvík en þar mun skrifstofa Einars verða, að Aðalstræti 21. Einar mun hefja störf á skrifstofunni í Bolungarvík næstkomandi mánudag, 4. maí.

Fræðslufundur Húsverndarstofu

Fimmtudaginn 16. apríl var haldinn fræðslufundur um glugga á vegum Húsverndarstofu. Að Húsverndarstofu standa Minjastofnun Íslands, Iðan fræðslusetur og Borgarsögusafn. Gunnþóra Guðmundsdóttir, arkitekt, stóð vaktina fyrir hönd Minjastofnunar og fjallaði ásamt Magnúsi Skúlasyni, formanni húsafriðunarnefndar, um gluggagerðir og stíltímabil. Tilgangur fundarins var að fræða leika og lærða um viðgerðir og viðhald glugga með það fyrir augum að hinn almenni húseigandi fái leiðsögn um hvernig á að bera sig að við viðhald og viðgerðir glugga í gömlum húsum og geti jafnvel sinnt viðhaldi að einhverju leyti sjálfur. Fundurinn var vel sóttur og fylltu fundargestir Lækjargötuhúsið á Ábæjarsafni.

Námskeið á Patreksfirði

Dagana 20. og 21. mars stóðu aðstandendur Húsverndarstofu fyrir námskeiði á Patreksfirði sem bar heitið Viðhald og viðgerðir gamalla húsa. Gunnþóra Guðmundsdóttir, arkitekt hjá Minjastofnun, var einn kennara námskeiðsins og nýtti Einar Ísaksson, minjavörður Vestfjarða, tækifærið og fór með í ferðina til þess að sýna sig og sjá aðra. Aðrir kennarar og samferðamenn Gunnþóru og Einars voru Magnús Skúlason, arkitekt og formaður húsafriðunarnefndar, og Einar Skúli Hjartarson, húsasmíðameistari. Námskeiðið heppnaðist prýðilega og létu ferðalangarnir vel af ferðinni allri.
Var ferðin ekki eingöngu nýtt til þess að halda námskeið heldur hitti hópurinn einnig mæta menn og konur auk þess sem könnuð voru tvö hús á svæðinu. Verður ferðin að teljast gott upphaf ferils nýs minjavarðar Vestfjarða.

Lokað dagana 7. og 8. maí

Minjastofnun Íslands verður lokuð dagana 7. og 8. maí vegna endurmenntunar- og fræðsluferðar starfsmanna.

Breytingar hjá English Heritage í Englandi

Ensku minjavörslunni, English Heritage, var 1. apríl síðastliðinn skipt upp í tvær stofnanir. Sú stofnun sem nú fer með stjórnsýslu minjaverndar í Englandi heitir Historic England og er ný heimasíða hennar: https://www.historicengland.org.uk/

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir