Facebook icon Twitter icon Forward icon

Sumarstörf fyrir námsmenn

Minjastofnun Íslands hefur auglýst tíu sumarstörf námsmanna laus til umsóknar í gegnum Vinnumálastofnun. Um er að ræða fjölbreytt störf fyrir nema í ýmsum greinum, s.s. lögfræði, fornleifafræði, upplýsingafræði, hagnýtri menningarmiðlun og listum.

Umsóknarfrestur er til og með deginum í dag, 21. maí.
 

Öll störfin má finna hér á vef Vinnumálastofnunar.

Húsverndarstofa

Nú þegar aðalframkvæmdatími ársins er framundan viljum við minna á Húsverndarstofu, samstarfsverkefni Minjastofnunar, Borgarsögusafns og Iðunnar – fræðsluseturs, sem starfrækt er á Árbæjarsafni. Þar eru veittar ráðleggingar um allt sem við kemur gömlum húsum og viðhaldi þeirra, endurgjaldslaust. Húsverndarstofa er opin alla miðvikudaga kl. 15-17. Hægt er að mæta á staðinn á þeim tíma eða hringja í síma 411-6333. Frekari upplýsingar má finna hér.

Eldgos á Reykjanesi

Minjastofnun hefur haldið áfram að vinna að því að fá yfirsýn og safna upplýsingum vegna minja sem gætu verið í hættu vegna eldgoss á Rekjanesi. Í vettvangsferðum stofnunarinnar á Reykjanesið í marsmánuði voru í heildina skráðar 233 minjar á vettvangi. Minjarnar voru mældar upp með landmælingatækjum, ljósmyndaðar og helstu upplýsingar skráðar. Minjarnar höfðu langflestar verið skráðar áður í tengslum við t.a.m. aðalskipulagsgerð sveitarfélaga, en skráningarnar uppfylltu ekki þær kröfur sem gerðar eru til fornleifaskráningar í dag. Þær kröfur sem helst vantar upp á í eldri skráningum eru uppmælingar minjanna. Í eldri skráningum er í flestum tilfellum bara að finna staðsetningarpunkta fyrir minjarnar en ekki heildaruppmælingu þeirra.
Í kjölfarið á skráningarferðunum hófst svo úrvinnsla þeirra ganga sem safnað var og eru upplýsingar um allar þessar minjar nú aðgengilegar á vefsjá stofnunarinnar. Minjarnar sem skráðar voru má finna á Vogaheiðinni og í landi Ísólfsskála rétt austan Grindavíkur.
Enn er töluverður fjöldi skráðra minja á Reykjanesinu sem ekki uppfyllir núverandi kröfur Minjastofnunar um skráningu fornleifa. Vinna er hafin við að safna saman upplýsingum úr eldri fornleifaskráningarskýrslum til að styðja við frekari skráningavinnu á svæðinu. Á næstu misserum er það von stofnunarinnar að hægt verði að skrá, mæla upp og ljósmynda þessar minjar, sem og áður óþekktar minjar á svæðinu, á vettvangi.

COVID fréttir

Með auknu hlutfalli bólusettra starfsmanna og tilslökunum á samkomutakmörkunum hefur starfsfólk Minjastofnunar hægt og rólega verið að tínast til baka inn á skrifstofur og þeim fækkar sem eru í heimavinnu. Aðgangur annarra en starfsmanna er þó enn takmarkaður að skrifstofum stofnunarinnar og er mikilvægt að þeir sem hyggjast koma á skrifstofur mæli sér mót við starfsmann fyrirfram.
Stefnt er að því að hefðbundin starfsemi komist hægt og rólega á á skrifstofum eftir því sem líður á sumarið, en þó verður starfsfólki heimilt að vinna heima í sérstökum tilfellum.

Endurmenntunarnámskeiði frestað til haustsins

Í síðustu viku aprílmánaðar stóð til að endurtaka námskeið sem Minjastofnun hefur haldið í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands um húsakannanir – skráningu og mat á varðveislugildi húsa og mannvirkja. Þegar í ljós kom að ekki yrði unnt að kenna námskeiðið að fullu í staðnámi vegna Covid-faraldursins var ákveðið að fresta námskeiðinu til næsta hausts. Mikilvægur þáttur námskeiðsins er að leiðbeinendur og nemendur vinni saman og skiptist á skoðunum í tengslum við vettvangs- og verkefnavinnu. Í ljósi þess að námskeiðið hefði ekki nýst nemendum sem skyldi í fjarnámi var þessi ákvörðun tekin og eru þeir sem höfðu skráð sig á námskeiðið beðnir innilegrar afsökunar á þeim óþægindum sem þessi ákvörðun kann að hafa valdið. Við vonum svo sannarlega að þeir skrái sig á námskeiðið þegar það verður haldið næsta haust og hvetjum alla áhugasama um húsakannanir að fylgjast með hjá Endurmenntun þegar námskeiðið verður auglýst að nýju.

Bæklingur um litaval

Eitt þeirra verkefna sem hlutu styrk úr húsafriðunarsjóði í ár er gerð leiðbeiningabæklings um litaval á hús sem hæfir aldri þeirra og gerð. Bæklingurinn er samstarfsverkefni framtakssamra einstaklinga (hönnuða/arkitekta) sem fengu Minjastofnun, Borgarsögusafn Reykjavíkur og Húsverndarstofu í lið með sér við vinnslu hans. Stefnt er að útgáfu bæklingsins í byrjun sumars.

21. maí 2021

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir