Facebook icon Twitter icon Forward icon

Sjóðirnir

Umsóknarfrestur í fornminjasjóð rann út 10. janúar og er því umsóknarfrestur fyrir árið 2018 runninn út í báðum sjóðum, fornminjasjóði og húsafriðunarsjóði. Stefnt er að því að ákvörðun um úthlutun úr sjóðunum liggi fyrir um miðjan mars.

Evrópska menningararfsárið

Evrópska menningararfsárið 2018 var sett í Mílanó á Ítalíu í byrjun desember 2017. Nú vinnur Minjastofnun hörðum höndum að því að setja saman viðburðadagatal fyrir menningararfsárið á Íslandi. Meginþema ársins er að virkja fólk og fá það til að velta fyrir sér gildi menningararfsins fyrir sig og samfélagið í heild, en rauður þráður sem valinn hefur verið til að tengja saman viðburðina á Íslandi er strandmenning. Mælst er til þess að áhugasamir sendi beiðni um skráningu viðburðar á dagatal menningararfsársins í síðasta lagi föstudaginn 19. janúar. Beiðnir sendist á tölvupóstfangið: asta@minjastofnun.is .

Starfsmannamál

María Gísladóttir, arkitekt, hóf störf hjá Minjastofnun Íslands í Reykjavík í byrjun janúar. Hún gegnir stöðu verkefnastjóra og fæst við mál sem upp koma á landsvísu. Pétur Ármannsson, arkitekt, fór á sama tíma í 20% starf og mun hann hér eftir sinna sérverkefnum hjá stofnuninni. Guðný Gerður Gunnarsdóttir gegnir nú starfi sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs auk stöðu minjavarðar Reykjavíkur og nágrennis.


Frá áramótum lét Magnús Freyr Gíslason, arkitekt, af störfum sem verkefnastjóri á skrifstofunni á Sauðárkróki og þökkum við honum fyrir góð störf og ánægjulega viðkynningu.

Undirritun viljayfirlýsingar

Fimmtudaginn 11. janúar hélt Vinnueftirlitið fund um áreitni á vinnustöðum. Forstöðumaður Minjastofnunar sótti fundinn og undirritaði við það tilefni viljayfirlýsingu um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Verkefni um Reykjavíkurhöfn

Vinna við undirbúning apps um Reykjavíkurhöfn, sögu hennar og hlutverk í fullveldi Íslands er í fullum gangi. Verkefnið er samstarfsverkefni Minjastofnunar Íslands, Borgarsögusafns og Faxaflóahafna og fékk styrk frá nefnd um 100 ára fullveldi Íslands. Verkefninu lýkur með opnun appsins í byrjun júní og mun sá viðburður verða á dagskrá 100 ára fullveldis Íslands og menningararfsársins.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir

Útgáfudagur: 15.01.2018