Facebook icon Twitter icon Forward icon

Minjaverndarviðurkenning og ársfundur

Ársfundur Minjastofnunar Íslands fór fram með óvenjulegum hætti að þessu sinni. Fundurinn var haldinn í gegnum samskiptaforritið Zoom og gengu fundahöldin vel á þessum nýstárlega vettvangi.

Sérstaklega ánægjulegt var að mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, sá sér fært að mæta og ávarpa fundinn. Ráðherra veitti einnig árlega minjaverndarviðurkenningu Minjastofnunar Íslands og var það að þessu sinni Þorsteinn Gunnarsson, arkitekt, sem hlaut viðurkenninguna. Þorsteinn er sannarlega vel að viðurkenningunni kominn og óskum við honum enn og aftur innilega til hamingju!

Þorsteini er veitt viðurkenningin fyrir brautryðjendastarf á sviði endurgervingar sögulegra bygginga og fyrir áratuga rannsóknir á íslenskri húsagerðarsögu.


Hér má lesa nánar um ársfundinn, minjaverndarviðurkenninguna og störf Þorsteins Gunnarssonar.


Hér má nálgast upptöku af ársfundinum.

Leiðarvísir um viðbragðsáætlanir í friðlýstum kirkjum

Minjastofnun Íslands hefur gefið út leiðarvísi um viðbragðsáætlanir við vá í friðlýstum kirkjum. Nathalie Jacqueminet, forvörður, setti leiðarvísinn saman og bjó til eyðublað sem nýtist m.a. sóknanefndum og umsjónarmönnum friðlýstra kirkna við gerð viðbragðsáætlana.


Leiðarvísinn og eyðublaðið má nálgast hér.

Jóladagatal

Á heimasíðu Minjastofnunar má nú finna jóladagatal þar sem 24 menningarminjum verða gerð skil. Einnig eru settar daglegar tilkynningar um opnun nýrra glugga í dagatalinu á Facebook síðu Minjastofnunar

Hér má nálgast jóladagatalið

Mannauðsmál

Ragnar Sigurður Kristjánsson, starfsmaður á Djúpavogi, var verkefnaráðinn hjá stofnuninni til 15. nóvember síðastliðinn. Starf Ragnars var hluti af styrk frá Byggðastofnun vegna fjarvinnslu gagna. Fyrsti hluti verkefnisins sneri að innslætti upplýsinga um minningarmörk inn í gagnagrunn og þegar því lauk vann hann við að skilgreina fornleifaskráningaverkefni í vefsjá Minjastofnunar og færa þar inn upplýsingar úr skráningarskýrslum.


Margrét Þormar, arkitekt, lét af störfum hjá stofnuninni þann 1. desember. Margrét var ráðin til Minjastofnunar í upphafi árs 2020 sem verkefnastjóri til að leysa af Maríu Gísladóttur, arkitekt, sem fór í barnsburðarleyfi í febrúar. María kemur aftur til starfa á nýju ári, 2021.


Guðný Gerður Gunnarsdóttir, minjavörður Reykjavíkur og nágrennis, mun láta af störfum hjá stofnuninni þann 15. desember n.k. Henny Hafsteinsdóttir, arkitekt, hefur verið ráðin minjavörður í hennar stað og hefur hún störf í febrúar 2021.


Minjastofnun þakkar þeim Ragnari, Margréti og Guðnýju kærlega fyrir gott samstarf og vel unnin störf. Óskum við þeim velgengni á nýjum vettvangi.

Vefsjá Minjastofnunar

Vinna við uppfærslu á gögnum Minjastofnunar sem birt eru í vefsjá stofnunarinnar hefur staðið yfir síðustu mánuðina og standa vonir til að hægt verði að birta þau snemma á næsta ári. Breytingar sem unnið hefur verið að eru m.a. sýnileiki á friðhelgi fornleifa, auðveldari leit og birting upplýsinga um friðlýst hús og mannvirki. Minjastofnun vonast til að uppfærslan á gögnunum muni auðvelda notendum að skoða og nýta sér þau landfræðilegu gögn sem Minjastofnun heldur utan um.

Aldursfriðað hús fæst gefins

Gamla íbúðarhúsið á Höfða í Skagafirði fæst gefins gegn því að vera gert upp á nýjum stað. Húsið var byggt árið 1892 og er því aldursfriðað samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012. Það þýðir að hvorki má rífa það né breyta á nokkurn hátt án samþykkis Minjastofnunar Íslands.
Núverandi eigendur sáu sér ekki fært að viðhalda húsinu og óskuðu eftir heimild til niðurrifs til Minjastofnunar. Samkomulag var gert um að auglýsa húsið gefins ef einhver vildi flytja það af staðnum og gera upp. Flytja þarf húsið fyrir 1. júní 2021 og þurfa nýir eigendur að gera áætlun um uppbyggingu á nýjum stað. Nánari upplýsingar um málið má sjá hér.

Sjóðirnir

Umsóknarfrestur í húsafriðunarsjóð rann út 1. desember sl. Úthlutunar er að vænta 15. mars 2021.
Umsóknarfrestur í fornminjasjóð er til og með 10. janúar 2021. Umsóknareyðublað má finna hér.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir

11. desember 2020