Facebook icon Twitter icon Forward icon

Opið fyrir umsóknir um styrki í húsafriðunarsjóð

Búið er að auglýsa eftir umsóknum um styrki úr húsafriðunarsjóði fyrir árið 2019. Umsóknarfrestur er til og með 1. desember.

Umsóknareyðublöð má finna hér.

Reglur um úthlutun úr húsafriðunarsjóði má finna hér. 

Ársfundur Minjastofnunar Íslands 2018

Ársfundur Minjastofnunar Íslands verður haldinn á Hótel Sögu miðvikudaginn 28. nóvember, fyrir hádegi. Skráning er hafin en nákvæm dagskrá verður auglýst fljótlega.

Skráning á fundinn fer fram hér. 

Samráðsfundur starfsmanna minjastofnana Norðurlanda

Árlegur samráðsfundur starfsmanna minjastofnana Norðurlandanna var haldinn í Reykjavík dagana 15. og 16. október. Tíu starfsmenn minjastofnana Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands mættu til leiks auk þriggja starfsmanna Minjastofnunar Íslands. Fundir starfsmannanna eru ætlaðir til þess að kynna það sem efst er á baugi í hverju landi og ræða meðhöndlun mála og lausnir. Eru samræður af þessu tagi mjög gagnlegar fyrir alla aðila og skila þær auknum skilningi á sameiginlegum viðfangsefnum og áskorunum. Á mánudeginum var fundað stíft allan daginn í höfuðstöðvum Minjastofnunar í Reykjavík, en á þriðjudeginum var farið með hópinn í göngu um Reykjavík þar sem minjastaðir, söfn og fleira áhugavert var skoðað.

Starfsmannaferð í Þjórsárdal

Dagana 17.-19. september fóru starfsmenn Minjastofnunar í vinnuferð í Þjórsárdal. Fyrsta daginn var keyrt um dalinn og ýmsir áhugaverðir staðir skoðaðir, s.s. Hólaskógur, Gjáin og Leppar. Annar dagurinn var vinnudagur á Stöng og voru þá gerðar lagfæringar á minjum og umhverfi þeirra; steinar reistir við og gróður hreinsaður burt, minjar afmarkaðar með köðlum og ástand veggja í bæjarhúsarústinni kannað svo dæmi séu nefnd. Þriðja daginn var fundað að Leirubakka þar sem hópurinn gisti á meðan á ferðinni stóð.

Síðustu bindi Kirkna Íslands komin út

Út eru komin þrjú síðustu bindin í ritröðinni Kirkjur Íslands, sem hóf göngu sína árið 2001. Bækurnar eru grundvallarrit um þær 216 kirkjur sem friðlýstar eru á Íslandi, þar sem horft er á þær frá sjónarhóli byggingarlistar, stílfræði og þjóðminjavörslu. Í máli og myndum er fjallað um kirkjurnar sjálfar ásamt kirkjugripum og minningarmörkum.
Í bindum 29 og 30 er fjallað um Skálholtsdómkirkju annars vegar og Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd hins vegar, en þessar kirkjur voru friðlýstar eftir að bækur um viðkomandi prófastsdæmi komu út.
Lokabindi ritraðarinnar, það 31., er í tveimur hlutum. Í fyrri hlutanum eru þrjár yfirlitsgreinar um íslenskar kirkjubyggingar, steinhlaðnar kirkjur, torf- og timburkirkjur og steinsteypukirkjur. Í seinni hlutanum eru skrár sem taka til allra binda ritverksins, 1-31, skrá um hagleiksfólk, sem kom að byggingu friðlýstra kirkna eða á gripi í þeim. Því næst eru þrjár samfelldar skrár um 1) höfunda, 2) ljósmyndara, 3) húsameistara, teiknara og mælingamenn. Aftan við skrárnar eru leiðréttingar og viðbætur, sem flestar hafa birst áður en er nú safnað saman í einn bálk. Aftast eru orðskýringar með nokkrum skýringarmyndum.
Nánari upplýsingar um bindin og höfunda þeirra má nálgast hér.

Starfsmannamál

Ráðnir hafa verið inn tveir starfsmenn tímabundið fram að áramótum. Það eru þær Sólrún Inga Traustadóttir, sem mun sinna verkefnum vegna skila á skýrslum, gripum og gögnum úr fornleifarannsóknum, og Inga Sóley Kristjönudóttir, sem mun vinna að verkefnum tengdum innviðauppbyggingu, umhverfismálum og skipulagi.

Erlent samstarf

Minjavörður Norðurlands eystra, Rúnar Leifsson, tók þátt í fjölmennum ársfundi menningarminjadaga Evrópu (European Heritage Days – EHD) í Strassborg daganna 17.-19. október með fulltrúum flestra Evrópulanda sem og frá Europa Nostra, ESB og Evrópuráðinu. Meginefni fundarins var túlkun menningararfs og þá sérstaklega hvernig raddir sem flestra hópa í samfélaginu fái sín notið. Kynnt voru þau tíu verkefni sem hlutu verðlaun Evrópuráðsins í European Heritage Stories. European Heritage Stories er vettvangur þar sem aðilar í grasrótinni sem vinna með menningarminjar og menningarerfðir geta kynnt verkefni sín. Í skoðun er hvort Ísland kynni verkefni í European Heritage Stories á komandi ári. Ísland mun aftur taka þátt í Menningarminjakeppni grunnskólanema á næsta ári, en Íslands átti sigurvegara nú í ár sem er á leið í vinningsferð til Frakklands með fjölskyldu sinni. Ísland hefur fengið boð um að taka þátt í viðburði á næstu Menningarminjadögum með Eystrasaltslöndunum, það er ráðstefna um Underwater Cultural Heritage. Þessi viðburður er í forsvari Minjastofnunar Lettlands og í samvinnu við Eystrasaltsráðið og Evrópuráðið.

Dagana 23.-25. október fór Þuríður Elísa Harðardóttir, minjavörður Austurlands, á fund í verkefninu Tenging náttúru- og menningarminja í umhverfi Norðurslóða (CINE). Fundað var að þessu sinni í St. Andrews í Skotlandi. Þetta er þriðji verkefnafundur CINE, en verkefnið hófst á haustdögum 2017. Í lok verkefnafundarins var haldið málþing, Open Doors to Digital Heritage, þar sem fulltrúar verkefnisins fluttu meðal annars erindi. Eftir málþingið gafst fólki m.a. kostur á að skoða nýjan sýndarveruleika af klausturbyggingum á Skriðuklaustri og gripi í þrívídd. Háskólinn í St. Andrews er aðili í þessu verkefni ásamt fleirum frá Írlandi, Skotlandi, Noregi og Íslandi.

Dagana 25.-27. október sótti Þór Hjaltalín, sviðsstjóri, stjórnarfund EAC (Europae Archaeologiae Consilium) í Varsjá í Póllandi. EAC eru samtök stjórnsýslustofnana á svið fornleifavörslu í Evrópu, en meginmarkmið samtakanna er að styðja við fornleifavörslu í álfunni. Samtökin hafa verið dugleg við útgáfu á ýmsu hagnýtu efni á sviði minjavörslu og byggir útgáfan gjarnan á starfi verkefnahópa með fulltrúum frá ýmsum löndum Evrópu. Einnig standa samtökin fyrir málþingi á hverju ári um tiltekið efni og eru erindin gefin út, bæði á netinu og í bókarformi. Í undirbúningi er ársþing EAC sem haldið verður í Dublin 28. febrúar – 2. mars 2019. Efni þingsins er: Archaeological sites and monuments in the care of the state – sharing our experiences og verður Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður Minjastofnunar með erindi þar. Á fundinum í Varsjá var nýjum verkefnahópi einnig ýtt úr vör sem er ætlað að setja fram leiðbeinandi reglur eða verklag um það hvernig minjavarslan metur gildi staða og minja. Er það ekki síst hugsað sem hjálpartæki við ákvarðanatöku þegar ráðast þarf í breytingar á viðkomandi stöðum, t.d. vegna framkvæmda. A.m.k. tíu lönd Evrópu taka þátt í verkefnahópnum og mun Þór Hjaltalín stýra vinnu hópsins.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir

9. nóvember 2018