Minjastofnun hefur kynnt áform sín um friðlýsingu búsetulandslags í Þjórsárdal. Um er að ræða friðlýsingu sem byggir á 18. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012. Nú þegar eru 22 bæjarstæði friðlýst í dalnum en tilgangur friðlýsingar alls búsetulandslags dalsins er m.a. að sameina undir eina friðlýsingu allar þær fornleifar í Þjórsárdal sem friðlýstar voru á þriðja tug 20. aldar, sem og allar þær aldursfriðuðu minjar sem í dalnum finnast, þekktar og óþekktar. Öllum er gefinn kostur á að koma með athugasemdir við áformin og er athugasemdafrestur til og með 10. febrúar. Ítargögn og nánari upplýsingar um málið má finna hér.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, undirritaði þann 27. nóvember 2018 friðlýsingu ljóskastarahúss við Urð á Seltjarnarnesi. Friðlýsingin tekur til hins steinsteypta mannvirkis í heild og hlaðins sökkuls umhverfis það. Mannvirkið er einstakt á Íslandi og mikilvæg heimild um hernámstímann og umsvif breska setuliðsins hér á landi. Meira má lesa um ljóskastarahúsið og friðlýsingu þess hér.
Þann 8. janúar sl. undirritaði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, friðlýsingu Víkurgarðs í Reykjavík. Um er að ræða það svæði sem skilgreint er sem Víkurgarður á lóðaruppdrætti og eru allar minjar innan þess svæðis friðlýstar. Sama dag skyndifriðaði Minjastofnun aukið svæði við Víkurgarð (8 m austur út frá austur-lóðarmörkum Víkurgarðs). Skyndifriðunin gildir í allt að sex vikur, eða til og með 18. febrúar.
Lesa má meira um friðlýsingu Víkurgarðs hér.
Nánar um skyndifriðanir hér.