Facebook icon Twitter icon Forward icon

Starfsmannamál

Rúnar Leifsson, minjavörður Norðurlands eystra, hefur sagt upp störfum og hefur staða hans verið auglýst laus til umsóknar. Umsóknarfrestur er til 1. febrúar, sjá nánar hér


Í desember fékk Minjastofnun styrk til fjarvinnsluverkefnis á Djúpavogi í gegnum stefnumótandi byggðaáætlun 2018-2020. Nú hefur verið auglýst starf í tengslum við þetta verkefni. Umsóknarfrestur er til 1. febrúar, sjá nánar hér

Ársskýrsla 2017

Ársskýrsla Minjastofnunar fyrir árið 2017 er komin út. Lokafrágangur á skýrslunni dróst talsvert vegna tafa sem urðu á frágangi fjárhagsuppgjöra er stöfuðu af breyttri meðhöndlun og framsetningu á bókhaldi og ársreikningum vegna nýrra laga um opinber fjármál. Skýrsluna má nálgast hér

Friðlýsingamál

Minjastofnun hefur kynnt áform sín um friðlýsingu búsetulandslags í Þjórsárdal. Um er að ræða friðlýsingu sem byggir á 18. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012. Nú þegar eru 22 bæjarstæði friðlýst í dalnum en tilgangur friðlýsingar alls búsetulandslags dalsins er m.a. að sameina undir eina friðlýsingu allar þær fornleifar í Þjórsárdal sem friðlýstar voru á þriðja tug 20. aldar, sem og allar þær aldursfriðuðu minjar sem í dalnum finnast, þekktar og óþekktar. Öllum er gefinn kostur á að koma með athugasemdir við áformin og er athugasemdafrestur til og með 10. febrúar. Ítargögn og nánari upplýsingar um málið má finna hér.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, undirritaði þann 27. nóvember 2018 friðlýsingu ljóskastarahúss við Urð á Seltjarnarnesi. Friðlýsingin tekur til hins steinsteypta mannvirkis í heild og hlaðins sökkuls umhverfis það. Mannvirkið er einstakt á Íslandi og mikilvæg heimild um hernámstímann og umsvif breska setuliðsins hér á landi. Meira má lesa um ljóskastarahúsið og friðlýsingu þess hér

Þann 8. janúar sl. undirritaði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, friðlýsingu Víkurgarðs í Reykjavík. Um er að ræða það svæði sem skilgreint er sem Víkurgarður á lóðaruppdrætti og eru allar minjar innan þess svæðis friðlýstar. Sama dag skyndifriðaði Minjastofnun aukið svæði við Víkurgarð (8 m austur út frá austur-lóðarmörkum Víkurgarðs). Skyndifriðunin gildir í allt að sex vikur, eða til og með 18. febrúar.
Lesa má meira um friðlýsingu Víkurgarðs hér
Nánar um skyndifriðanir hér

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir

29.01.2019