|
Framkvæmdir á aðalskrifstofu
Vegna óvæntra, umfangsmikilla framkvæmda á húsnæði Minjastofnunar í Reykjavík, Suðurgötu 39, verður einungis veitt lágmarksþjónusta á skrifstofunni á næstunni. Skrifstofan er þó opin á venjulegum tíma, kl. 9-12 og kl. 13-16 og við biðjum þá sem þurfa að koma á skrifstofuna til að sækja þjónustu um að sýna aðstæðum skilning og þolinmæði.
Hægt er að ná í alla starfsmenn Minjastofnunar í gegnum tölvupóst og síma. Upplýsingar um póstföng og símanúmer má finna hér.
|
|
Ársfundur Minjastofnunar Íslands 2019
Ársfundur Minjastofnunar Íslands verður haldinn fimmtudaginn 28. nóvember, kl. 9-12, á Hótel Sögu í Reykjavík. Nánari upplýsingar um dagskrá og skráningu á ársfundinn birtast á heimasíðu Minjastofnunar og Facebook síðu stofnunarinnar mánudaginn 18. nóvember.
|
|
Erlent samstarf
|
|
| |
Dagana 14.-16. október var haldinn fundur aðildarfélaga að verkefninu Adapt Northern Heritage (ANH) í Þrándheimi og fundur stjórnenda verkefnisins í Røros dagana 17.-18. okt. Fundinn sóttu fyrir hönd Minjastofnunar: Guðmundur St. Sigurðarson, minjavörður Norðurlands vestra og tengliður í verkefninu, Magnús A. Sigurðsson, minjavörður Vesturlands, og Uggi Ævarsson, minjavörður Suðurlands. Verkefnið snýr að aðlögun menningararfs á norðurslóðum að loftlagsbreytingum og er stýrt af Historic Environment Scotland en þátttakendur eru Minjastofnun Íslands, Riksantikvaren í Noregi og NIKU (Norsk institutt for kulturminneforskning), en auk þess eru fjöldi stofnana og félagasamtaka frá sjö þjóðlöndum aðilar að verkefninu og áttu fulltrúa á fundinum. Farið var yfir reynslu þátttakenda af notkun eyðublaða sem verið er að þróa til að leggja mat á minjastaði, ástand þeirra og þau áhrif sem þeir kunna að
verða fyrir vegna loftlagsbreytinga og tengdri nátturuvá. Nánar má lesa um verkefnið á heimasíðu þess og Facebook síðunni en verkefnið er einnig með Twitter reikning.
Ásta Hermannsdóttir, verkefnastjóri, sótti árlegan fund Menningarminjadaga Evrópu (European Heritage Days) í Strassborg dagana 16.-18. október. Meginviðfangsefni fundarins var umræða um menningarminjadaga ársins 2019, framkvæmd menningarminjadaganna árið 2020, kosning um ný þemu fyrir árin 2021, 2022 og 2023, European Heritage Stories (verkefni og verðlaunaafhending) og Menningarminjakeppni Evrópu (European Heritage Makers Week), umræða um breytt fyrirkomulag og afurðir síðustu tveggja ára.
Hér má sjá frétt um fundinn á heimasíðu Evrópuráðsins.
Dagana 9.-12. september var haldinn fundur í Færeyjum í vinnuhópi um líffræðilegan fjölbreytileika (NBM). Minjavarslan á sinn fulltrúa í þessum vinnuhópi og sat Þór Hjaltalín, sviðstjóri hjá Minjastofnun, fundinn fyrir Íslands hönd ásamt Ólafi A. Jónssyni frá Umhverfisstofnun og Agnesi Brá Birgisdóttur frá Vatnajökulsþjóðgarði. Markmið hópsins er að leitast við að vernda eða draga úr tapi á lífbreytileika ásamt því að stuðla að sjálfbærri nýtingu og vinna gegn skerðingu náttúru og menningarlandslags. Hópurinn var settur á laggirnar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar til að hrinda í framkvæmd Samstarfsáætlun Norðurlandanna í umhverfis- og loftslagsmálum 2019-2024, sem jafnframt er starfstími vinnuhópsins. Hópurinn beinir sjónum sérstaklega að kafla 5 í áætluninni þar sem fjallað er um líffræðilegan fjölbreytileika. Hópurinn styður við og leggur mat á styrkumsóknir í sjóði norrænu
ráðherranefndarinnar vegna verkefna sem stuðla að framkvæmd þeirra markmiða sem sett eru fram í samstarfsáætluninni um líffræðilegan fjölbreytileika og vernd náttúru- og menningarlandslags. Er um að ræða stuðning við ýmiskonar samstarfsverkefni sem Norðurlöndin eiga á þessu sviði. Frekari upplýsingar um starfsemi vinnuhópsins og verkefnastyrki má finna hér.
|
|
Málþing
Miðvikudaginn 25. september fór fram í Þjóðminjasafni Íslands málþing í minningu Gunnars Bjarnasonar húsasmíðameistara, en hann hefði orðið 70 ára í ágúst á þessu ári. Málþingið bar heitið „Forn vinnubrögð í tré og járn“ og var sjónum þar beint að fornum vinnubrögðum, líkt og heitið ber með sér, auk þess sem sagt var frá störfum Gunnars og myndum úr ævistarfi hans brugðið upp. Minjastofnun Íslands var einn stuðningsaðila málþingsins og flutti dr. Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar, opnunarávarp. Var málþingið geysi vel sótt og var salur Þjóðminjasafnsins sneisafullur.
Íslandsdeild ICOMOS efndi til málþings um verndun menningarminja í þéttbýli í Norræna húsinu þann 18. september sl. Þrír starfsmenn Minjastofnunar Íslands fluttu erindi á málþinginu. Meginumfjöllunarefni málþingsins voru fornleifarannsóknir í þéttbýli, sem í flestum tilfellum eru gerðar egna framkvæmda. Á málþinginu voru kynntir sáttmálar og samþykktir ICOMOS sem snerta verndun minja í þéttbýli. Í sex erindum var auk þess fjallað um ýmsa þætti sem fengist hefur reynsla af í framkvæmdarannsóknum, sem hafa aðallega verið í Reykjavík. Þar hafa á undanförnum árum farið fram umfangsmiklar framkvæmdarannsóknir sem varpa nýju ljósi á upphaf og þróun byggðar í Reykjavík. Tilgangur málþingsins var að efna til málefnalegrar umræðu um framkvæmdarannsóknir, eðli slíkra rannsókna, takmarkanir sem borgar- og bæjarumhverfi setur fornleifarannsóknum og þau tækifæri sem þær veita til miðlunar og
fræðslu.
|
|
Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir
Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir
15. nóvember 2019
|
|
|
|
|