Facebook icon Twitter icon Forward icon

Fréttabréf Minjastofnunar Íslands 2015:9

Friðlýsing hafnargarðsins

Mikill fréttaflutningur hefur verið af skyndifriðun og friðlýsingu hafnargarðsins á lóðinni Austurbakka 2 í Reykjavík. Vill stofnunin í því sambandi benda á að strax frá upphafi skyndifriðunar- og friðlýsingarferlisins var grunnhugsun Minjastofnunar sú að garðurinn væri merkilegur og varðveisluverður í því sambandi að vera hluti þeirra umfangsmiklu og mikilvægu framkvæmda sem hafnargerðin í Reykjavík var. Hafnargerðin í Reykjavík á árunum 1913-17 var á sínum tíma ein stærsta verklega framkvæmd sem ráðist hafði verið í hér á landi. Garðurinn á lóð Austurbakka 2 er hluti þessara umfangsmiklu framkvæmda. Hann afmarkaði Tryggvagötu til sjávar og meðfram honum lá hluti járnbrautarteina einu járnbrautarinnar sem lögð hefur verið á Íslandi. Árið 1928 var járnbrautin lögð af, teinarnir teknir upp og Tryggvagata breikkuð m.a. með því að færa garðinn sjö metra út í höfnina, þó án þess að breyta hlutverki hans eða útliti. Garðurinn var tekinn niður og færður stein fyrir stein líkt og gert hefur verið við timburhús um aldabil. Þrátt fyrir slíka flutninga húsa halda þau sinni aldursfriðun og minjagildi og gildir það sama um hafnargarðinn – gildi hans rýrnaði ekki við færsluna 1928. Garðurinn er þrátt fyrir hana enn minnisvarði um hafnargerð Reykjavíkur við upphaf 20. aldar. Hann er tilkomumikið og fallegt mannvirki, vitnisburður um samgöngusögu og þróun Reykjavíkur á svæði þar sem flestar fyrri tíðar minjar eru horfnar. Er mikilvægt að gildi mannvirkisins sé metið út frá þessu samhengi, frekar en að horfa til aldurs þess. Ef garðurinn hefði sannanlega verið eldri en 100 ára hefði ekki verið þörf á að ráðast í friðlýsingaferlið. Meira um hafnargarðinn, rökstuðning fyrir friðlýsingu o.fl. má finna hér.

Starfsmannamál

Umsóknarfrestur um starf minjavarðar Austurlands rann út 20. október sl. Átta umsóknir bárust um starfið og er verið að vinna úr þeim. Lista yfir umsækjendur má nálgast á heimasíðu Minjastofnunar.  Ákvörðunar um ráðningu í starfið má vænta fyrir 1. desember.

Ársfundur 4. desember

Ársfundur Minjastofnunar verður haldinn á Hótel Sögu, Kötlusal, föstudaginn 4. desember. Morgunverður hefst kl. 8:00 og dagskrá fundarins kl. 8:30. Stendur fundurinn til kl. 12. Þema fundarins verður hagsmunir eigenda friðlýstra menningarminja og samstarf þeirra og minjavörslunnar. Munu innlendir og erlendir aðilar halda erindi því tengd. Veitt verða minjaverndarverðlaun og endað á umræðum. Ítarleg dagskrá verður auglýst síðar. Nauðsynlegt er að skrá sig á fundinn og er skráning hafin (smellið hér).

Skráning stendur til og með fimmtudeginum 26. nóvember.

Funda- og ferðardagar 1. og 2. október

Fimmtudaginn 1. október og föstudaginn 2. október var Minjastofnun Íslands lokuð vegna funda og ferðar starfsmanna stofnunarinnar. Funduðu starfsmenn um ýmis málefni tengd stofnuninni en fengu einnig góðan og gagnlegan fyrirlestur um tímastjórnun frá Helgu Jóhönnu Oddsdóttur hjá Carpe Diem.
Farið var í ferð um Reykjanesið á föstudeginum og ýmsar menningarminjar skoðaðar. Byrjað var á að fara í kirkjuna á Kálfatjörn og tóku þar á móti starfsfólki Helga Ragnarsdóttir og Árni Magnússon. Voru hlaðan og gamla skólahúsið einnig skoðuð. Gengið var upp að Staðarborg sem er friðlýst fjárborg í hrauninu á milli Vatnsleysustrandarvegar og Reykjanesbrautar. Keyrt var í gegnum gamla bæjarhluta Keflavíkur þar sem Duushús, Fischershús og Gamla búð voru skoðuð í gegnum bílrúðuna. Farið var á Hafurbjarnastaði og gengið þar um. Á Hafurbjarnarstöðum er friðlýstur kumlateigur og fór þar fram fornleifarannsókn árið 1947. Komið var við í Höfnum og Kotvogur skoðaður auk víkingaaldarsvæðisins norðaustan kirkjunnar sem grafið hefur verið upp á síðustu árum af Fornleifafræðistofunni. Að lokum var haldið í Eldvörp þar sem gengið var að meintum útilegumannabyrgjum í hrauninu. Byrgin eru friðlýst og dreifast um nokkuð svæði í hraunjaðrinum. Höfðum við bæði gagn og gaman af ferðinni og þökkum þeim Helgu og Árna kærlega fyrir að taka á móti okkur á Kálfatjörn.

Erlent samstarf

Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri rannsókna-og miðlunarsviðs, fór á stjórnarfund EAC (European Archaeological Council) í Prag 9.-10. október sl. Á fundinum var rætt um útgáfu nýjustu leiðbeininga samtakanna EAC, Guidelines for the use of Geophysics in Archaeology, sem koma munu út á næstu dögum. Einnig hélt áfram undirbúningur fyrir næstu ráðstefnu samtakanna sem haldin verður í Brighton á Englandi í mars 2016. Þema ráðstefnunnar verður að þessu sinni „digitalizing cultural heritage“ eða menningarminjar í stafrænu umhverfi.


Þann 12.–13. október var haldinn aðalfundur Evrópsku menningarminjadaganna (EHD - European Heritage Days) í skrifstofum Evrópuráðsins í Strassborg. Fulltrúar flestra landa sem aðild eiga að Evrópuráðinu mættu til fundarins. Rúnar Leifsson, minjavörður Austurlands, var fulltrúi Minjastofnunar Íslands og er hann jafnframt hluti af stýrihópi EHD. Á fundinum var m.a. rædd stefna menningarminjadaganna til næstu ára og hvernig er hægt sé að lýðræðisvæða viðburðinn enn frekar. Er þá horft sérstaklega til Faro-sáttmálans og þeirrar áherslu sem þar er lögð á grasrót einstaklinga og hópa sem áhuga hafa á menningarminjum. Einnig var skoðað hvernig best sé að stuðla að tenginu viðburða og hópa þvert á landamæri innan álfunnar.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðaraðili: Kristín Huld Sigurðardóttir