Facebook icon Twitter icon Forward icon

Úthlutun úr fornminjasjóði

Úthlutað hefur verið úr fornminjasjóði fyrir árið 2020. Alls fá 16 verkefni styrk að þessu sinni. Umsóknir voru 60 talsins og teljast 49 þeirra styrkhæfar eða 82 % umsókna. Þrjú verkefni fengu hæstu einkunn, þau voru öll undir 5 milljónum sem er hámarksupphæð úthlutunar og eru því styrkt að fullu. 18 verkefni hlutu næsthæstu einkunn og varð því að velja úr þeim umsóknum samkvæmt forgangsröðun sjóðsins og hlutu 13 þeirra styrk að þessu sinni fyrir allt að 80 % af heildarkostnaði verkefnis en að hámarki 3,5 milljónir kr. Nánari útlistun á styrkveitingum má finna hér

Frestun á úthlutun úr húsafriðunarsjóði

Fundi húsafriðunarnefndar sem fara átti fram í þessari viku (9. – 13. mars) var frestað. Á fundinum átti að ganga frá mati á umsóknum í húsafriðunarsjóð. Ástæða frestunarinnar er tvíþætt: annars vegar vegna neyðarstigs almannavarna sem lýst hefur verið yfir vegna útbreiðslu COVIC-19 og viðbragða Minjastofnunar þar að lútandi og hins vegar vegna þess að Fjársýsla ríkisins hefur ekki staðfest úthlutunarupphæð sjóðsins fyrir árið 2020.
Af þessum sökum verður seinkun á því að niðurstöður úthlutunar verði kynntar umsækjendum. Biðjumst við velvirðingar á þessum töfum og vonum að umsækjendur sýni þeim skilning.

Aðgerðir vegna neyðarstigs almannavarna

Vegna yfirlýsts neyðarstigs almannavarna í tengslum við útbreiðslu COVID-19 í heiminum og staðfest smit á Íslandi hefur Minjastofnun gripið til ýmissa aðgerða. Er það gert til að minnka líkurnar á smiti starfsmanna og í því augnamiði að halda starfsemi stofnunarinnar eins lítið skertri og mögulegt er á þessum sérstöku tímum. Nánar má lesa um aðgerðir stofnunarinnar hér.

Minjar mánaðarins

Í hverjum mánuði birtir Minjastofnun umfjöllun um minjar mánaðarins á heimasíðu sinni, Facebook og Instagram (@minjastofnunislands). Minjarnar eru valdar af starfsfólki stofnunarinnar en markmiðið með birtingunni er að vekja athygli almennings á þeim fjölbreyttu og merkilegu menningarminjum sem er að finna á Íslandi. Reynt er að velja minjar sem eru ofarlega á baugi, eða tengjast efni sem er ofarlega á baugi, í samfélaginu hverju sinni. Minjar febrúarmánaðar voru minjastaðurinn við Þerneyjarsund en þar er áætlað að fara í miklar framkvæmdir. Á svæðinu má finna fjölda fornleifa sem m.a. tengjast búsetu á svæðinu auk þess sem kaupstaður mun hafa verið við Þerneyjarsund á miðöldum. Ljóst er að umhverfi Þerneyjarsunds er einstakt og enn sem komið er óraskað minjasvæði sem mikilvægt er að varðveita í heild sinni.
Nánar má lesa um minjar mánaðarins hér. 

Úthlutun af Landsáætlun um uppbyggingu innviða

Mánudaginn 9. mars var gerð grein fyrir úthlutun fjármuna til uppbyggingar innviða í gegnum Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og Landsáætlun um uppbyggingu innviða. Kynnt var ný Landsáætlun fyrir árið 2020-2022 og fékk Minjastofnun á þeirri áætlun fjármagn til tveggja nýrra verkefna auk þess sem fjármagn fékkst til nokkurra eldri verkefna. Þær fjárveitingar voru af tvennum toga: annað hvort viðbótarfjármagn til eldri verkþátta sem reyndust kostnaðarsamari en gert var ráð fyrir í upphafi eða fjármagn til nýrra verkþátta á stöðum sem stofnunin hefur áður fengið fjármagn til. Nánar má lesa um úthlutunina á heimasíðu Umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

Ný verndarsvæði í byggð staðfest

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur staðfest tillögur að fimm nýjum verndarsvæðum í byggð: Vesturhluti Víkur í Mýrdal, Gamli bærinn á Sauðárkróki, Plássið og Sandurinn á Hofsósi, Framdalur Skorradals og Þórkötlustaðahverfi í Grindavík. Verndarsvæði í byggð eru því orðin tíu talsins á landinu öllu. Nánar má lesa um verndarsvæði í byggð hér