Facebook icon Twitter icon Forward icon

Fréttabréf Minjastofnunar Íslands 2015:7

Minjastofnun á ferð um landið

Í sumar hefur starfsfólk Minjastofnunar verið á ferð og flugi um landið. Er tilgangur ferðalaganna að heimsækja þá staði sem stofnunin hlaut styrk til að vinna verkefni á í tengslum við brýna uppbyggingu og verndaraðgerðir á ferðamannastöðum. Hafa starfsmenn úr höfuðstöðvum farið vítt og breitt um landið og hitt fyrir minjaverði á heimaslóðum hvers og eins. Föstudaginn 26. júní var farið um Vesturland þar sem Reykholt og Gufuskálar voru sótt heim. Þriðjudaginn 30. júní var lagt upp í fjögurra daga hringferð um landið þar sem tíu staðir voru heimsóttir, fyrsta stopp var Seljavallalaug undir Eyjafjöllum og síðasta stopp var Borgarvirki í Húnaþingi vestra. Þriðjudaginn 7. og miðvikudaginn 8. júlí var farið á Vestfirðina þar sem þrír staðir voru skoðaðir: Vatnsfjörður, Hringsdalur og Flókatóftir við Brjánslæk. Miðvikudaginn 5. ágúst var farið austur í Hvannalindir þar sem starfsfólk Þjóðgarðsins Vatnajökuls leiddi starfsfólk Minjastofnunar um svæðið. Var alls staðar tekið vel á móti okkar fólki og voru margir góðir fundir haldnir með landeigendum, sveitarstjórnarfólki og öðrum tengdum aðilum. Viljum við þakka öllum þeim sem gáfu sér tíma til að hitta okkur og ræða málin kærlega fyrir.
Vinna við að koma verkefnunum af stað er í fullum gangi og hefur nú þegar verið samið um vinnu á nokkrum verkefnum eða verkefnishlutum. Verkefnin skiptast gróflega í hönnunar- og skipulagsverkefni og framkvæmdaverkefni og eru mjög ólík þótt þau stuðli öll að bættu aðgengi og öryggi fólks og minja á stöðunum sem um ræðir.
Upplýsingar um verkefnin verða settar inn á http://www.minjastofnun.is/minjar/ataksverkefni-i-minjavernd/ eftir föngum.

Ný lög um verndarsvæði í byggð

Þann 2. júlí voru samþykkt ný lög frá Alþingi um verndarsvæði í byggð (nr. 87/2015). Slík lagasetning er nýnæmi á Íslandi og er þetta því stórt skref í átt að verndun byggðarheilda, ekki síst í þéttbýli. Markmið laganna er að „stuðla að vernd og varðveislu byggðar sem hefur sögulegt gildi“. Við varðveislumat skal tekið tillit til svipmóts, menningarsögu og listræns gildis.
Lög um verndarsvæði sem þessi byggja á breskri fyrirmynd. Verndarsvæðin hafa mikið aðdráttarafl fyrir gesti en ekki síður heimamenn. Er ljóst að lögin eru stórt skref fram á við í minjavernd á Íslandi og er vonast til þess að þau hafi sömu jákvæðu áhrifin og reynsla er af á Bretlandseyjum.
Lögin í heild má nálgast á http://www.althingi.is/altext/144/s/1605.html

Nýjar friðlýsingar

Þann 11. júlí staðfesti forsætisráðherra tillögu Minjastofnunar að heildarfriðlýsingu Hvanneyrar í Borgarfirði, þ.e. Hvanneyrartorfunnar svokölluðu. Frumkvæðið að friðlýsingunni kemur frá heimamönnum og tók friðlýsingarferlið rúmt ár.
Friðlýsingin nær yfir bæði fornleifar og hús á svæðinu, en elsta húsið í torfunni var reist árið 1896. Bændaskóli var stofnaður á Hvanneyri árið 1889 og tengjast hús og fornleifar á svæðinu skólastarfinu. Eru húsin sem undir friðlýsinguna falla níu talsins.
Friðlýsingin markar tímamót í sögu hús- og minjaverndar á Íslandi þar sem slík heild húsa og fornleifa hefur aldrei áður verið friðlýst.
Rökstuðning friðlýsingarinnar má lesa á http://www.minjastofnun.is/um-stofnunina/frettir/nr/1331

Fundur þjóðminjavarða Norðurlanda

Dagana 17.-19. ágúst sóttu, fyrir hönd Íslands, Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar, Þór Hjaltalín, minjavörður Norðurlands vestra og sviðsstjóri minjavarðarsviðs, og Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, fund þjóðminjavarða Norðurlanda sem haldinn var á Borgundarhólmi í Danmörku. Á fundum þjóðminjavarða er fjallað almennt um starfsemi embættanna og það sem er efst a baugi í hverju landi.
Embættin hafa í gegnum tíðina unnið sameiginlega að ýmsum verkefnum. Meðal þeirra er eitt sem staðið hefur yfir í nokkur ár um áhrif loftslagsbreytinga og veðurs á minjar. Til stendur að þróa það verkefni með áframhaldandi vinnu. Á fundinum var rætt um heimsminjar og starf heimsminjanefndar UNSECO, en Finnar hafa setið í heimsminjanefndinni undanfarin ár. Önnur áhugaverð umræðuefni voru t.a.m. hvernig minjaverndinni er stýrt í hverju landi fyrir sig og hve langt skal gengið í leyfisveitingum til að breyta friðlýstum byggingum. Svíar buðu til næsta ársfundar þjóðminjavarðanna. Hann verður haldinn á Gotlandi í ágúst 2016.

Umsóknarfrestur í sjóði

Margar af þeim símhringingum sem berast Minjastofnun snúast um sjóðina tvo sem Minjastofnun úthlutar styrkjum úr, húsafriðunarsjóð og fornminjasjóð, og upplýsingar um umsóknarfresti í þá. Að gefnu tilefni vill stofnunin því auglýsa hér að úthlutað er úr sjóðunum einu sinni á ári og er umsóknarfrestur að jafnaði til 1. desember fyrir húsafriðunarsjóð og til 5. janúar fyrir fornminjasjóð. Umsóknarfrestur fyrir úthlutun 2016 verður því til 1. desember 2015 fyrir húsafriðunarsjóð og 5. janúar 2016 fyrir fornminjasjóð. Umsóknareyðublöð eru aðgengileg á heimasíðu Minjastofnunar að jafnaði frá 15. október fyrir húsafriðunarsjóð og byrjun nóvember fyrir fornminjasjóð.
Ýmsar upplýsingar um sjóðina má finna á http://www.minjastofnun.is/sjodir/

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðaraðili: Kristín Huld Sigurðardóttir