Facebook icon Twitter icon Forward icon

Stefnumótunarvinna

Vinna við mótun stefnu í vernd fornleifa og byggingararfs og fornleifarannsóknum er enn í fullum gangi. Haldnir hafa verið fimmtán rýnifundir um ýmis málefni tengd stefnumótunarvinnunni og tekin hafa verið einstaklingsviðtöl við hátt í tuttugu manns. Næsta skref í vinnunni hefur verið stigið en það var að setja í loftið netkönnun. Könnunin er opin til 10. júní og hvetjum við alla áhugasama til að svara henni. Með góðri svörun og dreifingu könnunarinnar fáum við ómetanleg gögn til að nýta í vinnunni. Eftir að netkönnuninni lýkur sér fyrir endann á greiningarhluta vinnunnar og mun þá í kjölfarið hefjast úrvinnsla og hin eiginlega stefnumótunarvinna.
Hér má finna könnunina

Skipun húsafriðunarnefndar

Ný húsafriðunarnefnd hefur verið skipuð af mennta- og menningarmálaráðherra til fjögurra ára (2021-2025). Nefndina skipa að þessu sinni:


• Arnhildur Pálmadóttir formaður, skipuð án tilnefningar
• Ágúst Hafsteinsson varaformaður, skipaður án tilnefningar
• Sigbjörn Kjartansson tilnefndur af Arkitektafélagi Íslands,
• Magnús Karel Hannesson tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga,
• Helga Maureen Gylfadóttir tilnefnd sameiginlega af ICOMOS, ICOM og FÍSOS

• Varamenn eru:
• Hanna Rósa Sveinsdóttir skipuð án tilnefningar
• Guðmundur Þór Guðmundsson skipaður án tilnefningar
• Gunnþóra Guðmundsdóttir tilnefnd af Arkitektafélagi Íslands
• Margrét Þormar tilnefnd af Sambandi Íslenskra sveitarfélaga
• Örlygur Kristfinnsson tilnefndur sameiginlega af ICOMOS, ICOM og FÍSOS

 

Húsafriðunarnefnd er Minjastofnun til ráðgjafar um ýmis mál og hefur m.a. það hlutverk að fjalla um mál er varða friðlýsingar byggingararfs og veita umsögn um umsóknir í húsafriðunarsjóð.

Listi yfir fornleifaskráningarskýrslur

Opnuð hefur verið síða þar sem nálgast má lista yfir allar fornleifaskráningarskýrslur sem eru á skrá hjá Minjastofnun. PDF merki fyrir aftan skýrsluheiti auðkennir hvort skýrslan er til rafræn eða ekki. Vefsíðuna má nálgast hér.

Miðlun

Þuríður Elísa Harðardóttir, minjavörður Austurlands, flutti laugardaginn 29. maí fyrirlestur um þróun minjaverndar og áskoranir hennar til framtíðar á Landsbyggðarráðstefnu Félags þjóðfræðinga sem haldin var á Egilsstöðum. Var fyrirlesturinn hluti af seinna málþingi ráðstefnunnar sem nefndist Manneskjan, menningararfur og miðlun.

Í maí barst Minjastofnun Íslands tilkynning um að minjar hefðu fundist við framkvæmdir á Höfn í Hornafirði. Slík mál ber að tilkynna stofnuninni. Við þökkum húseiganda kærlega fyrir að brugðist rétt við og tilkynnt fundinn til stofnunarinnar en í kjölfarið gátu sérfræðingar stofnunarinnar metið næstu skref í málinu. Í meðfylgjandi kynningarmyndbandi má sjá hvernig brugðist er við slíkum málum og þeirri atburðarrás sem á sér stað en hver niðurstaða slíkra mála fer vissulega eftir eðli fundarins.Hér má sjá myndbandið.

Menningarminjadagar Evrópu 2021

Menningarminjadagar Evrópu verða haldnir hátíðlegir um alla Evrópu í september, líkt og fyrri ár. Þema ársins 2021 er „Heritage – All Inclusive“ - Allir með! Nánar má lesa um þemað hér og hér má nálgast bækling um þemað og hugmyndir að viðburðum ásamt fleiru.

Minjastofnun hvetur áhugasama aðila til að kynna sér efnið og kanna möguleikann á því að taka þátt í menningarminjadögunum 2021 með því að vera með viðburð/viðburði í tengslum við þemað vikuna 30. ágúst – 5. september. Viðburðir þurfa að vera öllum opnir og aðgangur ókeypis.

Markmið menningarminjadaganna eru:
• Vitundarvakning á meðal íbúa Evrópu um þá auðlegð og þann menningarlega fjölbreytileika sem fyrirfinnst í Evrópu
• Skapa andrúmsloft þar sem hvatt er til aukins skilnings á hinum mikla menningarlega fjölbreytileika sem Evrópa býr yfir
• Vinna gegn rasisma og útlendingahatri og ýta undir umburðarlyndi í Evrópu - þvert á landamæri
• Fræða almenning og stjórnvöld um mikilvægi þess að vernda menningararfinn gegn nýjum hættum
• Bjóða Evrópu að bregðast við þeim félagslegu, pólitísku og efnahagslegu breytingum sem hún stendur frammi fyrir.

Minjastofnun Íslands heldur utan um menningarminjadagana á Íslandi og er hægt að skrá viðburði á dagskrána eða óska eftir frekari upplýsingum með því að hafa samband á póstfangið asta@minjastofnun.is.


Hér er hægt að nálgast upplýsingar um menningarminjadaga síðustu ára sem og upplýsingar um menningarminjadagana 2021.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir

4. júní 2021