Facebook icon Twitter icon Forward icon

Friðlýsing menningarlandslags í Þjórsárdal

Miðvikudaginn 14. október undirritaði mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, friðlýsingu menningarlandslags í Þjórsárdal. Aldrei áður hefur jafnstórt landsvæði verið friðlýst skv. lögum um menningarminjar nr. 80/2012. Upphaflega átti undirritunin að fara fram við hátíðlega athöfn í Þjórsárdalnum sjálfum en vegna sóttvarnarráðstafana í samfélaginu fór hátíðin fram með stafrænum hætti á Zoom. Nánari upplýsingar um friðlýsinguna má finna hér.

Hér má finna frétt stjórnarráðsins um friðlýsinguna.

Húsafriðunarsjóður

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í húsafriðunarsjóð vegna úthlutunar 2021. Umsóknarfrestur er til og með 1. desember 2020. Umsóknareyðublöð og úthlutunarreglur má finna hér.

Ársskýrsla 2019

Ársskýrsla Minjastofnunar Íslands fyrir árið 2019 er komin út. Skýrsluna má finna hér.

Mannauðsmál

Þann 10. október rann út umsóknarfrestur vegna starfs minjavarðar Reykjavíkur og nágrennis. Alls bárust níu umsóknir um stöðuna og verið er að vinna úr þeim.

Vinna við heildarstefnu

Samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012 ber Minjastofnun Íslands að gera tillögu til ráðherra um heildarstefnu og langtímaáætlun um verndum og varðveislu menningarminja. Hófst vinna við gerð stefnunnar í sumarbyrjun 2019 og var skipaður um vinnuna stýrihópur auk þess sem ráðgjafar voru ráðnir til að stýra vinnunni. Stýrihópinn skipa tíu aðilar frá öllum helstu menningarstofnunum ríkisins, þ.m.t. höfuðsöfnunum þremur og mennta- og menningarmálaráðuneyti. Þann 7. október sl. voru drög að stefnunni kynnt mennta- og menningarmálaráðherra og er nú verið að vinna að því að leggja lokahönd á stefnuskjal sem kynnt verður innan næsta mánaðar. Í kjölfarið mun fara af stað vinna við mótun aðgerðaáætlunar, en slík áætlun er nauðsynleg hverri góðri stefnumótun til að drífa áfram þau verkefni sem nauðsynlegt er að fara í til að vinna að markmiðum stefnunnar. Stefnt er að því að halda ráðstefnu til að kynna stefnuna og verður hún mögulega á stafrænu formi vegna aðstæðna í samfélaginu. Ráðstefnan verður auglýst betur síðar.

16. október 2020

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir