Facebook icon Twitter icon Forward icon

Starfsmannamál

Margrét Valmundsdóttir, fornleifafræðingur, hefur verið ráðin í átaksverkefni við kortlagningu menningarminja.


Ómar Valur Jónasson, fornleifafræðingur, hefur verið ráðinn í átaksverkefni við söfnun og yfirferð eldri fornleifaskráningarskýrslna, innsetningu gagna í minjavefsjá o.fl.


Um mánaðarmótin september/október mun Hanna Jóhannsdóttir, ritari, láta af störfum hjá stofnuninni eftir átta ára starf. Hönnu verður sárt saknað. Henni er óskað velfarnaðar með ný verkefni og þakkað fyrir góð störf.


Í byrjun september var auglýst staða skrifstofumanns/aðstoðarmanns fjármálastjóra hjá stofnuninni. Umsóknarfrestur rann út 15. september síðastliðinn og bárust 39 umsóknir um starfið. Unnið er að úrvinnslu umsókna.


Auglýst hefur verið laus til umsóknar staða minjavarðar Reykjavíkur og nágrennis. Leitað er eftir einstaklingi með háskólapróf á sviði arkitektúrs/byggingalistar. Umsóknarfrestur er til og með 10. október. Auglýsinguna má sjá hér

Sumarstarfsmenn

Í sumar var Minjastofnun svo heppin að fá til liðs við sig þrælduglega háskólanema sem hjálpuðu okkur með verkefni sem tengjast lögfræði og miðlun. Nemarnir voru ráðnir í gegnum atvinnuátak Vinnumálastofnunar fyrir háskólanema. Guðný Vilmundardóttir, sem er í framhaldsnámi í lögfræði í HR, fékkst við gerð sniðmáta vegna svörunar erinda sem berast stofnuninni, lagatúlkanir og samanburð á minjalögum og ýmsum lögum sem skarast á við þau, ásamt fleiru. Arna Inga Arnórsdóttir og Jakob Hermannsson eru nemar við Listaháskólann. Arna Inga, sem leggur stund á nám í fatahönnun, skapaði litabók um menningarminjar og minjastaði sem finna má á heimasíðu og Facebook síðu Minjastofnunar og verður prentuð í litlu upplagi. Jakob, sem leggur stund á nám í grafískri hönnun, bjó m.a. til stutt myndbönd með upplýsingum sem minjavarslan vill koma á framfæri. Voru myndböndin öll birt á Facebook síðu Minjastofnunar og eru einnig aðgengileg á heimasíðu. Allt efnið má sjá hér.

Leiðarvísir um viðbragðsáætlanir friðlýstra kirkna

Í kjölfar eldsvoðans í Notre Dame dómkirkjunni í París ákvað Minjastofnun Íslands að láta vinna  leiðbeiningar um gerð viðbragðsáætlana við vá í friðlýstum kirkjum. Nathalie Jacqueminet forvörður var fengin til verksins og hefur hún annast ritstjórn, textagerð og uppsetningu leiðarvísisins. Tilgangur leiðbeininganna er að hjálpa ábyrgðaraðilum kirkna að vera betur í stakk búnir til að bjarga menningarverðmætum þegar vá skellur á. Aðgerðir og leiðbeiningar snúa að öryggi kirkjubyggingarinnar sem slíkrar og þeirra gripa sem hún geymir en taka ekki til öryggis kirkjugesta. Árið 2018 gaf Minjastofnun út minnisblað um brunavarnir í friðlýstum kirkjum í samvinnu við Mannvirkjastofnun sem má nálgast á heimasíðu Minjastofnunar. Vinnsla leiðbeininga um gerð viðbragðsáætlana er á lokastigi og verða þær gefnar út í vetrarbyrjun.

Uppbygging innviða á ferðamannastöðum

Minjastofnun hefur á síðust árum fengið fjármagn til verkefna á Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Sum verkefnin eru framhald verkefna sem áður voru hafin fyrir fjármagn úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, en önnur er ný. Verkefnin dreifast um allt land og eru ólík að viðfangi og umfangi. Dæmi um verkefni sem lokið hefur verið við eru skilti og afmörkun við Djáknadys í Hamarsfirði, lagfæringar á umhverfi Snorralaugar í Reykholti, umfangsmiklar lagfæringar og aðkoma að Rútshelli undir Eyjafjöllum og lagfæringar á friðlýstum hleðslum í Borgarvirki (sem er hluti af stærri framkvæmd í tengslum við aðgengi í og að virkinu). Mörg verkefni eru í vinnslu þessi misserin og munu klárast á næstu mánuðum. Minjastofnun leggur í framkvæmdaverkefnum áherslu á að fá verktaka af viðkomandi svæði sé þess nokkur kostur, að vandað sé til verka og gengið vel frá stöðunum að framkvæmdum loknum. Stofnunin hefur um nokkurt skeið unnið að útfærslum skilta fyrir minjastaði og er nú komið í notkun samræmt útlit á skiltum, stórum og litlum, sem sett verða upp á minjastöðum.

Menningarminjadagar Evrópu 2020

Vegna þeirrar fordæmalausu stöðu sem upp er komin í samfélaginu vegna heimsfaraldurs Covid 19 og sóttvarnarráðstafana hans vegna var ekki hægt að halda Menningarminjadaga Evrópu á Íslandi með hefðbundnu sniði þetta árið. Menningarminjadagarnir áttu að fara fram hér á landi vikuna 21.-28. ágúst en skiljanlega héldu viðburðahaldarar að sér höndum vegna ástandsins og þess flækjustigs sem óhjákvæmlegt er þegar skipuleggja á viðburði á óvissutímum sem þessum. Því var ákveðið að hafa enga opna viðburði í tengslum við Menningarminjadagana í ár heldur nýta það frábæra efni sem lá eftir sumarstarfsmenn Minjastofnunar og kynna menningarminjar á stafrænu formi þessa viku. Notaðar voru Facebook síður Minjastofnunar og Menningarminjadaga Evrópu á Íslandi og virðast færslurnar hafa fallið í góðan jarðveg hjá fylgjendum síðanna og fengu margar þeirra mikla dreifingu utan þeirra.
Öllum hlutaðeigandi aðilum þótti leitt að ekki væri hægt að hafa viðameiri dagskrá í ár, en í ljósi aðstæðna var það ekki talið skynsamlegt. Við vonumst til þess að geta haldið öfluga Menningarminjadaga á næsta ári með hefðbundnum opnum viðburðum.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðaraðili: Kristín Huld Sigurðardóttir

25. september 2020