Þann 16. apríl síðastliðinn fór fram námsstefnan Leikum okkur að menningararfinum en hún var haldin í tengslum við Evrópuverkefnið CINE sem Minjastofnun Íslands er aukaaðili að. Þrír starfsmenn stofnunarinnar sóttu námsstefnuna. Námsstefnan sneri að því að kynna hvernig hægt er að nýta tæknina til að miðla menningararfinum áfram. Fyrir hádegi voru haldnir fyrirlestrar og eftir hádegi voru vinnustofur þar sem þátttakendum gafst tækifæri á að prófa hinar ýmsu nýjungar til miðlunar auk þess að ræða saman um samstarf tæknigeirans og þeirra sem starfa við menningararfinn.
Helgina eftir, dagana 17.-18. apríl, voru haldnir vinnufundir í tengslum við CINE verkefnið í Fljótsdal fyrir austan og sótti Þuríður Elísa Harðardóttir, minjavörður Austurlands, þá fyrir hönd stofnunarinnar. Var þar farið yfir stöðu verkefnisins auk kynninga á þeim forritum sem hafa verið í vinnslu í tengslum við það. Einnig var farið í fræðsluferðir með þátttakendur um nærsvæði Skriðdals, þar á meðal um Skriðuklaustur og klausturminjarnar.