Facebook icon Twitter icon Forward icon

Úthlutun úr sjóðum

Úthlutað var úr húsafriðunarsjóði 16. mars og voru í ár veittir 215 styrkir að upphæð samtals 340.720.000 kr. Nánari upplýsingar um úthlutunina má finna hér


Úthlutað var úr fornminjasjóði 4. apríl og voru í ár veittir 20 styrkir að upphæð samtals 45.670.000 kr. Nánari upplýsingar um úthlutunina má finna hér.

Yfirlit rannsókna 2016

Yfirlit um fornleifarannsóknir sem höfðu jarðrask í för með sér árið 2016 er komið út. Yfirlitið má nálgast á heimasíðu Minjastofnunar Íslands

Starfsmannamál

Guðlaug Vilbogadóttir og Ásta Hermannsdóttir, verkefnastjórar, eru komnar aftur úr veikindaleyfi. Sólrún Inga Traustadóttir sem ráðin var tímabundið í afleysingar hefur látið af störfum. Vill stofnunin þakka henni góða viðkynningu og vel unnin störf.

Hleðslunámskeið

Í byrjun apríl tóku átta starfsmenn Minjastofnunar þátt í námskeiðinu Torf- og grjóthleðslur á ferðamannastöðum sem haldið var á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum í Ölfusi í samstarfi við ASCENT verkefni Landgræðslu ríkisins. Kennarar á námskeiðinu voru hleðslumeistararnir Guðjón Kristinsson og Gunnar Óli Guðjónsson, Hjörleifur Stefánsson arkitekt og Örn Þór Halldórsson arkitekt hjá Landgræðslunni. Í fyrirlestrum þeirra var fjallað um hönnun og viðhald ferðamannastaða með náttúrulegum efnum úr nærumhverfinu og handverksþekkingu fortíðar en einnig um stefnumótun við uppbyggingu ferðamannastaða út frá sjónarmiðum um aðgengi og upplifun, náttúruvernd og minjavörslu. Stór hluti námskeiðsins var verklegur og reyndi þá bæði á líkamlegan styrk þátttakenda og skapandi hugsun.

Menningararfsár Evrópu

Menningararfsár Evrópu 2018 er í fullum gangi um alla álfuna og fer dagskrá ársins hér á landi á skrið í maí. Nú þegar hafa verið haldnir viðburðir víða um land í tilefni ársins en flestir viðburðirnir fara þó fram í sumar og haust. Hægt er að nálgast dagskrá Menningarfsársins á Íslandi hér.

Við mælum einnig með Facebook síðu ársins á Íslandi, en þar er upplýsingum um alla viðburði deilt sem og öðru áhugaverðu efni í tengslum við árið.

Erlent samstarf

Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri rannsókna- og miðlunarsviðs, og Þór Hjaltalín, sviðsstjóri minjavarðasviðs, fóru dagana 21.-24. mars til Sofia í Búlgaríu til að sitja stjórnar- og aðalfundi og ráðstefnu EAC (European Archaeological Council). Var þetta síðasti stjórnarfundur Agnesar en Þór var kjörinn í stjórn á aðalfundi samtakanna sem haldinn var í kjölfar stjórnarfundarins. Agnes hafði við stjórnarskiptin setið í stjórn EAC fyrir hönd Íslands í sex ár. Efni ráðstefnunnar var Framkvæmdarannsóknir í Evrópu (Development-led archaeology in Eyrope). Þar héldu fulltrúar fornleifafræðinga, framkvæmdaaðila og almennings erindi og ræddu ólík sjónarmið. Sá Agnes um skipulagningu ráðstefnunnar.

Dagana 13.-16. mars fór Guðmundur St. Sigurðarson, minjavörður Norðurlands vestra, á fund í verkefninu Aðlögun menningararfs á norðurslóðum (ANHP). Fundað var í Inveraray í Argyll og Bute sýslu í Skotlandi og haldinn íbúafundur þar í bænum til kynningar á verkefninu. Bærinn Inveraray er einn af prufustöðunum sem eru til skoðunar í verkefninu, lítill bær frá 18. öld sem er jafnframt verndarsvæði í byggð.
Nánari upplýsingar um verkefnið og hina prufustaðina er að finna hér.
 

CINE námsstefna og fundur

Þann 16. apríl síðastliðinn fór fram námsstefnan Leikum okkur að menningararfinum en hún var haldin í tengslum við Evrópuverkefnið CINE sem Minjastofnun Íslands er aukaaðili að. Þrír starfsmenn stofnunarinnar sóttu námsstefnuna. Námsstefnan sneri að því að kynna hvernig hægt er að nýta tæknina til að miðla menningararfinum áfram. Fyrir hádegi voru haldnir fyrirlestrar og eftir hádegi voru vinnustofur þar sem þátttakendum gafst tækifæri á að prófa hinar ýmsu nýjungar til miðlunar auk þess að ræða saman um samstarf tæknigeirans og þeirra sem starfa við menningararfinn.

Helgina eftir, dagana 17.-18. apríl, voru haldnir vinnufundir í tengslum við CINE verkefnið í Fljótsdal fyrir austan og sótti Þuríður Elísa Harðardóttir, minjavörður Austurlands, þá fyrir hönd stofnunarinnar. Var þar farið yfir stöðu verkefnisins auk kynninga á þeim forritum sem hafa verið í vinnslu í tengslum við það. Einnig var farið í fræðsluferðir með þátttakendur um nærsvæði Skriðdals, þar á meðal um Skriðuklaustur og klausturminjarnar.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir

Útgáfudagur: 3. maí 2018