Facebook icon Twitter icon Forward icon

Starfsmannamál

Í lok janúar voru auglýst tvö störf laus til umsóknar hjá Minjastofnun Íslands: starf minjavarðar Norðurlands eystra og starf við fjarvinnslu á Djúpavogi. Um starf minjavarðar Norðurlands eystra bárust sjö umsóknir og um starf við fjarvinnslu á Djúpavogi bárust þrjár umsóknir. Í starf minjavarðar var ráðin Sædís Gunnarsdóttir, fornleifafræðingur, og í starf við fjarvinnslu á Djúpavogi var ráðin Hera Líf Liljudóttir.


Þann 1. apríl sl. lét Rúnar Leifsson, minjavörður Norðurlands eystra, af störfum og sigldi á ný mið, en hann hefur tekið við stöðu sérfræðings í Mennta- og menningarmálaráðuneyti. Þakkar Minjastofnun Rúnari innilega fyrir samstarfið á síðustu árum og óskar honum velfarnaðar í nýju starfi.

Þann 1. maí hóf nýr minjavörður Norðurlands eystra störf, áðurnefnd Sædís Gunnarsdóttir. Sædís er staðsett í Borgum á Akureyri, líkt og forveri hennar, og dvaldi hún vikuna 13.-17. maí í Reykjavík til að kynnast hinum ýmsu þáttum í starfsemi Minjastofnunar.

Heildarstefna um verndun og varðveislu menningarminja

Ákveðið hefur verið að setja af stað vinnu við stefnumótun um verndun og varðveislu menningarminja á Íslandi í samræmi við 7. gr laga um menningarminjar nr. 80/2012. Minjastofnun heldur utan um verkefnið en auk þess hefur sérstakur stýrihópur verið settur saman. Stýrihópurinn er skipaður fulltrúa Minjastofnunar auk fulltrúum frá Listasafni Íslands, Þjóðminjasafni Íslands, Náttúruminjasafni Íslands, Þjóðskjalasafni Íslands, Kvikmyndasafni Íslands, Landsbókasafni – Háskólabókasafni og Stofnun Árna Magnússonar. Ráðgjafar frá Capacent munu að auki vinna með hópnum.
Vinna við gerð stefnunnar er hafin og er búist við því að henni verði lokið um miðjan október eða svo. Hér er um að ræða afar spennandi og mikilvægt verkefni sem snertir marga hópa og í raun allt samfélagið.

Menningarminjadagar Evrópu

Minjastofnun Íslands sér um skipulagningu Menningarminjadaganna (European Heritage Days) á Íslandi, en þeir eru samevrópsk hátíð sem Evrópuráðið stendur í grunninn fyrir. Menningarminjadagarnir verða haldnir hér á landi helgina 30. ágúst - 1. september og er þema ársins "Listir og leikir" eða "Arts and Entertainment". Þurfa viðburðir Menningarminjadagana að falla undir þemað með einum eða öðrum hætti.
Minjastofnun auglýsir eftir viðburðum á dagskrá Menningarminjadaganna. Viðburðirnir þurfa  að uppfylla markmið Menningarminjadaganna um að setja menningarminjar á oddinn og huga að evrópskri tengingu, en einnig verða þeir að taka mið af þema ársins "Listir og leikir". Sjá nánar hér.

Menningarminjakeppni Evrópu

Minjastofnun stóð annað árið í röð fyrir Menningarminjakeppni Evrópu á Íslandi. Menningarminjakeppnin er tengd European Heritage Makers Week sem Evrópuráðið stendur fyrir og gengur út á að fá börn og unglinga til að skoða menningarminjar í sínu nærumhverfi og skapa verkefni þeim tengd. Í fyrra var íslenskt verkefni valið eitt af tíu bestu verkefnunum í European Heritage Makers Week og fékk höfundur þess að launum ferð til Strassborgar.
Skilafrestur í keppnina var upphaflega 1. maí en síðan framlengdur til 9. maí. Því miður bárust engin verkefni í keppnina að þessu sinni og teljum við það skýrast að miklu leyti af því hve seint var hægt að tilkynna um keppnina og hleypa henni af stokkunum. Óskað hefur verið eftir því við skipuleggjendur European Heritage Makers Week að reglur og leiðbeiningar verði samræmdar og gefnar út mun fyrr fyrir 2020 keppnina en raunin var í ár.

Kynnisferð til Berlínar

Dagana 3. – 7. apríl fóru starfsmenn Minjastofnunar í kynnisferð til Berlínar. Heppnaðist ferðin afar vel og var mjög áhugavert að heyra af starfsemi systurstofnana í Brandenburg og Berlín, ekki síst þegar kemur að fornleifauppgröftum og verndun húsa og mannvirkja.
Fyrsta stopp var sendiráð Íslands í Berlín þar sem staðgengill sendiherra á móti hópnum og kynnti menningarstarfsemi sendiráðsins. Í kjölfarið fór hópurinn austur yfir Spree þar sem Dr. Christoph Rauhut, Landeskonservator, fræddi hópinn um starfsemi stofnunar sinnar "Landesdenkmalamt Berlin", sér í lagi húsverndarhluta starfseminnar.
Síðasta kynnisferðin var farin til Brandenburg an der Havel þar sem Prof. Dr. Franz Schopper, Direktor, Landesarchäologe og Museumsdirektor, tók á móti hópnum og kynnti starfsemi "Brandenburgisches Landesamt fur Denkmalpflege und Archëologisches Landesmuseum", auk þess sem Archëologisches Landesmuseum Brandenburg var skoðað.

Erlent samstarf

Árlegur fundur forstöðumanna minjastofnana í Evrópu (EHHF) var haldinn í Stokkhólmi dagana 22. – 24. maí. Forstöðumaður Minjastofnunar, Kristín Huld Sigurðardóttir, sótti fundinn fyrir Íslands hönd ásamt Agnesi Stefánsdóttur, sviðsstjóra. Aðalumræðuefni fundarins var hversu aðgengilegar menningarminjar væru almenningi og hvernig hægt væri að gera menningararfinn að sjálfsögðum hlut í allri ákvarðanatöku. Aðalfyrirlesari á fundinum var prófessor Kwame Anthony Appiah frá Háskólanum í New York og bar erindi hans heitið “Who owns heritage?”. Fyrirlesturinn fjallaði m.a. um hvernig menning hinna ýmsu landa samtvinnast yfirleitt á einhvern hátt. Fyrirlesarinn tók sem dæmi að flókið handverk sem eignað er einu landi byggist oft að hluta og jafnvel eingöngu á innfluttu efni.

Dagana 24.-25. apríl sótti Guðný Gerður Gunnarsdóttir, minjavörður Reykjavíkur og nágrennis, fund European Heritage Legal Forum (EHLF) í Berlín. EHLF er vinnuhópur European Heritage Heads Forum (EHHF) og hefur þann tilgang að fylgjast með tilskipunum og lagasetningum Evrópusambandsins og fjalla um þær sem mögulega gætu haft áhrif á menningarminjar í álfunni og lagasetningu landa í Evrópu.
Meginumfjöllunarefni fundarins að þessu sinni voru tvær tilskipanir: EU Biocide Regulations (EU No. 528/2012) um notkun eiturefna og Construction Products Directive 89/206/EEC um endurnýtingu byggingarefna.