Dagana 1.-3. október komu saman í Reykjavík allir aðildarfélagar evrópuverkefnisins Adapt Northern Heritage (ANH) eða Aðlögun menningararfs á norðurslóðum að loftlagsbreytingum. Verkefnið er leitt af Historic Environment Scotland, Riksantikvaren í Noregi, NIKU og Minjastofnun Íslands. Aðrir þátttakendur eru fulltrúar stofnana og félagasamtaka sem koma að varðveislu og verndun menningarminja víðs vegar á norðurslóðum. Fulltrúar frá Noregi, Svalbarða, Svíþjóð, Lapplandi, Rússlandi, Skotlandi, Englandi og Írlandi, auk gestafyrirlesara frá Svíþjóð og Alaska, mættu til Reykjavíkur og tóku þátt í viðburðum og hópavinnu.
Nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér og hægt að fylgjast með fréttum á Facebook og Twitter @AdaptNHeritage
Mánudaginn 1. október var haldinn opinn viðburður á vegum ANH í Hannesarholti undir yfirskriftinni Loftlagsbreytingar, forvörsluaðferðir og minjavarsla í Alaska, á Íslandi og í Noregi. Erindi fluttu Carsten Hermann frá Historic Environment Scotland, Skúli Björn Gunnarsson frá Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri og verkefnisstjóri CINE á Íslandi, Halldór Björnsson frá Veðurstofu Íslands, Johan Mattson ráðgjafi frá Mycoteam í Noregi og Jeffrey Rasic frá Þjóðgarðastofnun Alaska (National Park Service).
Dagana 4.-5. október var vinnufundur aðildarfélaga ANH verkefnisins á Snæfellsnesi og nutu þeir gestrisni Jóns Björnssonar þjóðgarðsvarðar í gestastofu Snæfellsjökulsþjóðgarðs að Malarrifi.