Facebook icon Twitter icon Forward icon

Ársfundur Minjastofnunar Íslands

Ársfundur Minjastofnunar verður haldinn í salnum Kötlu á Hótel Sögu miðvikudaginn 28. nóvember. Um morgunverðarfund er að ræða og hefst morgunverður kl. 08:00, en dagskrá fundarins hefst kl. 08.30. Nánari upplýsingar um dagskrána má nálgast hér
Athugið að nauðsynlegt er að skrá sig á fundinn, skráning fer fram hér og lýkur á hádegi þriðjudaginn 20. nóvember. 

Meginefni fundarins er: Vernd jarðfastra menningarminja - Hvað getum við gert betur til að tryggja vernd jarðfastra menningarminja (fornleifa, húsa og mannvirkja)? 

Aðgangur ókeypis og allir velkomnir!

Sjóðirnir

Opnað verður fyrir umsóknir í fornminjasjóð fyrir árið 2019 í næstu viku. Fylgist með á heimasíðu Minjastofnunar og Facebook síðu stofnunarinnar.
Reglur um veitingu styrkja úr sjóðnum má finna hér.


Við minnum einnig á að frestur til að sækja um styrki úr húsafriðunarsjóði fyrir árið 2019 er til og með 1. desember. Umsóknir sem berast eftir það koma ekki til álita við úthlutun úr sjóðnum. Umsóknareyðublað fyrir húsafriðunarsjóð má finna hér og úthlutunarreglur sjóðsins má finna hér

Fundur ANH á Íslandi

Dagana 1.-3. október komu saman í Reykjavík allir aðildarfélagar evrópuverkefnisins Adapt Northern Heritage (ANH) eða Aðlögun menningararfs á norðurslóðum að loftlagsbreytingum. Verkefnið er leitt af Historic Environment Scotland, Riksantikvaren í Noregi, NIKU og Minjastofnun Íslands. Aðrir þátttakendur eru fulltrúar stofnana og félagasamtaka sem koma að varðveislu og verndun menningarminja víðs vegar á norðurslóðum. Fulltrúar frá Noregi, Svalbarða, Svíþjóð, Lapplandi, Rússlandi, Skotlandi, Englandi og Írlandi, auk gestafyrirlesara frá Svíþjóð og Alaska, mættu til Reykjavíkur og tóku þátt í viðburðum og hópavinnu. 

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér og hægt að fylgjast með fréttum á Facebook og Twitter @AdaptNHeritage

Mánudaginn 1. október var haldinn opinn viðburður á vegum ANH í Hannesarholti undir yfirskriftinni Loftlagsbreytingar, forvörsluaðferðir og minjavarsla í Alaska, á Íslandi og í Noregi. Erindi fluttu Carsten Hermann frá Historic Environment Scotland, Skúli Björn Gunnarsson frá Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri og verkefnisstjóri CINE á Íslandi, Halldór Björnsson frá Veðurstofu Íslands, Johan Mattson ráðgjafi frá Mycoteam í Noregi og Jeffrey Rasic frá Þjóðgarðastofnun Alaska (National Park Service).

Dagana 4.-5. október var vinnufundur aðildarfélaga ANH verkefnisins á Snæfellsnesi og nutu þeir gestrisni Jóns Björnssonar þjóðgarðsvarðar í gestastofu Snæfellsjökulsþjóðgarðs að Malarrifi.

Menningarminjar á Snæfellsnesi - menningarminjadagarnir

Í tengslum við Menningararfsár Evrópu og menningarminjadagana 2018 var boðið til fyrirlestraraðar laugardaginn 6. október í gestastofu Snæfellsjökulsþjóðgarðs að Malarrifi. Erindi fluttu Guðmundur Stefán Sigurðarson, minjavörður og verkefnisstjóri hjá Minjastofnun Íslands, Ragnhildur Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Svæðisgarðsins Snæfellsnes, Jón Björnsson þjóðgarðsvörður, Dr. Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Vestfjörðum og Jakob Orri Jónsson doktorsnemi í fornleifafræði við Háskóla Íslands.

Menningararfsár Evrópu 2018

Nú líður að síðustu viðburðum menningararfsársins á Íslandi, en árinu verður slitið formlega 12. desember í Alcalá de Henares á Spáni.
Á Íslandi voru 26 viðburðir skráðir á dagskrá menningararfsársins og viljum við þakka öllum þeim sem tóku þátt, viðburðahöldurum og gestum, kærlega fyrir samstarfið.
Tveir viðburðir eru eftir á dagskránni en þeir eru opnanir tveggja sýninga á Þjóðminjasafni Íslands í tilefni af útgáfu síðustu binda ritraðarinnar Kirkjur Íslands, en útgáfa þeirra er samstarfsverkefni Þjóðminjasafnsins, Minjastofnunar Íslands og Biskupsstofu. Sýningarnar nefnast „Kirkjur Íslands: Með augum biskups og safnmanna“ og „Kirkjur Íslands: Skrúði og áhöld. Straumar og stefnur“. Sýningarnar eru einnig hluti af dagskrá 100 ára fullveldis Íslands og verða báðar opnaðar sunnudaginn 24. nóvember.

Dagskrá menningararfsársins á Íslandi má finna hér.

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir

16. nóvember 2018