Facebook icon Twitter icon Forward icon

VELKOMIN Í FORELDRASTARFIÐ

Allir foreldrar og forráðamenn sem eiga börn í Langholtsskóla eru sjálfkrafa félagar í foreldrafélagi skólans í samræmi við lög um grunnskóla. Tilgangur foreldrafélagsins er að styðja við skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimilis og skóla.

Margsannað er að virk þátttaka foreldra í skólastarfinu stuðlar að bættum námsárangri, betri skólasókn og auknu sjálfstrausti barnanna okkar samhliða því að skapa jákvæðara viðhorf allra til skólasamfélagsins.

Upplýsingar um starf foreldrafélagsins, stjórnarmenn þess, bekkjarfulltrúa allra bekkja, fulltrúa foreldra í skólaráði og ýmsan annan fróðleik um foreldrastarfið má ávallt nálgast á heimasíðu Langholtsskóla undir flipanum "FORELDRAR" og á fésbókarsíðu foreldrafélagsins er oft lífleg umræða um skólasamfélagið sem allir geta tekið þátt í.

Stjórn foreldrafélagsins hvetur alla foreldra til virkrar þátttöku í starfi vetrarins og hlakkar til samstarfsins. Gerum góðan skóla enn betri !

SÉRMERKTAR SKÓLAPEYSUR OG HÚFUR

Eins og venjulega stendur foreldrafélagið nú fyrir sölu á hinum sívinsælu skólapeysum Langholtsskóla. Allir nemendur skólans geta nú pantað sína eigin Langó-peysu og -húfu, út þessa viku.

Sérstakur peysumátunardagur verður fimmtudaginn 12. september, milli 17 og 19 á sal skólans.

Hægt er að velja um tvær tegundir og tvo liti og allir fá peysurnar merktar með sínu nafni og skólans.

Annarsvegar er um að ræða Fruit of the Loom hettupeysa sem kostar kr. 2500,- (ofar á mynd) og hinsvegar Fruit of the Loom rennd hettupeysa sem kostar kr. 3.500,- (neðar á mynd).

Stærðirnar sem hægt er að velja úr eru 128, 140, 152, S, M og L og litirnar eru rauður (sjá mynd) og svartur.

Einnig er hægt að fá prjónahúfur með merki skólans á kr. 1.000,- Húfurnar er einnig hægt að merkja barni fyrir kr. 400,- aukalega.

Hægt er að panta peysur og húfur fram til 15. september, með því að senda tölvupóst á ao@vegagerdin.is eða með því að mæta á peysumátunardag foreldrafélagsins og ganga þar frá pöntun. Þeir sem panta fá sendan staðfestingarpóst með nauðsynlegum greiðsluupplýsingum. Allar pantanir sem ekki hafa verið greiddar fyrir 18. september falla niður og verður þeim eytt.

ÁRGJALD FORELDRAFÉLAGSINS

Árgjald foreldrafélagsins var á síðasta aðalfundi ákveðið kr. 2.000 fyrir skólaárið, á hverja fjölskyldu (ekki barn). Árgjaldið er valfrjálst, en fjárhagur foreldrafélagsins byggist nær alfarið á góðri innheimtu þess. Vorhátiðin, laufabrauðsdagurinn, fræðslufundirnir, öskudagsskemmtunin, peysusalan o.s.frv.

Foreldrar eru hvattir til þess að greiða árgjaldið beint á reikning foreldrafélagsins (515-26-396410, kt. 641091-1979) sem allra fyrst svo komist verði hjá kostnaði við útsendingu gíróseðla og ítrekanir. 

Óþarfi er að láta skýringu eða tölvupóst fylgja greiðslunni, svo fremi að greiðandi sé skráður forráðamaður barns í Mentor. 

LÚSARLAUS LANGÓ !

Foreldrar og forráðamenn barna í Langholtsskóla hafa vonandi ekki látið slaginn við lúsina í Langó fram hjá sér fara.

Lúsar hefur orðið vart á öllum stigum skólans á nýhöfnu skólaári. Það var þess vegna sem  Foreldrafélagið, Aðalbjörg skólahjúkrunarfræðingur og stjórn skólans ákvað að fara í aðgerðir.

Nú eiga allir nemendur skólans að hafa fengið afhentan lúsakamb og fræðsluefni um meðferð vegna lúsar en hjá Landlækni má einnig lesa sér til um leiðir gegn lúsinni.

Við vonum að þetta átak verði til þess að hjálpa okkur foreldrum við að halda lúsaskömminni frá kollum nemenda Langholtsskóla.

Ef við leggjumst öll á eitt og kembum hár barna okkar og meðhöndlum lúsuga kolla er alveg hægt að sjá fyrir sér lúsalausan Langó !