Facebook icon Twitter icon Forward icon

UMHVERFISDAGUR LANGÓ – GRILL OG SAMVERA

Nemendur Langó fegra umhverfi sitt

Á laugardaginn, 5. október, mun foreldrafélag Langholtsskóla standa fyrir umhverfisdegi frá kl. 13 – 17.

Þar munu foreldrar, forráðamenn og nemendur taka til hendinni, hreinsa skólalóðina, reita arfa, sópa möl og lauf, setja niður vorlauka og sitthvað fleira skemmtilegt.

Fyrstu tvo tímana munum við vinna við hreinsunarstarfið en eftir það stefnum við á að fara í einhverja leiki og endum svo með góðum grillmat og samveru.

Foreldrafélagið fékk 200 þúsund króna styrk frá Hverfissjóði Reykjavíkur til þess að halda þennan dag en markmið hans er að gera skólalóðina og leiðirnar í skólann fallegri og öruggari og fá foreldra og nemendur til að taka til hendinni við að fegra umhverfi sitt.

Einhver áhöld verða á staðnum en það væri vel þegið að einhverjir kæmu með strákústa og e.t.v. tæki til að stinga upp arfa og mosa.   Ef einhver býr svo vel að eiga kerru sem mætti nota til að sækja sand kæmi það sér mjög vel.  Vinsamlegast hafið samband við ao@vegagerdin.is  

Sjáumst vonandi sem flest.

MYNDIR ÚR FORELDRASTARFINU

Vorhátið foreldrafélagsins 2013

Stjórn foreldrafélagsins hefur ákveðið að opna myndasíðu á vef Langholtsskóla. Á þessa síðu er ætlunin að safna saman gömlum og nýjum myndum úr fjölbreyttu starfi foreldrafélagsins, stórum viðburðum sem smáum, af vettvangi bekkjar- og árgangastarfsins, sameiginlegum verkefnum félagsins og almennu félagsstarfi.

Ætlunin er að safna saman sem flestum myndum og minningum og hvetjum við alla foreldra og forráðamenn til að taka myndir af komandi viðburðum.

Þeir sem eiga myndir í fórum sínum frá liðnum árum eru einnig hvattir til að senda myndir ásamt stuttum skýringartexta á Stellu Steinþórsdóttur, stellais@hotmail.com. Nánari upplýsingar um framgang verkefnisins verða sendar um leið og síðan opnar.

STARF BEKKJARFULLTRÚA

Bekkjarfulltrúar á námskeiði SAMFOK

Einn mikilvægasti þátturinn í foreldrastarfi hvers skóla er sú starfsemi sem fer fram á vettvangi bekkjarins og einstakra árganga. Þar er enda mikilvægast að góð félagsleg tengsl og gefandi samstarf takist milli foreldra, nemenda og skólasamfélagsins alls. Til að þetta mikilvæga starf gangi vel þurfa allir foreldrar að leggja sitt af mörkum.

Nú hafa allir bekkir Langholtsskóla valið sér 2-3 bekkjarfulltrúa sem munu hafa forystu fyrir þessu mikilvæga starfi á komandi vetri. Þeir hafa á liðnum vikum átt samráðsfund með stjórn foreldrafélagsins, sótt námskeið á vegum SAMFOK og unnið að skipulagningu vetrarstarfsins í samráði sín á milli.

Hér er ávallt hægt að nálgast upplýsingar um bekkjarfulltrúana og mikilvægt hlutverk bekkjarstarfsins. Foreldrar barna í einstökum bekkjum og árgöngum hafa einnig komið sér upp sérstökum hópum á Facebook til virkra samskipta sem mikilvægt er að sem flestir foreldrar tengist. Upplýsingar um slíka hópa má fá hjá bekkjarfulltrúum viðkomandi bekkja.

Stjórn foreldrafélagsins hvetur alla foreldra til að taka virkan þátt í foreldrastarfi vetrarins og gera þannig góðan skóla og gott skólasamfélag enn betra!

FUNDUR UM FRÍSTUNDASTARF VIÐ LANGHOLTSSKÓLA

Uppdráttur af nýrri safnrístund

Þriðjudaginn 15. október stendur foreldrafélagið fyrir fyrsta fræðslufundi vetrarins. Umfjöllunarefnið verður frístundastarf Reykjavíkurborgar í tengslum við Langholtsskóla og þær miklu breytingar og endurbætur sem á því eru að verða þessi misserin.

Á fundinum munu fulltrúar Reykjavíkurborgar kynna starfsemi sína og fara sérstaklega yfir nýja safnfrístund fyrir 3.-4. bekk, endurbæturnar á húsnæði og umhverfi Glaðheima og framtíðarsýn borgarinnar varðandi frístundastarfið.

Á fundinum hyggst foreldrafélagið einnig velja 4-6 fulltrúa foreldra í sérstakt frístundaráð foreldrafélagsins, sem er ætlað að styðja við frístundastarfið og bættum hag þess og barnanna sem þar eru.

Fundurinn verður haldinn á efri hæðinni í Þróttheimum við Holtaveg á milli kl. 17.00 og 18.30 og geta foreldrar í lok fundar skoðað nýja og glæsilega aðstoðu frístundastarfsins í Glaðheimum.