Facebook icon Twitter icon Forward icon

FRÆÐSLUFUNDUR UM FORVARNIR OG FORELDRARÖLT

Þriðjudaginn 12. nóvember kl. 19.00, boðar foreldrafélagið til fræðslu- og umræðufundar í hátíðarsal Langholtsskóla um forvarnir og mikilvægi foreldra í forvarnarstarfi.

Æskilegt er að allir foreldra barna á unglingastigi mæti en fundurinn er öllum opinn og verður boðið uppá viðeigandi veitingar.

Dagskrá:
Hreiðar Sigtryggsson skólastjóri, mun segja okkur frá stöðu mála í Langholtsskóla, þ.á m. fara yfir könnun á vímuefnaneyslu barna í skólanum.

Gunnar Hilmarsson lögreglumaður, mun greina okkur frá stöðu mála í hverfinu, eru fíkniefni vandamál, er unglingavandi í hverfinu o.s.frv.

Magnús Stefánsson, framkvæmdastjóri Marita á Íslandi og sérfræðingur í forvörnum varðandi áfengi og vímuefni, mun halda fræðsluerindi.

Umræður um foreldrarölt o.fl.

Mætum öll !

FRÍSTUNDARÁÐ FORELDRAFÉLAGSINS

Frístundaráð foreldrafélagsins hefur nú verið sett á laggirnar, að áeggjan áhugasamra foreldra. Ráðinu er ætlað að vera vettvangur fyrir umræður og aðgerðir til að efla og bæta frístundastarf barna við Langholtsskóla.

Kosið var í frístundaráðið á fræðslufundi foreldrafélagsins þann 13. október sl. þar sem fjallað var um nýja fyrirhugaða Safnfrístund í Laugardalnum og starfsemina í Glaðheimum. Enn vantar þó fulltrúa þeirra sem eiga börn í frístund úr 4. bekk og eru áhugasamir foreldrar hvattir til að gefa sig fram við Berglindi Indriðadóttur (ergobegga@visir.is).

Í frístundaráðinu sitja nú Berglind Indriðadóttir (fulltrúi stjórnar), Margrét Jóhanna (3. ÓB), Berglind Helgadóttir (3. SI), Anna Björk Árnadóttir (1. bekk), Elín Ósk Baldursdóttir (1. bekk) og Esther Ágústsdóttir (2. SS).

Fulltrúar foreldra barna í 3. og 4. bekk sem sitja í frístundaráðinu munu taka sæti í foreldraráði Reykjavíkurborgar fyrir safnfrístundina í Laugardal fyrir hönd foreldra Langholtsskóla.

Einnig er í bígerð á vegum Reykjavíkurborgar að skipa foreldraráð fyrir Glaðheima og munu fulltrúar foreldra barna í 1. og 2. bekk sem sitja í frístundaráðinu taka sæti í því ráði þegar að því kemur.

Foreldrar eru hvattir til að leita til hins nýstofnaða frístundaráðs með allar ábendingar sínar og hugmyndir að bættu frístundastarfi og stuðla þannig að enn betra frístundastarfi við Langholtsskóla.

MYNDIR ÚR FORELDRASTARFINU

Eins og fram kom í síðasta fréttabréfi ætlar foreldrafélagið að safna saman myndum úr fjölbreyttu foreldrastarfi Langholtsskóla - ekki síst því sem fram fer á vegum einstakra bekkja og árganga, þar sem börnin taka virkan þátt.

Nú þegar er kominn vísir að þessu myndasafni á vef Langholtsskóla og mun það vaxa og dafna hratt á næstu vikum, enda rekur nú hver viðburðurinn annan í foreldrastarfinu. Myndasafnið má skoða með því að "klikka" hér.

Foreldrar eru eindregið hvattir til að taka myndir á viðburðum vetrarins og setja á facebook síðu foreldrafélagsins eða senda á Stellu Steinþórsdóttur (stellais@hotmail.com) með stuttum skýringartexta.

Þeir sem eiga myndir í fórum sínum frá liðnum árum eru einnig hvattir til að senda inn slíkar myndir.