Þú getur líka skoðað þetta skeyti í vafra.

Þjóðkirkjan | biðjandi boðandi þjónandi

9/2 2011

Nýr Víðförli

Víðförli, fréttabréf kirkjunnar lítur nú dagsins ljós á nýju formi. Hann er nú sendur sem tölvubréf til allra sem starfa hjá kirkjunni og til allra sem eru áskrifendur að almanakinu á trú.is og fá lestur dagsins og bæn senda á hverjum morgni.

Þú mátt gjarnan áframsenda þetta skeyti  á þá sem þú telur að gætu haft gagn og gaman af fréttabréfinu. Ef þú vilt ekki fá Víðförla getur þú sagt upp áskriftinni.

Við munum senda skeyti vikulega og segja frá því helsta sem er á döfinni, miðla fréttum af kirkjan.is og efni af trú.is. Það er von okkar að fréttabréfið verði til þess að efla upplýsingamiðlun kirkjunnar og lyfta fram því góða starfi sem er í sóknunum um land allt.

Eldri tölublöð af Víðförla er að finna á www.kirkjan.is/vidforli. Þar er líka eyðublað til að gerast áskrifandi að Víðförla. Allar ábendingar sem snerta fréttabréfið eru vel þegnar, þær má senda á Árna Svan Daníelsson sem hefur netfangið arni.svanur.danielsson hjá kirkjan.is.

Efst

Hæfileikaríkir unglingar

Um helgina fór fram æskulýðsmót á Brúarási á Héraði. Á mótinu var keppt í HÆNA, hæfileikakeppni NorðAusturlands og unnið í smiðjum þar sem þátttakendur gátu látið ljós sitt skína með skapandi tónlist, leiklist og listsköpun. Einnnig var boðið upp skyndihjálparhóp, leikjahóp og fjölmiðlahóp, sem bjó til fréttablað og leituðu leiða til að ná eyrum og augum fjölmiðla.

Efst

Þjóðgildin rædd á Akureyri

Eru þjóðgildin bara orðin tóm? Eiga þau erindi til okkar? Hvaða máli skipta þau? Hvernig tengjast hefðir og siðir í landinu tilvist okkar og framtíðarsýn? Þessar og fleiri spurningar verða ræddar á Akureyri á mánudagskvöldum í febrúar og mars. Á vef Eyjafjarðarprófastsdæmis er hægt að lesa ítarlega samantekt frá fyrsta umræðukvöldinu.

Efst

Vígslubiskupskjör í Skálholti

Í vor fer fram vígslubiskupskjör í Skálholtsstifti. Kjörskrá liggur frammi á vef kirkjunnar, á Biskupsstofu og hjá próföstum í Skálholtsumdæmi til 21. febrúar. Kjörgengur er hver guðfræðikandídat sem fullnægir skilyrðum til þess að vera skipaður prestur í þjóðkirkjunni. 

 

Efst

Vísitasía í Kársnessöfnuð

Biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, vísiteraði Kársnessókn um helgina, hitti sóknarnefnd og starfsfólk safnaðarins og tók þátt í kirkjustarfi. Sunnudaginn 6. febrúar predikaði biskup við guðsþjónustu í Kópavogskirkju. Við það tækifæri spjallaði hann einnig við börnin í messunni og færði þeim kross að gjöf.

Efst

Málþing um staðgöngumæðrun

Þjóðmálanefnd kirkjunnar gengst fyrir málþingi um álitamál tengd staðgöngumæðrun mánudaginn 14. febrúar. Þar verður fjallað verður um staðgöngumæðrun á nótum siðfræði, mannréttinda og samtals. Málþingið verður haldið í Safnaðarheimili Neskirkju milli klukkan 12.00 og 13.00. Frummælendur verða sr. Baldur Kristjánsson, dr. Sólveig Anna Bóasdóttir og sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir.

 

Efst

Í þessu tölublaði