Facebook icon Twitter icon Forward icon

Nýtt fréttabréf SÍ

Frá stefnumótunarfundi SÍ

Á stefnumótunar-fundi SÍ sem fram fór 22. september 2012 komu fram ýmsar góðar hugmyndir. Á meðal þess sem var rætt var sú hugmynd að SÍ gæfi út fréttabréf reglulega. Hér er fyrsta slíka bréfið. Fréttabréfinu er ætlað að koma út tvisvar sinnum í mánuði yfir vetrarmánuðina en sjaldnar á sumrin.

Í fréttabréfinu verða fréttir frá SÍ og af aðildarfélögum SÍ auk ýmissa skákfrétta. Ritstjóri er Gunnar Björnsson og hægt er að hafa samband við hann á netfangið gunnar@skaksamband.is.

Allir þeir sem eru á póstlista skákmanna fá sjálfkrafa fréttabréfið en auðvelt á að vera að afskrá sig eða breyta áskrift með við velja tengla þess efnis efst eða neðst í fréttabréfinu. Einnig má senda tölvupóst til ritstjóra.

N1 Reykjavíkurskákmótið

Stærsta verkefni SÍ á hverju ári er vinna við Reykjavíkur-skákmótið. Mótið fer fram 19.-27. febrúar 2013. Afar mikilvægur áfangi náðist þegar ljóst var að mótið væri haldið árlega en fyrsta oddatölumótið var haldið 2009. Þáverandi forystumenn skákhreyfingarinnar létu ekki eitt stykki hrun stöðva mótahaldið og verður það seint þakkað.

Smávægilegar breytingar verða frá síðasta móti. Mótið er lengt um eina umferð, þ.e. verður 10 umferðir í stað 9. Tvöfaldi dagurinn er færður framar, þ.e verður ekki um helgi heldur þegar 2. og 3. umferð fara fram. Keppendur þurfa því tvisvar að taka sér frí frá vinnu/skóla en lokaumferðin hefst einnig um miðjan dag.

Nú þegar um 78 dagar er í mót hafa um 90 skákmenn skráð sig til leiks. Meðal skráða skákmanna er Frakkinn Maxime Vachier-Lagrave, sem er aðeins 22 ára og þykir einn sterkasti skákmaður heims og leiðir hið sterka franska landsliðs.

Meðal annarra sterkra skákmanna sem taka þátt má nefna Nigel Short, fyrrum áskoranda um heimsmeistaratitilinn, Ivan Cheparinov, Ivan Sokolov og Pavel Eljanov. Og fleiri sterk nöfn munu bætast við á komandi dögum og vikum.

Keppendalista mótsins má finna hér.

Íslenskir skákmenn eru hvattir til að skrá sig til leiks. Það er hægt að gera hér .Íslendingar fá góðan afslátt á þátttökugjöldum, sem eru í evrum en gengi fyrir Íslendinga er miðað við 100 kr. á evruna.

Fljótlega kemur upp ný og glæsileg skáksíða fyrir mótið. Hana verður hægt að nálgast á www.reykjavikopen.com en núverandi síða er til bráðabirgða. Einnig er Facebook-síða mótsins mjög lifandi.

Verkefnin framundan

Ýmis verkefni eru framundan hjá SÍ á komandi misserum fyrir utan krúnudjásnið, Reykjavíkurskákmótið. Hér er stiklað á mjög stóru.

Friðriksmót Landsbankans - Íslandsmótið í hraðskák

Haldið í útibúi Landsbankans í Austurstræti sunnudaginn 16. desember. Búast má við nánast allir sterkustu skákmenn taki þátt. Þátttaka er takmörkuð við 80 manns og verður skráningarform sett upp í þessari viku á Skák.is. Gildir þar lögmálið, að fyrstir koma, fyrstir fá en þó njóta stórmeistarar og alþjóðlegir meistarar forgangs varðandi þátttöku.

Íslandsmót barna

Mótið fer fram 12. janúar. Um er að ræta eitt fjölmennasta skákmót hvers árs. Fyrirkomulag mótsins verður nánar kynnt þegar nær dregur.

Skákdagurinn

Skákdagurinn fer fram 26. janúar 2013 á afmælisdegi Friðriks Ólafssonar. Nánar er sagt frá Skákdeginum hér að neðan.

NM einstaklingsmót

Mótið fer fram í Bifröst í Borgarfirði, 7.-11. febrúar. Þátt taka 60 skákmenn frá öllum sex Norðurlöndunum. Íslendingar eiga 10 fulltrúa en þeir verða valdir nú í fyrra hluta desember-mánaðar.

Landskeppni við Kína

Er fyrirhuguð 15.-17. febrúar eða í aðdraganda N1 Reykjavíkurskákmótsins. Nánar um hana síðar.

Íslandsmót skákfélaga

Síðari hluti Íslandsmóts skákfélaga fer fram í Hörpu 1. og 2. mars í kjölfar N1 Reykjavíkurskákmótsins

Opna Íslandsmótið - Icelandic Open Championship

Íslandsmótið í skák á 100 ára afmæli árið 2013. Af því tilefni verður Íslandsmótið með óvenjulegu fyrirkomulagi. Mótið verður galopið  og jafnframt opið erlendum skákmönnum. Mótið fer fram í byrjun júní og er stefnt að því að allt kynningarefni verði tilbúið fyrir N1 Reykjavíkurskákmótið undir slagorðinu; "See Iceland in a different light".

Norðurlandamót kvenna

Fer fram á Íslandi næsta haust.

N1 Reykjavíkurskákmótið 2014

50 ára afmælismót, en fyrsta mótið var haldið af TR og SÍ í sameiningu árið 1964. Stefnt er að einkar veglegu Reykjavíkurskákmóti af því tilefni.

EM landsliða 2015

Stærsta verkefni í sögu SÍ síðan einvígi aldarinnar var haldið hér á landi árið 1972. Carlsen, Aronian og Kramnik verða vonandi meðal keppenda.

Skákdagurinn

Skákdagurinn verður haldinn hátíðlegur í annað sinn laugardaginn 26. janúar næstkomandi - á afmælisdegi Friðriks Ólafssonar.

Fyrsti Skákdagurinn sem haldinn var fyrr á þessu ári tókst frábærlega í alla staði og voru taflborðin tekin upp um allt land í fyrirtækjum, skólum, sundlaugum, kaffihúsum og rauninni hvar sem var. Teflt var í Grímsey, Borgarnesi, Blönduósi, Reykjavík og víðar. Fjöltefli, hraðskákeinvígi, sundlaugarskák, skólamót, fyrirtækjamót og fleira.

Skiptu skákviðburðirnir tugum ef ekki hundruðum. Er það einlæg von skipuleggjenda að viðtökur verði jafn góðar nú eins og í janúar.

Skólar, fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar eru hvött til hvers kyns skákviðburða á Skákdaginn 2013.Þar sem daginn ber upp á laugardegi er tilvalið fyrir skóla að hita upp fyrir daginn í vikunni á undan.

Fyrirspurnum og staðfestingar á viðburðum skulu sendar á Stefán Bergsson sem er verkefnastjóri Skákdagsins.

Myndir frá Skákdeginum 2012 má finna hér.