Ýmis verkefni eru framundan hjá SÍ á komandi misserum fyrir utan krúnudjásnið, Reykjavíkurskákmótið. Hér er stiklað á mjög stóru.
Friðriksmót Landsbankans - Íslandsmótið í hraðskák
Haldið í útibúi Landsbankans í Austurstræti sunnudaginn 16. desember. Búast má við nánast allir sterkustu skákmenn taki þátt. Þátttaka er takmörkuð við 80 manns og verður skráningarform sett upp í þessari viku á Skák.is. Gildir þar lögmálið, að fyrstir koma, fyrstir fá en þó njóta stórmeistarar og alþjóðlegir meistarar forgangs varðandi þátttöku.
Íslandsmót barna
Mótið fer fram 12. janúar. Um er að ræta eitt fjölmennasta skákmót hvers árs. Fyrirkomulag mótsins verður nánar kynnt þegar nær dregur.
Skákdagurinn
Skákdagurinn fer fram 26. janúar 2013 á afmælisdegi Friðriks Ólafssonar. Nánar er sagt frá Skákdeginum hér að neðan.
NM einstaklingsmót
Mótið fer fram í Bifröst í Borgarfirði, 7.-11. febrúar. Þátt taka 60 skákmenn frá öllum sex Norðurlöndunum. Íslendingar eiga 10 fulltrúa en þeir verða valdir nú í fyrra hluta desember-mánaðar.
Landskeppni við Kína
Er fyrirhuguð 15.-17. febrúar eða í aðdraganda N1 Reykjavíkurskákmótsins. Nánar um hana síðar.
Íslandsmót skákfélaga
Síðari hluti Íslandsmóts skákfélaga fer fram í Hörpu 1. og 2. mars í kjölfar N1 Reykjavíkurskákmótsins
Opna Íslandsmótið - Icelandic Open Championship
Íslandsmótið í skák á 100 ára afmæli árið 2013. Af því tilefni verður Íslandsmótið með óvenjulegu fyrirkomulagi. Mótið verður galopið og jafnframt opið erlendum skákmönnum. Mótið fer fram í byrjun júní og er stefnt að því að allt kynningarefni verði tilbúið fyrir N1 Reykjavíkurskákmótið undir slagorðinu; "See Iceland in a different light".
Norðurlandamót kvenna
Fer fram á Íslandi næsta haust.
N1 Reykjavíkurskákmótið 2014
50 ára afmælismót, en fyrsta mótið var haldið af TR og SÍ í sameiningu árið 1964. Stefnt er að einkar veglegu Reykjavíkurskákmóti af því tilefni.
EM landsliða 2015
Stærsta verkefni í sögu SÍ síðan einvígi aldarinnar var haldið hér á landi árið 1972. Carlsen, Aronian og Kramnik verða vonandi meðal keppenda.