Facebook icon Twitter icon Forward icon

,,Enginn má missa af Biftóberfest”

Þórdís Halla Guðmundsdóttir er formaður Nemendafélagsins við Háskólann á Bifröst, hún segir mjög mikilvægt að nemendur taki  virkan þátt í félagslífi skólans strax frá upphafi svo þeir njóti námsáranna í botn.  Dagskrá fyrir nemendur við skólann sé fjölbreytt en það er til dæmis boðið upp á hrekkjavöku, sápubolta, skólaböll, klúbba auk þess sem fastir liðir eins og Sumarhátíð sjéntilmanna og Skemmantaleikar skemmtanavaldsins séu á sínum stað á ári hverju.

Þórdís Halla hóf nám HHS á Bifröst eftir stúdentspróf frá Kvennaskólanum í Reykjavík og líkar vel á Bifröst.
Hún segir námið heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði hafi heillað hana en einnig hafi skólinn sjálfur gert það. ,,Ég hafði heyrt að hér væri gott að vera og skólinn væri persónulegur og öll aðstaða til fyrirmyndar. Mér fannst það heillandi þar sem ég hafði komið úr litlum menntaskóla þar sem allir þekktust “ segir hún aðspurð um val sitt á skóla. Hún hefur sjálf tekið virkan þátt í félagslífinu og segir að með því hafi hún náð að kynnast samnemendum sínum fljótt og vel.

Sápubolti og Hroki stóðu upp úr
En hvað var það sem stóð upp úr á síðasta ári hjá nemendafélaginu? ,,Frá því að ég tók við formennsku í félaginu í febrúar verð ég að segja að Sápuboltinn á sumarönninni hafi verið skemmtilegastur. Hroki, þrautakeppnin okkar, tókst einnig mjög vel.” Þórdís bætir við að önnur félög tengd skólanum bjóði meðal annars upp á víðfrægar skemmtanir fyrir núverandi nemendur og eldri nemendur sem hafa verið haldnar árum saman.  

Best að drífa sig strax út og taka þátt
,,Þá eru ýmsir klúbbar sem hægt er að skrá sig í og ef fólki finnst  vanta eitthvað og þá er bara að hafa samband við Nemendafélagið og kanna hvort það er ekki hægt að stofna nýjan klúbb eða halda viðburð í samræmi við óskir og áhugamál.”  ,,Enginn nemandi ætti svo að láta Bifróberfest sem haldið er í október né Halloween ballið framhjá sér fara”  bendir Þórdís á og ítrekar að það þýðir ekkert að sitja heima og bíða eftir að einhver banki á hurðina hjá nemendum, best sé að drífa sig út strax við upphaf námsins og taka þátt.  Dagskrá næsta veturs hefst á nýnemaballi segir Þórdís glaðlega og bætir við að hana hlakki til að bjóða nýja nemendur velkomna í fjörið.

Nýr sviðsstjóri Viðskiptafræðisviðs

Sigurður Ragnarsson hefur verið ráðinn sviðsstjóri Viðskiptafræðisviðs við Háskólann  á Bifröst í stað Sigurbjörns Einarssonar. Sigurður er með B.A. í mannauðsstjórnun og M.B.A. í stjórnun og markaðsfræðum frá Golden Gate University í San Francisco og stundar doktorsnám í leiðtogafræðum við Háskóla Íslands. Hann hefur víðtæka stjórnunarreynslu og þ.á.m. reynslu af eigin fyrirtækjarekstri.

Sigurður var lektor á Bifröst frá 2002-2008 en hefur síðustu ár starfað við kennslu og fræðslu auk þess að sinna stjórnenda- og leiðtogaþjálfun fyrir ýmis fyrirtæki og stofnanir.

Hann hefur kennt forystufræði og fleiri námsgreinar við Háskólann á Bifröst, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Opna háskólann og Háskólann á Akureyri. Í lok árs 2011 gaf Sigurður út bókina Forysta og samskipti – Leiðtogafræði.  Sigurbjörn Einarsson mun áfram leggja stund á kennslu við skólann.

Háskólinn á Bifröst býður Sigurð velkominn til starfa og þakkar um leið Sigurbirni fyrir vel unnin störf í þágu skólans.

Myndaðir í bak og fyrir

Kristján Örvar Sveinsson, sumarstarfsmaður hjá Össuri hf. og meistaranemi í lögfræði við Háskólann á Bifröst dreymdi um að ferðast um heiminn og fara á framandi og fjarlægar slóðir. Þegar hann komst að því að hann ætti möguleika á að fara til Shanghai í Kína sem skiptinemi ákvað hann að slá til.  Þar dvaldi hann ásamt samnemendum sínum síðustu önnina í námi sínu í viðskiptalögfræði og lenti í ýmsum ævintýrum.  Við hjá Fréttabréfinu fengum Kristján til að segja okkur frá dvölinni í Kína.

Hjálpsamir og heiðalegir
,,Ég hafði farið til Kína áður en ég fór í skiptinám svo ég vissi dálítið við hverju var að búast. En það sem kom skemmtilega á óvart, var það að þrátt fyrir mikla fátækt hjá mörgum þá er heiðarleikinn mikill” segir Kristján aðspurður að því hvað hafi komið honum mest á óvart á meðan á dvölinni stóð.   Hann segir besta dæmið um þetta var þegar einn af skiptinemunum gleymdi símanum sínum í leigubíl.  ,,Við hringdum í símann þar til leigubílstjórinn svaraði. En við gátum ekkert tjáð okkur við hann en hann áttaði sig nú á því hvernig málin stæðu og snéri við. Hann hringsólaði svo um til að finna okkur og skilaði símanum. Þetta gerðist tvisvar sama kvöldið.”  Þá bendir Kristján á að enginn af skiptinemunum hafi lent í vasaþjófnaði né neinu slíku eins og er svo algengt í flestum stórborgum. Allir hefðu verið mjög vinsamlegir og hjálplegir við þá allan tímann.

Ljósmyndaðir út á götu
En vissulega fundu þeir fyrir því að þeir litu öðruvísi út og það vakti mikla athygli innfæddra og sumir létu sér ekki nægja að stara dálítið á þá heldur óskuðu eftir að festa þá á mynd.   ,,Svo er það nú alltaf jafn furðulegt þegar fólk vill fá mynd af sér með manni úti á götu. Við lentum oft í því að vera stoppaðir og myndaðir í bak og fyrir. En okkur leiddist það svo sem ekkert” segir Kristján og hlær.

Kínverskunámið frábrugðið
Kristján segir kennslustundirnar úti hafi verið mjög ólíkar því sem þeir hafi verið vanir og stundum hafi þeim liðið eins og þeir væru komnir í leikskóla. ,,Kínverskutímarnir höfðu svolítinn leikskólabrag yfir sér sem var í raun ekkert skrítið. Maður kann minna en leikskólabarn í kínversku þegar komið er til Kína og það er verið að kenna manni grunninn. Við sátum inni í kennslustofu að endurtaka það sem kennarinn sagði aftur og aftur, öll í kór. Það var svolítið furðulegt en um leið skemmtilegt.” 

Fyrir utan kínverskunámið voru tímarnir með hefðbundnara móti. Aðlögunin hafi því verið lítið mál. ,,Aðstandendur skólans úti eru þaulvanir því að fá skiptinema og standa vel að öllu í kringum það” sagði Kristján aðspurður um muninn á Bifröst og skólanum úti. 

,,Þetta var mikil reynsla og opnaði augu manns svolítið fyrir heiminum. Lifnaðar- og hugsunarhættir geta verið svo gríðarlega ólíkir því sem við eigum að venjast hérna á litla Íslandi. Hvernig dvölin mun nýtast mér beint verður bara að koma í ljós en vonandi fær maður tækifæri til að nýta tengsl sín við Shanghai bráðlega,, segir Kristján að lokum um lærdómsríka dvöl sína í Kína.

Bifrestingar í Lapplandi

Mynd er af öllum hópnum þegar skoðaður var Ísbrjóturinn Sampo sem er notaður í ferðaþjónustu

Það er ekki á hverjum degi sem nemendur frá Póllandi, Finnlandi, Ungverjalandi, Rúmeníu og Íslandi hittast í Lapplandi til að vinna að sameiginlegu verkefni. 

En í vor fóru sjö nemendur frá Háskólanum á Bifröst í slíka ferð, til að hitta aðra háskólanemendur í sameiginilegu námskeiði í stjórnun nýsköpunar.

Námskeiðið skiptist í tvennt annars vegar voru unnin hefðbundin skrifleg verkefni og greinargerðir og hins vegar var farið í námsferðir. Gestgjafarnir í Finnlandi voru starfsmenn og nemendur í Kemi-Tornio háskólanum í Lapplandi. Námsferðin stóð í tvær vikur og gisti hópurinn í bænum Kemi en hópurinn ferðaðist víðar og skoðuðu meðal annars bæinn Rovaniemi sem Finnar segja vera heimili jólasveinsins.

Viðfangsefni í þessari námsferð var að kynnast sveitarfélögunum og fyrirtækjum sem tengdust ferðaþjónustu á þessu svæði í Lapplandi og vinna síðan tillögur um nýjungar og úrbætur á sviði ferðaþjónustu á svæðinu.

Á vorönn 2014 verður þessu verkefni haldið áfram og mun þá verða farið með hóp nemenda til Ungverjalands.