Facebook icon Twitter icon Forward icon

Vill að Bifröst verði aðalskólinn

Vilhjálmur Egilsson var fyrir skömmu ráðinn rektor við Háskólann á Bifröst og tekur hann við rektorsstöðunni af Bryndísi Hlöðversdóttur sem lætur af störfum í júlí. Síðustu sjö ár hefur Vilhjálmur verið framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og hefur í gegnum störf sín þar kynnst Háskólanum á Bifröst vel, en SA er einn bakhjarla skólans. Í stuttu viðtali við fréttabréf skólans segir hann frá hvernig það kom til að hann sótti um stöðu rektors og hvaða væntingar hann hafi til skólans.

Sjálfur stundaði Vilhjálmur nám við University of Southern California í Los Angeles og útskrifaðist þaðan með doktorsgráðu í hagfræði. Háskólinn er í fremstu röð skóla í Bandaríkjunum en við hann stunda um 30 þúsund nemendur nám. ,,Bifröst og USC eiga sameiginlegt að sjálft skólaumhverfið er fallegt og andrúmsloftið spennandi og metnaðarfullt.  Fagmennskan í fyrirrúmi og rétta blandan af gamni og alvöru. Allir eru stoltir af sögu sinni og hefðum og vilja að þeirra verði getið að góðu þegar sagan verður skrifuð. Mér leið afar vel á USC og ég fer á Bifröst til að láta mér líða jafn vel” segir Vilhjálmur aðspurður um hvað sé líkt með nýja skólanum og gamla skólanum hans.

Hann segist hlakka mikið til að taka við starfinu nú í júlí. ,,Háskólinn á Bifröst býr að góðum grunni. Hann veitir nemendum góða menntun sem er gott vegarnesti í lífsbaráttunni. Reksturinn sem slíkur verður aldrei neinn dans á rósum og skólinn þarf sífellt að vera skrefinu á undan í breytingum og aðlögun að nýjum aðstæðum.”

Vilhjálmur og kona hans ætla að flytja úr Vesturbænum í Reykjavík upp á Bifröst og hafa þar meginaðsetur. ,,Við viljum vera eins mikill hluti af samfélaginu á Bifröst eins og við getum” segir Vilhálmur og segist einnig hlakka til að komast í kyrrðina en hann er fæddur og uppalinn Skagfirðingur og því sveitinni alkunnugur.

En hvernig kom það til að Vilhjálmur ákvað að hætta störfum fyrir atvinnurekendur og færa sig yfir í háskólasamfélagið? ,,Ég hef nokkrum sinnum hugleitt í gegnum tíðina að það væri gaman að takast á við þetta starf og Ágúst Einarsson fyrrverandi rektor hvatti mig mjög til þess að sækja um. Síðan urðu röð af tilviljunum, til dæmis að Bryndís ákvað að hætta, og skjótar ákvarðanir til þess að þetta varð að veruleika nú.”

Margir velta því fyrir sér hvort nýr rektor muni leggja nýjar áherslur í starfi skólans og Vilhjálmur segist munu beita sér fyrir því að auka rannsóknir við skólann, sérstaklega í þágu atvinnulífsins og almennings. ,,Kennslan verður líka ávallt að vera fyrsta flokks og aldrei verður slegið af þeim kröfum. Bifröst verður kannski aldrei stærsti skólinn á sínu sviði en ég vil að hann verði aðalskólinn” segir nýr rektor harðákveðinn.

Háskólagátt, alhliða undirbúningur fyrir háskólanám

Háskólinn á Bifröst býður upp á Háskólagátt sem er ætluð þeim sem fullnægja ekki inntökuskilyrðum háskóla um stúdentspróf og þeim sem vilja styrkja stöðu sína áður en sótt er um nám í háskóla. Signý Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri kennslu og þjónustu skólans, segir Háskólagáttina veita alhliða undirbúning fyrir háskólanám, óháð því hvar nemendur kjósa að sækja um. „Námsframboð og kennsluaðferðir eru mótaðar í ljósi gilda og stefnu Háskólans á Bifröst. Í stefnu skólans er sérstök áhersla lögð á ábyrga leiðtogamenntun, sjálfbærni og skapandi og gagnrýna hugsun. Námið á að koma til móts við þarfir nemenda sem einhverra hluta vegna hafa ekki unað sér í hefðbundnu námsumhverfi framhaldsskólanna.“ Hún segir fjölda fólks ekki hafa klárað stúdentspróf en vilji undirbúa sig fyrir krefjandi háskólanám eða styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.

Signý segir Háskólann á Bifröst bjóða upp á samfélag þar sem nemendur geta í senn aflað sér þeirrar grunnmenntunar sem háskólar krefjast og lifað uppbyggilegu og innihaldsríku lífi. Háskólagáttin sé bæði í boði í staðnámi og fjarnámi. „Staðnemendur kynnast búsetu á Bifröst þar sem samfélag nemenda er ein heild, að skólanum meðtöldum. Fjarnemendur taka þátt í námslotum með reglulegu millibili á námstímanum og kynnast því einnig Háskólaþorpinu og samfélaginu á svæðinu.“
Í námi Háskólagáttar er höfuðáhersla lögð á færni nemenda í grunngreinum framhaldsskólans, íslensku, ensku og stærðfræði. Auk þessara grunngreina miðast kennslan sérstaklega við þarfir þeirra sem hyggjast stunda háskólanám á sviði félags- og hugvísinda.

Nemendur þurfa að hafa lokið 130 framhaldsskólaeiningum til þess að eiga kost á að hefja nám í Háskólagátt samkvæmt núgildandi einingakerfi. Það jafngildir um það bil 90 einingum samkvæmt gamla einingakerfinu. „Ef umsækjandi uppfyllir ekki inntökuskilyrði en býr yfir töluverðri starfsreynslu gefst honum kostur á að leggja fram niðurstöður raunfærnimats sem metur jafngilda reynslu og menntun. Námið tekur tvær annir og hefst á haustönn og það er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.“, segir Signý að lokum.

Viðtal við Bifresting: Þóra Margrét Þorgeirsdóttir

Útskriftarár: B.Sc. í viðskiptalögfræði: 2004 og M.Sc. í viðskiptalögfræði: 2008

Hvað ertu að gera í dag? Ég er ráðgjafi og einn af eigendum Gekon ehf. en Gekon er klasastjóri Iceland Geothermal, sem er fyrirtækjadrifið klasasamstarf á sviði jarðvarma. Við höfum byggt það verkefni upp í rúm þrjú ár, m.a. í samstarfi við Michael Porter, prófessor hjá Harvard Business School.

Tilgangur samstarfsins er að efla samkeppnishæfni innan íslenska jarðvarmaklasans með virðisauka greinarinnar og bætta nýtingu auðlindarinnar að leiðarljósi. Starfið grundvallast á tíu skilgreindum samstarfsverkefnum sem öll miða að því að styrkja innviði klasans. Að verkefnunum hafa komið um 200 manns frá 80 fyrirtækjum og stofnunum. Hlutverk okkar hjá Gekon er að halda utan um samstarfið og tryggja framgang samstarfsverkefnanna.

Hvað telur þú hafa nýst þér best úr náminu á Bifröst? Í heildina litið mundi ég segja að það hafi verið stöðug skil á raunhæfum verkefnum og gerð misserisverkefnanna. Öll sú vinna veitti manni ómetanlega þjálfun í að átta sig hratt á meginþáttum viðkomandi viðfangsefnis, koma hugsunum sínum og þekkingu á framfæri með skilmerkilegum hætti og vinna með öðru fólki.

Hvað er það eftirminnislegasta við háskólaárin þín? Það er svo margt! Fyrir utan það að hafa kynnst mínum elskulega eiginmanni og eignast dýrmæta vini, þá eru misserisverkefnin og skiptinámið til Shanghai á þriðja ári mjög eftirminnileg. Verð einnig að nefna gerð B.Sc. lokaverkefnisins, en í gegnum það kynntist ég Hákoni Gunnarssyni, sem var leiðbeinandi minn í verkefninu. Í dag rekum við saman klasastjórnunarfyrirtækið Gekon ehf. sem við höfum byggt upp frá því í október 2009.

Hvers vegna myndirðu mæla með Bifröst við þá sem eru að velja sér háskólanám? Vegna þess að á Bifröst er hægt að stunda mjög gott og krefjandi nám í afar fallegu og gefandi umhverfi. Um leið kynnist maður vel fjölda fólks með ólíkan bakgrunn, sem sumt á eftir að fylgja manni í gegnum allt lífið.

Bifrastarlistinn

Anna Ólöf Kristjánsdóttir, Ólafur Ísak Friðgeirsson og Þórunn Unnur Birgisdóttir

Bifrastarlistinn er listi yfir þá nemendur sem njóta afsláttar af skólagjöldum við Háskólann á Bifröst eða hljóta útskriftarverðlaun vegna frábærs árangurs í námi en verðlaunin eru veitt við hverja útskrift. Útskriftin fór fram 2. febrúar síðastliðinn. Þrír nemendur fengu skólagjöldin niðurfelld, Anna Ólöf Kristjánsdóttir, Ólafur Ísak Friðgeirsson og Þórunn Unnur Birgisdóttir, en þau má sjá á meðfylgjandi myndum.

Nokkrir aðrir nemendur hlutu útskriftarverðlaun: Unnar Steinn Bjarndal Björnsson fékk verðlaun fyrir hæstu einkunn í grunnámi í viðskiptasviði, Guðmundur Garðar Gíslason fyrir hæstu einkunn í grunnámi á lögfræðisviði, Hanna Ragnheiður Ingadóttir fyrir hæstu einkunn í grunnámi á félagsvísindasviði og Steingrímur Dúi Másson fyrir hæstu einkunn á meistaraprófi.